Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Sjáum við litina eins? Sé ég rauðan eins og þú sérð rauðan? Sérð þú kannski rauðan eins og ég sé grænan?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Hugmyndin um öfugt litróf (e. inverted spectrum) hefur verið töluvert til umræðu á undanförnum áratugum meðal þeirra heimspekinga sem fást við heimspeki mannshugarins. Þessa hugmynd má þó rekja lengra aftur í tíma en til undanfarinna áratuga því að hún er sett fram hjá John Locke (1632-1704) í bók hans An Essay concerning Human Understanding:
Né myndi það hafa í för með sér nokkra vísbendingu um að hinar einföldu hugmyndir okkar væru rangar ef það væri svo, vegna mismunandi gerðar líffæra okkar, að sami hluturinn ylli í hugum margra manna mismunandi hugmyndum á sama tíma; til dæmis ef hugmyndin sem fjóla veldur í huga eins manns gegnum augu hans væri sú hin sama og gullfífill veldur í huga annars, og öfugt (II. bók, XXXIII. kafli, 5. grein).
Hugmynd Lockes er sem sagt sú að vel sé hægt að hugsa sér að sú reynsla eða upplifun sem ein manneskja verður fyrir þegar hún sér eitthvað fjólublátt sé alveg eins og upplifun annarrar manneskju þegar hún sér eitthvað gult. Jafnframt bendir hann á að við gætum aldrei komist að því hvort þetta sé svona í raun og veru þar sem „eins manns hugur getur ekki ferðast inn í annars manns líkama”.

Hugsum okkur að Dísa og Rúna sitji saman í sumarblíðunni og virði fyrir sér gullfífil (sem gengur reyndar oftast undir nafninu morgunfrú). Þær eru sammála um að blómið sé gult, alveg eins og sólin, bananar og strætisvagnar Reykjavíkur. En það er líka eitthvað sem þær upplifa innra með sér þegar þær sjá gula litinn; einhver innri reynsla sem þær tengja við gulan lit og sem þær nota til að þekkja gula hluti. Hvor um sig getur hugsað: „Þegar ég upplifi eitthvað svona þá er ég að horfa á eitthvað gult.”

En nú vill svo til að þessi innri upplifun Dísu er nákvæmlega eins og hughrifin sem Rúna verður fyrir þegar hún sér eitthvað fjólublátt. Hughrifin sem Dísa verður fyrir þegar hún sér eitthvað fjólublátt líkjast aftur á móti því sem Rúna upplifir þegar hún sér eitthvað gult.

Þær Dísa og Rúna komast aldrei að því að hughrif þeirra séu mismunandi því að þær geta ekki borið þau saman. Eini samanburðurinn felst í hvað þær kalla litina og ef ekkert misræmi er að finna þar er engin leið að meta hvort hughrif þeirra séu eins eða ekki. Hvor um sig hefur aðeins aðgang að hegðun hinnar en ekki að því sem fer fram í hug hennar. Hvert og eitt okkar hefur aðeins aðgang að eigin hug og meðan við þekkjum ekki leiðir til að heimsækja hugi annarra getur Dísa ekki vitað hvernig það er að vera Rúna og sjá gullfífil, bragða á jarðarberi eða finna ilminn af nýsleginni grasflöt.

Sumir telja þetta þó ekki mögulegt; ef Dísa og Rúna upplifðu ekki það sama þegar þær sæju gullfífla þá hlyti það að koma fram í hegðun þeirra. Samkvæmt þeim getur það því ekki verið svo að við skynjum liti á mismunandi hátt eins og lýst er hér að ofan, þar sem reynslan sýnir að almennt ríkir sátt um það hvernig hlutirnir eru á litinn; að gullfíflar séu gulir og fjólur fjólubláar.

Möguleikinn á öfugri skynjun á litrófinu er því umdeildur meðal heimspekinga. Deilan snýst í raun um ákveðin atriði í eðli skynjunarinnar og langt og flókið mál væri að útskýra hana til hlítar. Hins vegar má fara yfir þessi helstu atriði í grófum dráttum.

