Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ímyndum okkur mann sem er illa kvalinn af ólæknandi sjúkdómi. Hann á enga að og sýnt þykir að bæði honum sjálfum og starfsfólkinu sem annast hann yrði það líkn og léttir ef hann fengi að deyja. Á þessi maður ekki rétt á því að honum sé hjálpað til þess að deyja ef hann biður um það? Það þykir að minnsta kosti mannúðlegt að deyða dýr þegar þau eru í svona ásigkomulagi.
Tvenns konar rök hafa einkum verið færð fyrir réttmæti líknardráps. Mannúðarrökin leggja áherslu á velferð sjúklingsins:
Ef athöfn er öllum viðkomandi aðilum fyrir bestu og brýtur ekki rétt á neinum, er hún siðferðilega rétt.
Stundum er beint líknardráp þannig að það er öllum viðkomandi fyrir bestu og brýtur ekki rétt á neinum.
Þess vegna er beint líknardráp stundum réttlætanlegt.
Réttindarökin eru aftur á móti sjálfræðisrök og halda fram rétti sjúklings til að vera styttur aldur:
Ef athöfn er í samræmi við skynsamlega hagsmuni einstaklings, sem metnir eru á hans eigin forsendum, hún er gerð að hans eigin ósk og skaðar ekki aðra, þá á hann rétt á að hún sé framkvæmd.
Í einstaka tilvikum á þetta við um líknardráp.
Í þeim tilvikum á sjúklingur þess vegna rétt á því að vera deyddur.
Bæði í mannúðarrökunum og réttindarökunum er gengið út frá því að mannslífið hafi ekki sjálfstætt gildi, heldur hafi það gildi vegna þeirra gæða sem það geri manni kleift að njóta. Hagsmunir manna tengist því ekki lífi þeirra í sjálfu sér, heldur því sem það gerir manni kleift að njóta. Þegar svo er komið að lífið er manni einungis böl og eindreginn vilji hans er að fá að deyja sé rétt og mannúðlegt að verða við þeirri ósk.
Ég get fallist á þessar forsendur, en ég held að hvorki mannúðarrökin né réttindarökin dugi til að réttlæta líknardráp. Í hvorugu tilvikinu er tekið tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem um ræðir. Horft er framhjá því að samband læknis og sjúklings felur í sér gagnkvæma ábyrgð og skyldur sem setja því eindregin mörk hvaða úrræðum má beita. Sjúklingur getur ekki ætlast til þess að læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður svipti hann lífi.
Hitt kann að vera rétt að stundum sé mannúðlegra að stytta mönnum beinlínis aldur en að auðvelda þeim að deyja með öðrum hætti, en það sker ekki úr um réttmæti verknaðarins. Þar kemur margt fleira til, ekki síst það hvort nokkurn tíma sé réttmætt að ætlast til að fagfólk í heilbrigðisþjónustu stytti skjólstæðingum sínum aldur. Það er rangt og villandi að rökræða réttmæti verknaðar af þessu tagi án þess að taka fullt tillit til beggja aðila.
Sama gildir þegar spurt er um mann eins og þann sem lýst er í upphafi þessa svars, hvort hann eigi ekki rétt á því að honum sé hjálpað til þess að deyja ef hann biður um það. Svarið við þessari spurningu veltur á því hvað við er átt með því að fá hjálp til þess að deyja.
Sé átt við það, að sjúklingur eigi tilkall til þess að einhver önnur manneskja, til að mynda læknir, stytti honum aldur með líknardrápi — það er geri eitthvað sem veldur dauða hans og varnar því að hann deyi af völdum sjúkdóms síns — þá tel ég að sjúklingur eigi ekki slíkan rétt. Höfuðástæðan er sú að slíkur réttur myndi leggja öðrum á herðar samsvarandi verknaðarskyldu, sem sé þá að drepa sjúklinginn. Slíka skyldu er ekki hægt að leggja á nokkurn mann.
