Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er vitað um áhrif tónlistar á námshæfileika?

Þórir Þórisson

Tengsl tónlistar við önnur svið

Hér er að líkindum átt við áhrif tónlistarnáms á námsgetu í öðrum greinum en tónlist. Í hnotskurn er svarið við spurningunni þetta: Á grundvelli þeirra vísindarannsókna sem fram hafa farið til þessa er hvorki hægt að staðfesta né alfarið hafna þeim möguleika að tónlistarnám geti leitt til aukinnar færni á afmörkuðum sviðum vitsmunastarfsemi svo sem rýmdarhugsunar (spatial thinking). Ekkert hefur hins vegar komið fram sem réttlætir jafn afgerandi ályktun og þá að tónlistarnám auki almenna greind fólks (Hodges, 2000).

Spurningin hvort nám í tónlist yfirfærist og auðveldi nám á öðrum sviðum hefur lengi vakið áhuga sálfræðinga, tónlistarmanna og almennings. Spurningin er eðlileg í ljósi þess að skilningur á tónlist byggist ekki einasta á skynjun tónhæðar, hrynmynstra og hlutfalla, heldur einnig á minni, væntingum, samanburði, flokkun og fjölda annarra vitsmunalegra ferla sem reynir á í öðru námi.

Auk þess styðst spurningin við sálfræðilegar tilgátur sem alls ekki eru fráleitar. Hugfræðikenningar sem nú eru mest í tísku gera ráð fyrir verkaskiptingu hugans, þar sem tónlistarfærni sé tiltölulega sjálfstæð og aðskilin frá orðrænni greind og stærðfræðigreind til dæmis (samanber fjölgreindakenningu Howard Gardners, 1993). Enn er þeirri spurningu þó ósvarað að hve miklu leyti þessi tiltölulega sjálfstæðu greindarkerfi tengist og vinni saman. Heilarannsóknir hafa sýnt að tengingar milli heilasvæða sem verða fyrir tíðri örvun skapa sitt eigið minni og vensl. Þetta gæti skýrt yfirfærslu tónlistarnáms yfir á önnur greindarsvið (Spychinger, 1998).

„Mozart-áhrifin”

Töluverð gróska var í rannsóknum á yfirfærsluáhrifum tónlistarnáms kringum 1970. Hún dvínaði um skeið en fékk byr undir báða vængi þegar vinsæl blöð og tímarit hentu á lofti og oftúlkuðu rannsóknarniðurstöður Frances Rauscher og félaga (1993 og 1995) varðandi hin svokölluðu Mozart-áhrif. Mozart-áhrifin fólust í því að háskólanemar sem hlustuðu á tónlist eftir Mozart (sónötu í D dúr K. 448 fyrir tvö píanó) í 10 mínútur bættu frammistöðu sína á einu af 15 undirprófum Stanford Binet-greindarprófsins um 8-9 stig. Áhrifin stóðu í 10-15 mínútur.

Þetta tiltekna undirpróf reynir á rýmdarhugsun (spatial-temporal ability) og hæfileikann til að geta snúið hlutum í huga sér (mental rotation). Slík færni er talin grundvöllur þess að geta hugsað og reiknað í hlutföllum. Fyrirsögn á borð við „Music raises IQ scores” (í bandaríska tímaritinu Teaching Music, ágúst 1999) er eitt dæmi af mörgum um oftúlkun á þessari niðurstöðu. Litið er fram hjá því að aðeins er um eitt af 15 undirprófum Stanford Binet prófsins að ræða, en sameiginlega er þeim ætlað að mæla almenna greind (IQ).

Mozart-áhrifin eru vægast sagt umdeild og í síðari rannsóknum hefur ýmist heppnast eða misheppnast að kalla þau fram þótt kringumstæður séu þær sömu (Demorest & Morrison, 2000). Einnig hefur tekist að framkalla „Mozart-áhrif” með öðrum áreitum, til dæmis með háttbundnum hrynmynstrum án tónhæðar (Parsons & Martinez í Hodges, 2000) og með því að segja fólki sögu (Nantais & Schellenberg, 1999).