Sú skoðun er útbreidd meðal beggja deiluaðila að skynjun, til dæmis á gulum gullfífli, hljóti alltaf að beinast einhverju. Þegar ég sé gullfífillinn finnst mér að þarna sé gullfífill sem er gulur. Því má segja að skynjunin feli í sér einskonar túlkun eða endurspeglun á gullfíflinum. Þetta viðhorf til skynjunar er ekki óumdeilt en hefur þó verið mjög útbreitt meðal hugspekinga á síðari árum.

Ágreiningurinn milli þeirra sem telja mögulegt að skynjun á litrófi geti verið öfug án þess að nokkur uppgötvi það og hinna sem hafna þeim möguleika snýst svo um það hvort skynjunin á gullfíflinum feli eitthvað fleira í sér en túlkunina á gullfíflinum. Þeir sem telja öfuga litrófið mögulegt telja að þótt þær Dísa og Rúna eigi það sameiginlegt að skynjanir þeirra endurspegli gullfífilinn og séu eins að því leyti þá hafi skynjanir þeirra jafnframt aðra eiginleika sem geti verið ólíkir (Block 1990, Shoemaker 1982 og 1996).

Þessa eiginleika getum við kallað finningar (e. qualia). Finningarnar eru það sem einkennir viðkomandi hughrif; eitthvað sem við notum til að þekkja samskonar reynslu aftur en getum ekki lýst nema með tilvísun í samskonar hughrif. Finningin sem einkennir þau hughrif sem við verðum fyrir þegar við sjáum eitthvað gult er til dæmis eitthvað sem engin leið er að lýsa fyrir manneskju sem aldrei hefur séð liti (sjá t.d. Nagel 1974). Yfirleitt er gert ráð fyrir að finningar túlki ekkert og fjalli ekki um neitt annað heldur séu þær ákveðin einkenni reynslu sem við þekkjum svo aftur.

Aðgangur okkar að finningum er aðeins gegnum eigin huga. Við getum því ekki skoðað finningar annarra. Þegar Dísa talar um innri upplifun sína af gullfíflinum gerir Rúna kannski ráð fyrir því að sú finning sem Dísa á við sé eins og hennar eigin finning en það er engin leið fyrir hana til að komast að raun um það. Hugmyndin um öfuga litrófið byggir sem sagt á því að þótt Dísa og Rúna skynji báðar gulan gullfífil þá sé sú finning sem fylgir skynjun á gulu hjá Dísu sambærileg við þá sem fylgir skynjun á fjólubláu hjá Rúnu.

Þeir sem hafna möguleikanum á öfugu litrófi hafna finningum sem einhverju aðskildu frá því sem skynjunin túlkar eða endurspeglar (Harman 1990, Tye 1992). Skynjunin er samkvæmt þeim einfaldlega þessi túlkun eða endurspeglun og það er marklaust að tala um einhverja aðra eiginleika skynjunar á gullfífli sem gefi eitthvað til kynna umfram túlkunina á gullfíflinum. Slík skoðun þarf ekki endilega að fela í sér höfnun á innri upplifun, heldur er hún höfnun á því að þessi innri upplifun sé eitthvað annað en túlkunin á hlutunum kringum okkur. Ef litið er svo á að finning geti ekki verið túlkun eða endurspeglun á öðrum hlut felur þessi skoðun jafnframt í sér höfnun á tilvist finninga.

Að auki má nefna önnur möguleg rök gegn öfugu litrófi sem treysta jafnvel á finningar. Samkvæmt þeim eru þau hughrif sem fólk verður fyrir við skynjun mismunandi lita svo ólík að það hlyti alltaf að koma fram í mismunandi hegðun fólks ef það yrði ekki fyrir samskonar hughrifum. Það er eitthvað við hughrifin sem gulir hlutir valda sem er nátengt þeirri hegðun sem fólk sýnir í návist gulra hluta, sambærilegt við það að fólk grettir sig þegar það bítur í súra sítrónu. Fjólubláir hlutir valda annarskonar hughrifum sem tengjast annarskonar hegðun.

