Sólin Sólin Rís 10:50 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:12 • Sest 15:15 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:13 • Síðdegis: 22:44 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:49 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík

Hvað er það sem mannfræðingar kalla fúnksjónalisma?

Haraldur Ólafsson mannfræðingur

Hér er einnig að finna svar við spurningu Hrefnu Tómasdóttur Hver var Durkheim og fyrir hvað var hann þekktur?

Franski félagsfræðingurinn Émile Durkheim (1858-1917) er með nokkrum rétti kallaður faðir félagsfræði nútímans. Ástæðan er sú að hann hélt því fram að félagsfræðin ætti að vera sjálfstæð vísindagrein en ekki hluti af greinum eins og heimspeki eða stjórnmálafræði. Viðfangsefni hennar væri samfélagið og samfélag yrði að skilgreina nákvæmlega svo að hægt væri að skýra hin ýmsu fyrirbæri þess.

Hann taldi að ekki dygði að styðjast við tilgátur um áhrif efnahagskerfis á samfélagið né heldur væru sálfræðikenningar nothæfar til að útskýra það sem gerðist í samskiptum fólks innan samfélags. Hið félagslega yrði aðeins skýrt með tilvísan til annarra félagslegra þátta. Einungis á þann hátt væri unnt að greina þann veruleika sem samfélag er.

Durkheim prófaði þessa kenningu sína í ritinu um sjálfsvíg, Le suicide, sem út kom 1897. Þessi rannsókn Durkheims er ákaflega yfirgripsmikil. Hann skoðaði þúsundir lögregluskýrslna og sjúkrahússkýrslna og kannaði mörg atriði varðandi þá sem framið höfðu sjálfsvíg. Þetta er mjög athyglisverð rannsókn og með henni ætlaði Durkheim sér að sýna fram á að svo einstaklingsbundin athöfn sem sjálfsvíg ætti sér félagslegar forsendur, mismunandi eftir aldri, kyni, búsetu, trúarbrögðum, og svo framvegis.

Þá notaði Durkheim tölfræði í rannsóknum sínum á annan hátt en áður var gert og taldi að þannig væri hægt að greina áhrif mismunandi atriða á atferli hópa. Hann hélt því fram að það væri samfélagið sem mótaði einstaklinginn en ekki öfugt.

Hann leit svo á að hlutverk félagsfræðinnar væri að komast að því hvað væri hagstætt fyrir samfélagið og hvað skaðlegt. Félagsfræðingurinn er ekki aðeins áhorfandi sem rýnir í það sem gerist og það sem er ríkjandi heldur á hann að benda á það sem er hættulegt og illkynja í samfélaginu. Hann á því að vera læknir samfélagsins, skera burt mein þess og benda á það sem er hollt og gagnlegt.

Upp úr þessari félagsfræði Durkheims spratt svo mikil hreyfing sem kenndi sig við fúnksjónalisma, sem stundum er kölluð virknihyggja á íslensku (önnur íslensk heiti eru verkhyggja, hlutverkastefna og nýtistefna). Er litlu við að bæta um hana nema hvað þeir sem vinna með hana að leiðarljósi leitast við að skoða hvernig hin mismunandi öfl samfélagsins vinna, hvað fer saman, hvað rekst á annað og hvernig heildin er oftast ólík þeim einstöku þáttum sem hún er ofin úr. Með öðrum orðum gengur virknihyggjan út á að skoða hin ýmsu fyrirbæri út frá hlutverki þeirra í samfélaginu. Félagsfræði samtímans er ákaflega lituð af hugmyndum Durkheims og sporgöngumanna hans þó að þess sé ekki alltaf getið.

Innan mannfræðinnar hafa vísindamenn eins og Radcliffe-Brown (1881-1955) og Bronislav Malinovski (1884-1942) beitt aðferðum virknihyggjunnar á einföld samfélög náttúrufólks og sýnt fram á samspil hinna ýmsu þátta atferlis og hvernig allt sem gert er gegnir einhverju sérstöku félagslegu hlutverki þó að svo virðist ekki á yfirborðinu.

Í sumum tilvikum hefur þetta leitt til þess að haldið hefur verið fram menningarlegu afstæði þar sem hlutverk rannsakandans er aðeins að greina hvernig fyrirbæri í samfélaginu mynda heild en forðast er að fella dóma um hvað er heppilegt og hvað skaðlegt.Mynd: The Emile Durkheim Archive

Höfundur

Haraldur Ólafsson mannfræðingur

fyrrv. prófessor í mannfræði við HÍ

Útgáfudagur

29.5.2001

Spyrjandi

Pétur Waldorff

Tilvísun

Haraldur Ólafsson mannfræðingur. „Hvað er það sem mannfræðingar kalla fúnksjónalisma?“ Vísindavefurinn, 29. maí 2001. Sótt 3. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=1657.