Þetta hefur leitt til þeirrar tilgátu að örvun þátttakenda leiði til þess að þeir standa sig betur á prófi í rýmdarhugsun, ekki tónlist Mozarts sem slík. Þess má að lokum geta að virkni sömu heilasvæða við hlustun á tónlist og við lausn rúmfræðiþrauta er gjarnan notuð til að renna styrkari stoðum undir niðurstöður rannsókna af þessu tagi (t.d. Zatorre, 1994).

Samanburðarrannsóknir

Miklu fleiri rannsóknir hafa verið gerðar þar sem borin eru saman fjölmenn úrtök nemenda í tónlist við samanburðarhópa til að sýna fram á jákvæð og langvarandi áhrif tónlistarnáms á námsgetu á hinum ýmsu sviðum: skólanám yfir höfuð (Spychiger o.fl. 1993); málþroska og lestur eftir tónlistarnám samkvæmt Kodály-aðferðinni (Hurwitz o.fl. 1975); stærðfræði og skapandi hugsun (Wolff, 1979). Costa-Giomi (1997) sýndi fram á jákvæð áhrif píanónáms á mál- og stærðfræðigetu en þó einkum rýmdarskynjun 10-11 ára barna. Þá má nefna nýja íslenska rannsókn þar sem einkunnir nemenda er notið höfðu tónlistarnáms voru bornar saman við samanburðarhóp á samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði (Sigríður Teitsdóttir, 2001).

Rannsóknir samkvæmt þessari hefð skipta nú tugum og eru niðurstöður þeirra mjög svo beggja blands. Í nýlegri yfirlitsgrein eftir C. Sharp, The effects of teaching and learning the arts (Sharp 1998) er rýnt í niðurstöður fjölda rannsókna á áhrifum listkennslu á námsárangur, þar á meðal 16 rannsókna sem fengust við áhrif tónlistar eingöngu. Hluti þeirra staðfesti jákvæð áhrif tónlistar á vitsmunaþroska og námsárangur barna (rýmdar- og formskyn, lestur og stærðfræði, auk félagsþroska). Jafnmargar rannsóknir leiddu þó til öndverðrar eða óljósrar niðustöðu. Sharp bætir því við að þær fyrrnefndu einkennist bæði af tilhneigingu til að oftúlka niðustöður og af ónákvæmum skilgreiningum á því í hverju tónlistarnámið var fólgið. Síðara atriðið er einmitt annar meginveikleiki rannsókna á þessu sviði og verður nánar vikið að því hér á eftir.

Takmarkanir

Hin megintakmörkunin er að nær allar þær rannsóknir sem gerðar hafa verið byggjast á tölfræðilegri fylgni í einni eða annarri mynd. Eins og mörgum er sjálfsagt ljóst, sannar fylgni ekkert um orsakasamband þegar margar áhrifabreytur leika lausum hala. Margar og mismunandi ástæður geta legið til þess að börn ákveða að hefja hljóðfæranám og enn fleiri ástæður fyrir því að þau ýmist endast eða hætta fljótt í slíku námi. Nefna má eigin áhuga þeirra, persónueinkenni svo sem úthald, stuðning foreldra og vina, fjárhagsstöðu fjölskyldu, hvatningu og væntingar kennara um árangur. Allir hafa þessir þættir sín eigin tengsl við námsárangur nemenda, bæði einir og sér og í samspili sín á milli.

Í sumum rannsóknum hafa verið gerðar virðingarverðar tilraunir til að hafa stjórn á mikilvægum áhrifaþáttum svo sem félagslegri stöðu nemenda. Samt sem áður er ljóst að fara verður mjög varlega í að draga ályktanir út frá fylgni þar sem hún segir okkur lítið um áhrif tónlistar einnar og sér á námsárangur í öðrum greinum.