Gegn þessum rökum má benda á að þau hvíla á þeirri forsendu að það séu finningarnar sem slíkar sem valdi hegðuninni; að viðbrögð mismunandi einstaklinga við einni og sömu finningunni hljóti alltaf að vera svipuð. Þetta er auðvitað ekki rétt að gefa sér. Það er til dæmis vel hugsanlegt að viðbrögð okkar við þeirri finningu sem einkennir skynjun á gulu ráðist af reynslu okkar af hinum ýmsu gulu hlutum sem við höfum séð. Finningar Dísu og Rúnu þegar þær horfa á gullfífilinn geta þá verið ólíkar en viðbrögð þeirra og hegðun samt sem áður svipuð vegna þess að þau byggjast á reynslu þeirra af allskonar gulum hlutum, til dæmis af hita sólarinnar.

Til stuðnings málflutningi sínum hafa málsvarar öfuga litrófsins samið sögur af hugsanlegum kringumstæðum sem á einn eða annan hátt eru hliðstæðar þeim möguleika sem hefur verið ræddur hér (sjá t.d. Block 1990 og Shoemaker 1996). Þar má nefna hugleiðingar um manneskju sem undirgengst aðgerð sem veldur því að henni finnst himinninn gulur, grasið rautt, og svo framvegis, og um manneskju sem er flutt í heim þar sem himinninn er gulur og grasið rautt en er með linsur sem snúa litunum við þannig að hún veit ekki af þessu. Andmælendur öfuga litrófsins glíma svo við að sýna fram á að þessi dæmi feli í sér mótsagnir eða dugi ekki til að sanna það sem þeim er ætlað að sanna.

Af ofansögðu má sjá að ekki er til afdráttarlaust og óumdeilanlegt svar við spurningunni sem lögð var fram. Andmælendur öfugs litrófs hljóta að svara spurningunni „Sjáum við litina eins?” játandi þar sem hið gagnstæða hlyti að koma fram í hegðun okkar. Hinir svara spurningunni þannig að engin leið sé að vita hvort við sjáum öll litina eins og vel sé mögulegt að svo sé ekki. Inn í þetta blandast svo sértæk tæknileg deila um eðli skynjunarinnar.

Heimildir:

Ned Block (1990), „Inverted Earth”, í: J. Tomberlin (ritstj.), Philosophical Perspectives, 4: Action Theory and Philosophy of Mind, Atascadero: Ridgeview.

Gilbert Harman (1990), „The Intrinsic Quality of Experience,” Philosophical Perspectives, 4: Action Theory and Philosophy of Mind, Atascadero: Ridgeview.

John Locke (1975 – upph. útg. 1689), An Essay concerning Human Understanding, ritstj. P. Nidditch, Oxford: Clarendon.

Thomas Nagel (1974), „What Is It Like to Be a Bat?”, Philosophical Review LXXXIII 4, bls. 435-50.

Sydney Shoemaker (1982), „The Inverted Spectrum”, The Journal of Philosophy 79 (7), bls. 357-381.

Sydney Shoemaker (1996), The first-person perspective and other essays, Cambridge: Cambridge University Press.

Michael Tye (1992), „Visual Qualia and Visual Content”, í: T. Crane (ritstj.), The Contents of Experience, Cambridge: Cambridge University Press.

Michael Tye (1995), Ten Problems of Consciousness. A Representational Theory of the Phenomenal Mind, Cambridge (Mass.): MIT Press.