Það samrýmist ekki hjúkrun og læknislist að heilbrigðisstarfsfólk grípi til aðgerða sem gagngert hafa dauða sjúklinga að markmiði. Slík vinnubrögð myndu grafa undan trausti og bjóða heim misferli. Rétt sjúklinga til að deyja verður að vera hægt að tengja við skyldur lækna og hjúkrunarfólks. Það er skylda fagfólks að lina þjáningar sjúklinga, jafnvel þótt það feli í sér einhverja hættu á því að dauðastundinni sé flýtt, en það er ekki skylda læknis að deyða sjúkling, jafnvel þótt hann óski þess eins að fá að deyja. Hlutverk heilbrigðisstétta í slíkum aðstæðum er að leitast við að líkna sjúklingi eins og kostur er, virða þarfir hans og tilfinningar. Þegar manneskja á í hlut er það mannúðleg meðferð að auðvelda henni að deyja vel og hindra ekki að kærkominn dauði eigi sér stað.
Ég held að ein skýringin á því að kröfur um líknardráp hafa komið fram sé sú ranghugsun sem felst í því að sagt er að „ekkert sé lengur hægt að gera“ fyrir deyjandi sjúkling. Þessi hugsun er bundin á klafa hinnar athafnasömu læknistækni sem kann engin önnur ráð en virka læknismeðferð gegn aðsteðjandi sjúkdómi.
Ranghugsunin er auðvitað sú að þótt ekkert sé lengur hægt að gera gegn hinum banvæna sjúkdómi þá er oftast hægt að gera ýmislegt fyrir hinn deyjandi sjúkling. Stórstígar framfarir í verkjameðferð á undanförnum árum hafa gert fagfólki kleift að stilla kvalir sjúklinga á mun áhrifaríkari hátt en áður, auk þess sem deyjandi sjúklingi standa nú til boða valkostir um meðferð sem mikilvægt er að kynna honum. Í því sambandi hefur rétturinn til að deyja mikilvæga merkingu.
Ábendingar um íslenskt lesefni:
„Appleton yfirlýsingin: Leiðbeiningar um það hvenær láta megi hjá líða að veita læknisfræðilega meðferð“, Hringborðsumræður Læknablaðsins V. Læknablaðið 75 (1989), s. 303-12.
Björn Björnsson, „Nokkrar hugleiðingar um líknardauða,“ Úlfljótur (1976), s. 172-176.
Erna Haraldsdóttir, „Aðhlynning deyjandi fólks á sjúkradeild“, Tímarit Fhh 7 (1/1990), s. 32-34.
Jónatan Þórmundsson, „Líknardráp“ Úlfljótur (1976), s. 153-171.
Kristján Kristjánsson, „Samráð, virðing, velferð.“ Af tvennu illu (Heimskringla 1997), s. 193-216.
Pálmi V. Jónsson, „Að takmarka meðferð við lok lífs.“ Læknablaðið 75 (1989), s. 179-182.
Páll Skúlason, „Á maður sitt eigið líf?“ Pælingar II. (Eros 1989), s. 39-44.
Vilhjálmur Árnason, „Líknardauði og líknardráp,“ Siðfræði heilbrigðisþjónustu (Háskóli Íslands 1990), s. 55-64.
Vilhjálmur Árnason, Siðfræði lífs og dauða. Háskólaútgáfan 1993/1997.
Þorsteinn Gylfason, Réttlæti og ranglæti (Heimskringla 1998), s.þ 133-144.
Örn Bjarnason, „Líknardauði,“ Læknablaðið 75 (1989), s. 369-371.
Vilhjálmur Árnason. „Hver eru rök með og á móti beinu líknardrápi?“ Vísindavefurinn, 31. maí 2001, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1666.
Vilhjálmur Árnason. (2001, 31. maí). Hver eru rök með og á móti beinu líknardrápi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1666
Vilhjálmur Árnason. „Hver eru rök með og á móti beinu líknardrápi?“ Vísindavefurinn. 31. maí. 2001. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1666>.