Áður var vikið að þeim veikleika rannsókna á yfirfærsluáhrifum tónlistarnáms, að tónlistarnámið er oft á tíðum illa skilgreint og notað sem regnhlífarhugtak yfir ólík viðfangsefni eins og einkatíma í hljóðfæraleik, bekkjarkennslu í tónmennt, eða tiltölulega óvirka hlustun á tónlist. Eins og Thorndike og Woodward bentu á fyrir einni öld byggist yfirfærsla milli námsgreina á því að um sameiginlega þætti og lík viðfangsefni sé að ræða. Hvaða tónlistariðkun sem vera skal leiðir að sjálfsögðu ekki til framfara á hvaða sviði öðru sem er. Hugsanlegt er að löng og ströng þjálfun í nótnalestri með sol-fa heitum (do-re-mí) gæti leitt til bættrar einbeitingar og hugsanlega til aukinnar leikni í meðferð talna. Afar langsótt væri hins vegar að búast við framförum í skapandi hugsun eða auknum félagsþroska.

Að lokum

Rannsóknir, hvort sem þær fylgja aðferðum heilarannsókna eða hefðbundinna félagsvísinda, eiga langt í land með að sanna að tónlistarnám orsaki aukna námsgetu á öðrum sviðum. Til þess eru þær of ónákvæmar og grófgerðar enn sem komið er. Okkar eigið innsæi segir okkur hins vegar, að mjög líklegt sé að langt og strangt tónlistarnám og sá agi sem það veitir nýtist einstaklingnum til náms í öðrum greinum. Sé námið stundað frá blautu barnsbeini er einnig hugsanlegt að einhverjar þær tengingar eigi sér stað í heila sem nýtist á öðrum sviðum. Frekari rannsóknir munu í framtíðinni vonandi svara því hvort tónlistarnám hafi jákvæð áhrif á námsgetu á öðrum sviðum, og þá á hvaða sviðum, hvers konar tónlistarnám þurfi til, hve langvarandi og síðast en ekki síst hvers vegna slík yfirfærsla eigi sér stað.

Eitt er þó víst; tónlistarnám gagnast vel til tónlistariðkunar. Það eykur í langflestum tilfellum leikni, skilning og færni nemandans í upplifun, túlkun og tjáningu tónlistar. Það ætti að nægja til að gera það eftirsóknarvert.

Heimildir:

Costa-Giomi, E. (1997). „The McGill Piano Project: Effects of piano instruction on children’s cognitive abilities.” Proceedings of the third triennial ESCOM Conference, Uppsala, Sweden.

Demorest, S. M., & Morrison, S. J. (2000). „Does music make you smarter?” Music Educators Journal, sept. 2000, bls. 33-39.

Hodges, D. A. (2000). „A virtual panel of expert researchers: Four researchers in the field of music and the brain answer questions about their work and its larger implications.” Music Educators Journal,sept. 2000, bls. 40-60.

Hurwitz, I., Wolff, P. H., Bortnick, B. D., Barrie, D. og Kokas, K. (1975). „Non musical effects of the Kodaly music curriculum in primary grade children.” Journal of Learning Disabilities, 8:3 (March, 1975).

Lamont, A. (1998). „Response to K. Overy’s paper “Can music really ‘improve’ the mind?”” Psychology of Music, 26 (2), 201-204.

Nantais, K. M. & Schellenberg, E. G. (1999). „The Mozart effect: An artifact of preference”. Psychological Science, 1999, 10. [Einnig fáanleg á slóðinni http://132.198.140.98/lies4thedition/Classfolder/MozartEffect/Nantais.html]

Overy, K. (1998). „Can music really “improve” the mind?” Psychology of Music, 26 (1), 97-99.

Rauscher, F. H., Shaw, G. L. og Ky, K. N. (1993). „Music and spatial task performance.” Nature, 365, 611.