Myndir:

2bnthewild.com

The Vincent van Gogh Gallery

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

22.5.2001

Spyrjandi

Dagur Snær Sævarsson, f. 1986

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Sjáum við litina eins? Sé ég rauðan eins og þú sérð rauðan? Sérð þú kannski rauðan eins og ég sé grænan?“ Vísindavefurinn, 22. maí 2001. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1633.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 22. maí). Sjáum við litina eins? Sé ég rauðan eins og þú sérð rauðan? Sérð þú kannski rauðan eins og ég sé grænan? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1633

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Sjáum við litina eins? Sé ég rauðan eins og þú sérð rauðan? Sérð þú kannski rauðan eins og ég sé grænan?“ Vísindavefurinn. 22. maí. 2001. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1633>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Sjáum við litina eins? Sé ég rauðan eins og þú sérð rauðan? Sérð þú kannski rauðan eins og ég sé grænan?
Hugmyndin um öfugt litróf (e. inverted spectrum) hefur verið töluvert til umræðu á undanförnum áratugum meðal þeirra heimspekinga sem fást við heimspeki mannshugarins. Þessa hugmynd má þó rekja lengra aftur í tíma en til undanfarinna áratuga því að hún er sett fram hjá John Locke (1632-1704) í bók hans An Essay concerning Human Understanding:

Né myndi það hafa í för með sér nokkra vísbendingu um að hinar einföldu hugmyndir okkar væru rangar ef það væri svo, vegna mismunandi gerðar líffæra okkar, að sami hluturinn ylli í hugum margra manna mismunandi hugmyndum á sama tíma; til dæmis ef hugmyndin sem fjóla veldur í huga eins manns gegnum augu hans væri sú hin sama og gullfífill veldur í huga annars, og öfugt (II. bók, XXXIII. kafli, 5. grein).
Hugmynd Lockes er sem sagt sú að vel sé hægt að hugsa sér að sú reynsla eða upplifun sem ein manneskja verður fyrir þegar hún sér eitthvað fjólublátt sé alveg eins og upplifun annarrar manneskju þegar hún sér eitthvað gult. Jafnframt bendir hann á að við gætum aldrei komist að því hvort þetta sé svona í raun og veru þar sem „eins manns hugur getur ekki ferðast inn í annars manns líkama”.

Hugsum okkur að Dísa og Rúna sitji saman í sumarblíðunni og virði fyrir sér gullfífil (sem gengur reyndar oftast undir nafninu morgunfrú). Þær eru sammála um að blómið sé gult, alveg eins og sólin, bananar og strætisvagnar Reykjavíkur. En það er líka eitthvað sem þær upplifa innra með sér þegar þær sjá gula litinn; einhver innri reynsla sem þær tengja við gulan lit og sem þær nota til að þekkja gula hluti. Hvor um sig getur hugsað: „Þegar ég upplifi eitthvað svona þá er ég að horfa á eitthvað gult.”

En nú vill svo til að þessi innri upplifun Dísu er nákvæmlega eins og hughrifin sem Rúna verður fyrir þegar hún sér eitthvað fjólublátt. Hughrifin sem Dísa verður fyrir þegar hún sér eitthvað fjólublátt líkjast aftur á móti því sem Rúna upplifir þegar hún sér eitthvað gult.

Þær Dísa og Rúna komast aldrei að því að hughrif þeirra séu mismunandi því að þær geta ekki borið þau saman. Eini samanburðurinn felst í hvað þær kalla litina og ef ekkert misræmi er að finna þar er engin leið að meta hvort hughrif þeirra séu eins eða ekki. Hvor um sig hefur aðeins aðgang að hegðun hinnar en ekki að því sem fer fram í hug hennar. Hvert og eitt okkar hefur aðeins aðgang að eigin hug og meðan við þekkjum ekki leiðir til að heimsækja hugi annarra getur Dísa ekki vitað hvernig það er að vera Rúna og sjá gullfífil, bragða á jarðarberi eða finna ilminn af nýsleginni grasflöt.

Sumir telja þetta þó ekki mögulegt; ef Dísa og Rúna upplifðu ekki það sama þegar þær sæju gullfífla þá hlyti það að koma fram í hegðun þeirra. Samkvæmt þeim getur það því ekki verið svo að við skynjum liti á mismunandi hátt eins og lýst er hér að ofan, þar sem reynslan sýnir að almennt ríkir sátt um það hvernig hlutirnir eru á litinn; að gullfíflar séu gulir og fjólur fjólubláar.

