Rakarinn í þorpinu rakar alla (og aðeins þá) þorpsbúa sem ekki raka sig sjálfir. Hann býr sjálfur í þorpinu.Nú er spurt: Rakar rakarinn sjálfan sig?
- Svarið já leiðir til neitunar. Ef rakarinn rakar sjálfan sig er hann einn af þeim þorpsbúum sem raka sig sjálfir og því ekki einn af þeim sem rakarinn rakar. Þar af leiðandi rakar hann ekki sjálfan sig.
- Ef svarið er nei rakar rakarinn sig ekki sjálfur og hlýtur því að láta rakarann sjá um raksturinn; þar af leiðandi rakar hann sjálfan sig.
Hvort sem rakaraþverstæðan er tekin alvarlega sem þverstæða eða ekki er hún afbrigði af raunverulegri þverstæðu sem kennd er við Bertrand Russell (1872-1970).
Hugsum okkur að til sé mengi allra mengja sem eru ekki stök í sjálfum sér. (Dæmi um mengi sem er stak í sjálfu sér er mengi mengjanna sem innihalda fleiri en tvö stök. Dæmi um mengi sem er ekki stak í sjálfu sér er mengi allra katta, en það mengi er ekki köttur.) En er fyrrnefnt mengi stak í sjálfu sér? Á sama hátt og við leiddum út mótsögn í rakaradæminu fáum við mótsögn hér. Ef mengið er stak í sjálfu sér þá getur það ekki verið stak í sjálfu sér og öfugt.
Russell uppgötvaði þessa þverstæðu árið 1901 þegar hann var að vinna að bók sinni Principles of Mathematics. Þverstæðan hafði djúp og mikil áhrif á tilraunir rökfræðinga og stærðfræðinga, með Gottlob Frege (1848-1925) fremstan í flokki, til að setja fram rökfræðilegar undirstöður fyrir stærðfræði. Í bók sinni Grundgesetze der Arithmetik hafði Frege gert tilraun til framsetningar á slíkum rökfræðilegum undirstöðum og gerði þar meðal annars ráð fyrir að hægt væri að skilgreina hvaða eiginleika (eða mengi) sem er.
Þverstæða Russells gaf til kynna alvarlegan brest í frumsetningunum sem Frege notaði sem grundvöll fyrir stærðfræðina. Það að grundvöllur stærðfræðinnar skyldi fela í sér mótsögn var auðvitað alvarlegt mál og heldur betur réttnefnd þverstæða. Þótt þverstæðan sé kennd við Russell og það hafi verið hann sem kynnti hana fyrir Frege er talið að aðrir rök- og stærðfræðingar hafi uppgötvað samskonar þverstæður á svipuðum tíma, hver í sínu horni. Í því sambandi eru gjarnan nefndir þeir Cesare Burali-Forti (1861-1931), David Hilbert (1862-1943) og Ernst Zermelo (1871-1953).
Þessi þverstæða átti sinn þátt í því að það verkefni að leggja hreinan, formlegan rökfræðilegan grunn að stærðfræðinni var gefið upp á bátinn nokkrum áratugum síðar þótt ætlun Russells hafi í raun verið að þoka verkefninu áfram. Segja má að vonin um slíkan grunn hafi brostið þegar Kurt Gödel (1906-1978) setti fram ófullkomleikasetningu sína árið 1931. Nú er gert ráð fyrir að til grundvallar stærðfræðinni þurfi einnig að liggja mengjafræðileg hugtök og frumsetningar sem ekki byggjast á hreinni rökfræði.
Heimildir og frekara lesefni:
R.M. Sainsbury (1995), Paradoxes, 2. útg., Cambridge: Cambridge University Press.
Curiouser.co.uk
Internet Encyclopedia of Philosophy
Scientific American
Stanford Encyclopedia of Philosophy
Mynd: The Bertrand Russell Gallery