Rauscher, F. H., Shaw, G. L. og Ky, K. N. (1995). „Listening to Mozart enhances spatial-temporal reasoning: towards a neurophysiological basis”. Neuroscience Letters, 185, 44-47.

Sharp, C. (1998). The effects of teaching and learning the arts. London: National Foundation for Educational Research, 1998, tilfærð í Lamont 1998.

Sigríður Teitsdóttir (2001). „Skerpir tónlistin skilninginn?” Skólavarðan, 1, 3, 12-13. Grein byggð á M.Ed. ritgerð við Kennaraháskóla Íslands, vorið 2000.

Spychiger o.fl. (1993). „Music makes the school”. Útdráttur í Overy, K. (1998). „Can Music really “improve” the mind?” Psychology of Music, 26 (1), 97-89.

Spychiger, M. (1998). „Response to K. Overy’s paper “Can music really ‘improve’ the mind?”” Psychology of Music, 26 (2), 199-201.

Thorndike, E. L., & Woodward, R. S. (1901). „The influence of improvement in one mental function upon the efficiency of other functions”. Psychological Review, 8, 247-261.

Wolff, K. L. (1979). „The effects of general music education on the academic achievement, perceptual-motor development, creative thinking, and school attendance of first-grade children”. Óútgefin doktorsritgerð, University of Michigan, Bandaríkin. UMI nr. 8007863.

Zatorre, R. (1994). „Musical processing in the non-musician’s brain: Evidence for specialised neural networks”. I. Deliége (ritstjóri), Proceedings of the 3rd International Conference for Music Perception and Cognition, Liége, Belgium, 39-40.Mynd: Vefsetur Howard Gardner og Project Zero

Höfundur

kennari við kennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík

Útgáfudagur

15.5.2001

Spyrjandi

Jónas Þórir

Tilvísun

Þórir Þórisson. „Hvað er vitað um áhrif tónlistar á námshæfileika?“ Vísindavefurinn, 15. maí 2001, sótt 16. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1607.

Þórir Þórisson. (2001, 15. maí). Hvað er vitað um áhrif tónlistar á námshæfileika? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1607

Þórir Þórisson. „Hvað er vitað um áhrif tónlistar á námshæfileika?“ Vísindavefurinn. 15. maí. 2001. Vefsíða. 16. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1607>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er vitað um áhrif tónlistar á námshæfileika?
Tengsl tónlistar við önnur svið

Hér er að líkindum átt við áhrif tónlistarnáms á námsgetu í öðrum greinum en tónlist. Í hnotskurn er svarið við spurningunni þetta: Á grundvelli þeirra vísindarannsókna sem fram hafa farið til þessa er hvorki hægt að staðfesta né alfarið hafna þeim möguleika að tónlistarnám geti leitt til aukinnar færni á afmörkuðum sviðum vitsmunastarfsemi svo sem rýmdarhugsunar (spatial thinking). Ekkert hefur hins vegar komið fram sem réttlætir jafn afgerandi ályktun og þá að tónlistarnám auki almenna greind fólks (Hodges, 2000).

Spurningin hvort nám í tónlist yfirfærist og auðveldi nám á öðrum sviðum hefur lengi vakið áhuga sálfræðinga, tónlistarmanna og almennings. Spurningin er eðlileg í ljósi þess að skilningur á tónlist byggist ekki einasta á skynjun tónhæðar, hrynmynstra og hlutfalla, heldur einnig á minni, væntingum, samanburði, flokkun og fjölda annarra vitsmunalegra ferla sem reynir á í öðru námi.

