Hver mínúta er 60 sekúndur og hver klukkustund 60 mínútur. Klukkustund er því 60 * 60 = 3.600 sekúndur.
Sólarhringur er 24 klukkustundir eða 24*3600 = 86.400 sekúndur.
Við getum svo haldið áfram að reikna:
Í hverri viku eru 7*86.400 = 604.800 sekúndur.
Fjögurra vikna gamalt barn hefur því lifað í 2.419.200 sekúndur.
Málið vandast eilítið þegar talið berst að árinu því að þá þarf að tiltaka um hvers konar ár er verið að tala. Einfalt er að reikna að venjulegt almanaksár, sem er 365 sólarhringar, er 31.536.000 sekúndur eða 8.760 klukkustundir. Hlaupárið er hins vegar 31.622.400 sekúndur eða 8.784 klukkustundir.
Meðalárið í tímatali okkar, gregoríanska árið, er 365,2425 sólarhringar eða 8765,82 klukkustundir eða 31.556.952 sekúndur. Náttúrlega árið sem ræður árstíðaskiptum, hvarfárið, er hins vegar 365,24220 sólarhringar eða 31.556.926 sekúndur samkvæmt því.
Sekúndan er nú sú tímaeining sem lögð er til grundvallar í alþjóðlega einingakerfinu (SI) og þar með í vísindalegum tímamælingum. Hún er nú skilgreind sem tiltekið margfeldi af sveiflutíma í rafsegulgeislun frá sesíni 133 (Cs-133) sem er ein af samsætum frumefnisins sesíns (cesium).
Tímaeiningarnar hvarfár, sólarhringur og sekúnda miðast þannig allar við tiltekin fyrirbæri náttúrunnar, umferðartíma jarðar, möndulsnúning hennar og tiltekna geislun frá atómum. Þekkt er að sólarhringurinn lengist hægt og hægt vegna sjávarfallakrafta sem draga úr möndulsnúningnum og er vikið að því í öðrum svörum hér á Vísindavefnum.
Heimild: Almanak Háskóla Íslands.
Mynd: HB