Möguleikinn á öfugri skynjun á litrófinu er því umdeildur meðal heimspekinga. Deilan snýst í raun um ákveðin atriði í eðli skynjunarinnar og langt og flókið mál væri að útskýra hana til hlítar. Hins vegar má fara yfir þessi helstu atriði í grófum dráttum.

Sú skoðun er útbreidd meðal beggja deiluaðila að skynjun, til dæmis á gulum gullfífli, hljóti alltaf að beinast einhverju. Þegar ég sé gullfífillinn finnst mér að þarna sé gullfífill sem er gulur. Því má segja að skynjunin feli í sér einskonar túlkun eða endurspeglun á gullfíflinum. Þetta viðhorf til skynjunar er ekki óumdeilt en hefur þó verið mjög útbreitt meðal hugspekinga á síðari árum.

Ágreiningurinn milli þeirra sem telja mögulegt að skynjun á litrófi geti verið öfug án þess að nokkur uppgötvi það og hinna sem hafna þeim möguleika snýst svo um það hvort skynjunin á gullfíflinum feli eitthvað fleira í sér en túlkunina á gullfíflinum. Þeir sem telja öfuga litrófið mögulegt telja að þótt þær Dísa og Rúna eigi það sameiginlegt að skynjanir þeirra endurspegli gullfífilinn og séu eins að því leyti þá hafi skynjanir þeirra jafnframt aðra eiginleika sem geti verið ólíkir (Block 1990, Shoemaker 1982 og 1996).

Þessa eiginleika getum við kallað finningar (e. qualia). Finningarnar eru það sem einkennir viðkomandi hughrif; eitthvað sem við notum til að þekkja samskonar reynslu aftur en getum ekki lýst nema með tilvísun í samskonar hughrif. Finningin sem einkennir þau hughrif sem við verðum fyrir þegar við sjáum eitthvað gult er til dæmis eitthvað sem engin leið er að lýsa fyrir manneskju sem aldrei hefur séð liti (sjá t.d. Nagel 1974). Yfirleitt er gert ráð fyrir að finningar túlki ekkert og fjalli ekki um neitt annað heldur séu þær ákveðin einkenni reynslu sem við þekkjum svo aftur.

Aðgangur okkar að finningum er aðeins gegnum eigin huga. Við getum því ekki skoðað finningar annarra. Þegar Dísa talar um innri upplifun sína af gullfíflinum gerir Rúna kannski ráð fyrir því að sú finning sem Dísa á við sé eins og hennar eigin finning en það er engin leið fyrir hana til að komast að raun um það. Hugmyndin um öfuga litrófið byggir sem sagt á því að þótt Dísa og Rúna skynji báðar gulan gullfífil þá sé sú finning sem fylgir skynjun á gulu hjá Dísu sambærileg við þá sem fylgir skynjun á fjólubláu hjá Rúnu.

Þeir sem hafna möguleikanum á öfugu litrófi hafna finningum sem einhverju aðskildu frá því sem skynjunin túlkar eða endurspeglar (Harman 1990, Tye 1992). Skynjunin er samkvæmt þeim einfaldlega þessi túlkun eða endurspeglun og það er marklaust að tala um einhverja aðra eiginleika skynjunar á gullfífli sem gefi eitthvað til kynna umfram túlkunina á gullfíflinum. Slík skoðun þarf ekki endilega að fela í sér höfnun á innri upplifun, heldur er hún höfnun á því að þessi innri upplifun sé eitthvað annað en túlkunin á hlutunum kringum okkur. Ef litið er svo á að finning geti ekki verið túlkun eða endurspeglun á öðrum hlut felur þessi skoðun jafnframt í sér höfnun á tilvist finninga.