Auk þess styðst spurningin við sálfræðilegar tilgátur sem alls ekki eru fráleitar. Hugfræðikenningar sem nú eru mest í tísku gera ráð fyrir verkaskiptingu hugans, þar sem tónlistarfærni sé tiltölulega sjálfstæð og aðskilin frá orðrænni greind og stærðfræðigreind til dæmis (samanber fjölgreindakenningu Howard Gardners, 1993). Enn er þeirri spurningu þó ósvarað að hve miklu leyti þessi tiltölulega sjálfstæðu greindarkerfi tengist og vinni saman. Heilarannsóknir hafa sýnt að tengingar milli heilasvæða sem verða fyrir tíðri örvun skapa sitt eigið minni og vensl. Þetta gæti skýrt yfirfærslu tónlistarnáms yfir á önnur greindarsvið (Spychinger, 1998).

„Mozart-áhrifin”

Töluverð gróska var í rannsóknum á yfirfærsluáhrifum tónlistarnáms kringum 1970. Hún dvínaði um skeið en fékk byr undir báða vængi þegar vinsæl blöð og tímarit hentu á lofti og oftúlkuðu rannsóknarniðurstöður Frances Rauscher og félaga (1993 og 1995) varðandi hin svokölluðu Mozart-áhrif. Mozart-áhrifin fólust í því að háskólanemar sem hlustuðu á tónlist eftir Mozart (sónötu í D dúr K. 448 fyrir tvö píanó) í 10 mínútur bættu frammistöðu sína á einu af 15 undirprófum Stanford Binet-greindarprófsins um 8-9 stig. Áhrifin stóðu í 10-15 mínútur.

Þetta tiltekna undirpróf reynir á rýmdarhugsun (spatial-temporal ability) og hæfileikann til að geta snúið hlutum í huga sér (mental rotation). Slík færni er talin grundvöllur þess að geta hugsað og reiknað í hlutföllum. Fyrirsögn á borð við „Music raises IQ scores” (í bandaríska tímaritinu Teaching Music, ágúst 1999) er eitt dæmi af mörgum um oftúlkun á þessari niðurstöðu. Litið er fram hjá því að aðeins er um eitt af 15 undirprófum Stanford Binet prófsins að ræða, en sameiginlega er þeim ætlað að mæla almenna greind (IQ).

Mozart-áhrifin eru vægast sagt umdeild og í síðari rannsóknum hefur ýmist heppnast eða misheppnast að kalla þau fram þótt kringumstæður séu þær sömu (Demorest & Morrison, 2000). Einnig hefur tekist að framkalla „Mozart-áhrif” með öðrum áreitum, til dæmis með háttbundnum hrynmynstrum án tónhæðar (Parsons & Martinez í Hodges, 2000) og með því að segja fólki sögu (Nantais & Schellenberg, 1999).

Þetta hefur leitt til þeirrar tilgátu að örvun þátttakenda leiði til þess að þeir standa sig betur á prófi í rýmdarhugsun, ekki tónlist Mozarts sem slík. Þess má að lokum geta að virkni sömu heilasvæða við hlustun á tónlist og við lausn rúmfræðiþrauta er gjarnan notuð til að renna styrkari stoðum undir niðurstöður rannsókna af þessu tagi (t.d. Zatorre, 1994).

Samanburðarrannsóknir

Miklu fleiri rannsóknir hafa verið gerðar þar sem borin eru saman fjölmenn úrtök nemenda í tónlist við samanburðarhópa til að sýna fram á jákvæð og langvarandi áhrif tónlistarnáms á námsgetu á hinum ýmsu sviðum: skólanám yfir höfuð (Spychiger o.fl. 1993); málþroska og lestur eftir tónlistarnám samkvæmt Kodály-aðferðinni (Hurwitz o.fl. 1975); stærðfræði og skapandi hugsun (Wolff, 1979). Costa-Giomi (1997) sýndi fram á jákvæð áhrif píanónáms á mál- og stærðfræðigetu en þó einkum rýmdarskynjun 10-11 ára barna. Þá má nefna nýja íslenska rannsókn þar sem einkunnir nemenda er notið höfðu tónlistarnáms voru bornar saman við samanburðarhóp á samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði (Sigríður Teitsdóttir, 2001).

