Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Aðeins sex deilitegundur tígrisdýra eru eftir á jörðinni. Þær eru amur-(ussuri)tígrisdýrið (Panthera tigris altaica) sem stundum er nefnt Síberíu-tígrisdýr, suður-kínverska tígrisdýrið (Panthera tigris amoyensis), bengaltígrisdýrið (Panthera tigris tigris), indókínverska tígrisdýrið (Pantera tigris corbetti), malayatígrisdýr (Pantera tigris jacksoni) sem áður tilheyrði indókínversku deilitegundinni en var skilgreind sem sérstök deilitegund árið 2004 og súmötrutígrisdýrið (Panthera tigris sumatrea).
Þremur deilitegundum var útrýmt á síðustu öld. Fyrst má nefna kákasustígrisdýrið en því var kerfisbundið útrýmt þegar stórum skóglendum í Kákasusfjöllunum var eytt til að gera bómullarekrur. Talið er að síðasti kákasustígurinn hafi verið skotinn um 1950. Tveir tígrisdýrastofnar voru í Indónesíu, á Jövu og Bali. Þeir hafa nú horfið vegna skógaeyðingar og veiðiþjófnaðar.
Suður-kínverski tígurinn verður að öllum líkindum fjórða deilitegundin til að hverfa á vit forfeðranna, en aðeins eru um 20-30 dýr eftir á litlu svæði í suðurhluta Kína. Fyrir 40 árum voru þau hins vegar yfir 3000. Ástand stofna hjá hinum deilitegundunum er mjög slæmt. Stofnar amurtígrisdýrsins og súmötrutígrisdýrsins eru vel undir 500 einstaklingar hvor en indókínverski tígurinn um 1700 dýr. Bengaltígurinn er best settur með um 3.500 dýr, sem er þó svipur hjá sjón miðað við að 40.000 dýr voru á ferli í frumskógum Indlands fyrir rúmri öld.
Talsverður svipfarsmunur er milli ofangreindra deilitegunda tígrisdýra og má fyrst nefna stærðina. Eftir því sem heimkynni deilitegundar er norðar, því stærri er hún. Amurtígrisdýrið er stærst allra tígrisdýra. Fullorðið karldýr eru venjulega 280 - 320 kg á þyngd en kvendýr mun minna eða í kringum 180 kg. Súmötrutígrisdýrið er smávaxnara; fullvaxið karldýr er í kringum 160 kg en kvendýr um 120 kg.
Eina undantekningin frá þessari reglu er bengaltígrisdýrið. Það er venjulega stærra en aðrar deilitegundir sem finnast á sömu breiddargráðu og telja fræðimenn að það sé vegna stærðar veiðidýra þess. Dýrin sem bengaltígurinn veiðir eru meðal annars gáruxinn, sem getur orðið um tonn á þyngd, og stórir skógarhirtir.
Litarháttur og feldur er einnig breytilegur á milli deilitegundanna. Amurtígrisdýrið er með þykkari feld og ekki eins litsterkan og tígrisdýrin sunnar í Asíu. Rendurnar eru brúnleitar en ekki svartar eins og hjá hinum deilitegundunum og kviðsvæðið er hvítt á litinn. Einnig eru þau hvít um hálsinn. Bengaltígrisdýr hafa litsterkari feld og ná svartar rendurnar niður á kvið. Feldurinn er mjög áþekkur hjá indókínverskatígrisdýrinu nema hvað rendurnar liggja mun þéttar saman og hvíti liturinn er lítt áberandi á kviðnum. Sömu sögur er að segja um súmötrutígrisdýrið.
Jón Már Halldórsson. „Hver er helsti útlitsmunur á núlifandi deilitegundum tígrisdýra?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2001, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1650.
Jón Már Halldórsson. (2001, 28. maí). Hver er helsti útlitsmunur á núlifandi deilitegundum tígrisdýra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1650
Jón Már Halldórsson. „Hver er helsti útlitsmunur á núlifandi deilitegundum tígrisdýra?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2001. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1650>.