Að auki má nefna önnur möguleg rök gegn öfugu litrófi sem treysta jafnvel á finningar. Samkvæmt þeim eru þau hughrif sem fólk verður fyrir við skynjun mismunandi lita svo ólík að það hlyti alltaf að koma fram í mismunandi hegðun fólks ef það yrði ekki fyrir samskonar hughrifum. Það er eitthvað við hughrifin sem gulir hlutir valda sem er nátengt þeirri hegðun sem fólk sýnir í návist gulra hluta, sambærilegt við það að fólk grettir sig þegar það bítur í súra sítrónu. Fjólubláir hlutir valda annarskonar hughrifum sem tengjast annarskonar hegðun.

Gegn þessum rökum má benda á að þau hvíla á þeirri forsendu að það séu finningarnar sem slíkar sem valdi hegðuninni; að viðbrögð mismunandi einstaklinga við einni og sömu finningunni hljóti alltaf að vera svipuð. Þetta er auðvitað ekki rétt að gefa sér. Það er til dæmis vel hugsanlegt að viðbrögð okkar við þeirri finningu sem einkennir skynjun á gulu ráðist af reynslu okkar af hinum ýmsu gulu hlutum sem við höfum séð. Finningar Dísu og Rúnu þegar þær horfa á gullfífilinn geta þá verið ólíkar en viðbrögð þeirra og hegðun samt sem áður svipuð vegna þess að þau byggjast á reynslu þeirra af allskonar gulum hlutum, til dæmis af hita sólarinnar.

Til stuðnings málflutningi sínum hafa málsvarar öfuga litrófsins samið sögur af hugsanlegum kringumstæðum sem á einn eða annan hátt eru hliðstæðar þeim möguleika sem hefur verið ræddur hér (sjá t.d. Block 1990 og Shoemaker 1996). Þar má nefna hugleiðingar um manneskju sem undirgengst aðgerð sem veldur því að henni finnst himinninn gulur, grasið rautt, og svo framvegis, og um manneskju sem er flutt í heim þar sem himinninn er gulur og grasið rautt en er með linsur sem snúa litunum við þannig að hún veit ekki af þessu. Andmælendur öfuga litrófsins glíma svo við að sýna fram á að þessi dæmi feli í sér mótsagnir eða dugi ekki til að sanna það sem þeim er ætlað að sanna.

Af ofansögðu má sjá að ekki er til afdráttarlaust og óumdeilanlegt svar við spurningunni sem lögð var fram. Andmælendur öfugs litrófs hljóta að svara spurningunni „Sjáum við litina eins?” játandi þar sem hið gagnstæða hlyti að koma fram í hegðun okkar. Hinir svara spurningunni þannig að engin leið sé að vita hvort við sjáum öll litina eins og vel sé mögulegt að svo sé ekki. Inn í þetta blandast svo sértæk tæknileg deila um eðli skynjunarinnar.

Heimildir:

Ned Block (1990), „Inverted Earth”, í: J. Tomberlin (ritstj.), Philosophical Perspectives, 4: Action Theory and Philosophy of Mind, Atascadero: Ridgeview.

Gilbert Harman (1990), „The Intrinsic Quality of Experience,” Philosophical Perspectives, 4: Action Theory and Philosophy of Mind, Atascadero: Ridgeview.

John Locke (1975 – upph. útg. 1689), An Essay concerning Human Understanding, ritstj. P. Nidditch, Oxford: Clarendon.

Thomas Nagel (1974), „What Is It Like to Be a Bat?”, Philosophical Review LXXXIII 4, bls. 435-50.

Sydney Shoemaker (1982), „The Inverted Spectrum”, The Journal of Philosophy 79 (7), bls. 357-381.

Sydney Shoemaker (1996), The first-person perspective and other essays, Cambridge: Cambridge University Press.

Michael Tye (1992), „Visual Qualia and Visual Content”, í: T. Crane (ritstj.), The Contents of Experience, Cambridge: Cambridge University Press.

Michael Tye (1995), Ten Problems of Consciousness. A Representational Theory of the Phenomenal Mind, Cambridge (Mass.): MIT Press.



Myndir:

2bnthewild.com

The Vincent van Gogh Gallery...