Rannsóknir samkvæmt þessari hefð skipta nú tugum og eru niðurstöður þeirra mjög svo beggja blands. Í nýlegri yfirlitsgrein eftir C. Sharp, The effects of teaching and learning the arts (Sharp 1998) er rýnt í niðurstöður fjölda rannsókna á áhrifum listkennslu á námsárangur, þar á meðal 16 rannsókna sem fengust við áhrif tónlistar eingöngu. Hluti þeirra staðfesti jákvæð áhrif tónlistar á vitsmunaþroska og námsárangur barna (rýmdar- og formskyn, lestur og stærðfræði, auk félagsþroska). Jafnmargar rannsóknir leiddu þó til öndverðrar eða óljósrar niðustöðu. Sharp bætir því við að þær fyrrnefndu einkennist bæði af tilhneigingu til að oftúlka niðustöður og af ónákvæmum skilgreiningum á því í hverju tónlistarnámið var fólgið. Síðara atriðið er einmitt annar meginveikleiki rannsókna á þessu sviði og verður nánar vikið að því hér á eftir.

Takmarkanir

Hin megintakmörkunin er að nær allar þær rannsóknir sem gerðar hafa verið byggjast á tölfræðilegri fylgni í einni eða annarri mynd. Eins og mörgum er sjálfsagt ljóst, sannar fylgni ekkert um orsakasamband þegar margar áhrifabreytur leika lausum hala. Margar og mismunandi ástæður geta legið til þess að börn ákveða að hefja hljóðfæranám og enn fleiri ástæður fyrir því að þau ýmist endast eða hætta fljótt í slíku námi. Nefna má eigin áhuga þeirra, persónueinkenni svo sem úthald, stuðning foreldra og vina, fjárhagsstöðu fjölskyldu, hvatningu og væntingar kennara um árangur. Allir hafa þessir þættir sín eigin tengsl við námsárangur nemenda, bæði einir og sér og í samspili sín á milli.

Í sumum rannsóknum hafa verið gerðar virðingarverðar tilraunir til að hafa stjórn á mikilvægum áhrifaþáttum svo sem félagslegri stöðu nemenda. Samt sem áður er ljóst að fara verður mjög varlega í að draga ályktanir út frá fylgni þar sem hún segir okkur lítið um áhrif tónlistar einnar og sér á námsárangur í öðrum greinum.

Áður var vikið að þeim veikleika rannsókna á yfirfærsluáhrifum tónlistarnáms, að tónlistarnámið er oft á tíðum illa skilgreint og notað sem regnhlífarhugtak yfir ólík viðfangsefni eins og einkatíma í hljóðfæraleik, bekkjarkennslu í tónmennt, eða tiltölulega óvirka hlustun á tónlist. Eins og Thorndike og Woodward bentu á fyrir einni öld byggist yfirfærsla milli námsgreina á því að um sameiginlega þætti og lík viðfangsefni sé að ræða. Hvaða tónlistariðkun sem vera skal leiðir að sjálfsögðu ekki til framfara á hvaða sviði öðru sem er. Hugsanlegt er að löng og ströng þjálfun í nótnalestri með sol-fa heitum (do-re-mí) gæti leitt til bættrar einbeitingar og hugsanlega til aukinnar leikni í meðferð talna. Afar langsótt væri hins vegar að búast við framförum í skapandi hugsun eða auknum félagsþroska.

Að lokum

Rannsóknir, hvort sem þær fylgja aðferðum heilarannsókna eða hefðbundinna félagsvísinda, eiga langt í land með að sanna að tónlistarnám orsaki aukna námsgetu á öðrum sviðum. Til þess eru þær of ónákvæmar og grófgerðar enn sem komið er. Okkar eigið innsæi segir okkur hins vegar, að mjög líklegt sé að langt og strangt tónlistarnám og sá agi sem það veitir nýtist einstaklingnum til náms í öðrum greinum. Sé námið stundað frá blautu barnsbeini er einnig hugsanlegt að einhverjar þær tengingar eigi sér stað í heila sem nýtist á öðrum sviðum. Frekari rannsóknir munu í framtíðinni vonandi svara því hvort tónlistarnám hafi jákvæð áhrif á námsgetu á öðrum sviðum, og þá á hvaða sviðum, hvers konar tónlistarnám þurfi til, hve langvarandi og síðast en ekki síst hvers vegna slík yfirfærsla eigi sér stað.