Haraldur Ólafsson mannfræðingur. (2001, 29. maí). Hvað er það sem mannfræðingar kalla fúnksjónalisma? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1657

Haraldur Ólafsson mannfræðingur. „Hvað er það sem mannfræðingar kalla fúnksjónalisma?“ Vísindavefurinn. 29. maí. 2001. Vefsíða. 3. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1657>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er það sem mannfræðingar kalla fúnksjónalisma?

Hér er einnig að finna svar við spurningu Hrefnu Tómasdóttur Hver var Durkheim og fyrir hvað var hann þekktur?

Franski félagsfræðingurinn Émile Durkheim (1858-1917) er með nokkrum rétti kallaður faðir félagsfræði nútímans. Ástæðan er sú að hann hélt því fram að félagsfræðin ætti að vera sjálfstæð vísindagrein en ekki hluti af greinum eins og heimspeki eða stjórnmálafræði. Viðfangsefni hennar væri samfélagið og samfélag yrði að skilgreina nákvæmlega svo að hægt væri að skýra hin ýmsu fyrirbæri þess.

Hann taldi að ekki dygði að styðjast við tilgátur um áhrif efnahagskerfis á samfélagið né heldur væru sálfræðikenningar nothæfar til að útskýra það sem gerðist í samskiptum fólks innan samfélags. Hið félagslega yrði aðeins skýrt með tilvísan til annarra félagslegra þátta. Einungis á þann hátt væri unnt að greina þann veruleika sem samfélag er.

Durkheim prófaði þessa kenningu sína í ritinu um sjálfsvíg, Le suicide, sem út kom 1897. Þessi rannsókn Durkheims er ákaflega yfirgripsmikil. Hann skoðaði þúsundir lögregluskýrslna og sjúkrahússkýrslna og kannaði mörg atriði varðandi þá sem framið höfðu sjálfsvíg. Þetta er mjög athyglisverð rannsókn og með henni ætlaði Durkheim sér að sýna fram á að svo einstaklingsbundin athöfn sem sjálfsvíg ætti sér félagslegar forsendur, mismunandi eftir aldri, kyni, búsetu, trúarbrögðum, og svo framvegis.

Þá notaði Durkheim tölfræði í rannsóknum sínum á annan hátt en áður var gert og taldi að þannig væri hægt að greina áhrif mismunandi atriða á atferli hópa. Hann hélt því fram að það væri samfélagið sem mótaði einstaklinginn en ekki öfugt.

Hann leit svo á að hlutverk félagsfræðinnar væri að komast að því hvað væri hagstætt fyrir samfélagið og hvað skaðlegt. Félagsfræðingurinn er ekki aðeins áhorfandi sem rýnir í það sem gerist og það sem er ríkjandi heldur á hann að benda á það sem er hættulegt og illkynja í samfélaginu. Hann á því að vera læknir samfélagsins, skera burt mein þess og benda á það sem er hollt og gagnlegt.

Upp úr þessari félagsfræði Durkheims spratt svo mikil hreyfing sem kenndi sig við fúnksjónalisma, sem stundum er kölluð virknihyggja á íslensku (önnur íslensk heiti eru verkhyggja, hlutverkastefna og nýtistefna). Er litlu við að bæta um hana nema hvað þeir sem vinna með hana að leiðarljósi leitast við að skoða hvernig hin mismunandi öfl samfélagsins vinna, hvað fer saman, hvað rekst á annað og hvernig heildin er oftast ólík þeim einstöku þáttum sem hún er ofin úr. Með öðrum orðum gengur virknihyggjan út á að skoða hin ýmsu fyrirbæri út frá hlutverki þeirra í samfélaginu. Félagsfræði samtímans er ákaflega lituð af hugmyndum Durkheims og sporgöngumanna hans þó að þess sé ekki alltaf getið.

Innan mannfræðinnar hafa vísindamenn eins og Radcliffe-Brown (1881-1955) og Bronislav Malinovski (1884-1942) beitt aðferðum virknihyggjunnar á einföld samfélög náttúrufólks og sýnt fram á samspil hinna ýmsu þátta atferlis og hvernig allt sem gert er gegnir einhverju sérstöku félagslegu hlutverki þó að svo virðist ekki á yfirborðinu.

Í sumum tilvikum hefur þetta leitt til þess að haldið hefur verið fram menningarlegu afstæði þar sem hlutverk rannsakandans er aðeins að greina hvernig fyrirbæri í samfélaginu mynda heild en forðast er að fella dóma um hvað er heppilegt og hvað skaðlegt.Mynd: The Emile Durkheim Archive...