Eitt er þó víst; tónlistarnám gagnast vel til tónlistariðkunar. Það eykur í langflestum tilfellum leikni, skilning og færni nemandans í upplifun, túlkun og tjáningu tónlistar. Það ætti að nægja til að gera það eftirsóknarvert.

Heimildir:

Costa-Giomi, E. (1997). „The McGill Piano Project: Effects of piano instruction on children’s cognitive abilities.” Proceedings of the third triennial ESCOM Conference, Uppsala, Sweden.

Demorest, S. M., & Morrison, S. J. (2000). „Does music make you smarter?” Music Educators Journal, sept. 2000, bls. 33-39.

Hodges, D. A. (2000). „A virtual panel of expert researchers: Four researchers in the field of music and the brain answer questions about their work and its larger implications.” Music Educators Journal,sept. 2000, bls. 40-60.

Hurwitz, I., Wolff, P. H., Bortnick, B. D., Barrie, D. og Kokas, K. (1975). „Non musical effects of the Kodaly music curriculum in primary grade children.” Journal of Learning Disabilities, 8:3 (March, 1975).

Lamont, A. (1998). „Response to K. Overy’s paper “Can music really ‘improve’ the mind?”” Psychology of Music, 26 (2), 201-204.

Nantais, K. M. & Schellenberg, E. G. (1999). „The Mozart effect: An artifact of preference”. Psychological Science, 1999, 10. [Einnig fáanleg á slóðinni http://132.198.140.98/lies4thedition/Classfolder/MozartEffect/Nantais.html]

Overy, K. (1998). „Can music really “improve” the mind?” Psychology of Music, 26 (1), 97-99.

Rauscher, F. H., Shaw, G. L. og Ky, K. N. (1993). „Music and spatial task performance.” Nature, 365, 611.

Rauscher, F. H., Shaw, G. L. og Ky, K. N. (1995). „Listening to Mozart enhances spatial-temporal reasoning: towards a neurophysiological basis”. Neuroscience Letters, 185, 44-47.

Sharp, C. (1998). The effects of teaching and learning the arts. London: National Foundation for Educational Research, 1998, tilfærð í Lamont 1998.

Sigríður Teitsdóttir (2001). „Skerpir tónlistin skilninginn?” Skólavarðan, 1, 3, 12-13. Grein byggð á M.Ed. ritgerð við Kennaraháskóla Íslands, vorið 2000.

Spychiger o.fl. (1993). „Music makes the school”. Útdráttur í Overy, K. (1998). „Can Music really “improve” the mind?” Psychology of Music, 26 (1), 97-89.

Spychiger, M. (1998). „Response to K. Overy’s paper “Can music really ‘improve’ the mind?”” Psychology of Music, 26 (2), 199-201.

Thorndike, E. L., & Woodward, R. S. (1901). „The influence of improvement in one mental function upon the efficiency of other functions”. Psychological Review, 8, 247-261.

Wolff, K. L. (1979). „The effects of general music education on the academic achievement, perceptual-motor development, creative thinking, and school attendance of first-grade children”. Óútgefin doktorsritgerð, University of Michigan, Bandaríkin. UMI nr. 8007863.

Zatorre, R. (1994). „Musical processing in the non-musician’s brain: Evidence for specialised neural networks”. I. Deliége (ritstjóri), Proceedings of the 3rd International Conference for Music Perception and Cognition, Liége, Belgium, 39-40.Mynd: Vefsetur Howard Gardner og Project Zero...