Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er munurinn á dadaisma, súrrealisma og absúrdisma?

Kristján Árnason bókmenntafræðingur

Dadaismi og súrrealismi eiga það sameiginlegt að rísa upp gegn ríkjandi hefðum í lífi og list og boða nýtt upphaf. Dadaisminn, sprottinn upp úr vitfirringu heimstyrjaldarinnar fyrri sem andsvar og endurspeglun í senn, telst vera undanfari hins síðarnefnda en gengur vissulega lengra og er að því leyti sjálfum sér samkvæmur að hann stefnir ekki að því að koma á nýrri hefð eða stofnun í listinni í stað þeirrar sem hann vill ryðja úr vegi heldur er sannur dadaisti ekkert síður á móti dadaismanum sjálfum og verkum hans en öllu öðru.

Í augum dadaista var marglofaður varanleiki listaverka í hróplegri mótsögn við stöðugt flæði lífsins sjálfs sem listin á að tjá og túlka, og því var síst í þeirra anda að skilja eftir sig listaverk sem yrðu, er tímar liðu, höfð til sýnis, flutnings eða útláns sem „menningararfur” í gljásölum leikhúsa eða ábúðarmiklum safnahúsum. Sköpunarverk dadaista hlutu því að vera einnota og ekki einu sinni það, og sá samflutningur ólíkra listgreina sem stefnt var að undir nafninu „símúltanismi” hafði þann kost að þessar listir gátu þá unnið hver á móti annarri.

Upplestri þeirra á ljóðum í Cabaret Voltaire í Zürich fylgdi því einatt einhver hljómleikur eða búkhljóð að baki, hvort sem það var gal, stunur eða jóðl, sem yfirgnæfði flutninginn þannig að ekki heyrðist mannsins mál, hversu mjög sem upplesarinn brýndi raustina. Kannski var þó bættur skaðinn, því að kveðskapur dadaista var samsettur úr hljóðgervingum fremur en merkingarbærum orðum og átti fyrir vikið þeim mun greiðari leið inn um annað eyrað og út um hitt.

Stefnuskrár áttu dadaistar til að rita þar sem meira púðri var eytt í að skjóta í kaf „vondar” samtímastefnur í listum, svo sem expressíonisma og fútúrisma, en að leiða mönnum fyrir sjónir ágæti sinnar eigin, enda rækilega brýnt fyrir lesendum í lokin að vera á móti öllu því sem þeir voru að enda við að lesa. Enda var og dadaistum ekki í mun að predika af sannfæringarkrafti háleit markmið eða að bera á torg aðferðir, heldur var nóg að vita og vera sammála um eitt, sem sé tilvist dada, eða eins og það hét á þýsku: „Wenn Dada da ist, ist Dada da”.

Súrrealisminn, sem leysti dadaismann af hólmi á árunum eftir heimsstyrjöldina fyrri tók að þessu leyti allt annan pól í hæðina, enda aðstæður breyttar, og það sem lá í loftinu þá var fremur uppbygging og gagnger endurnýjun í lífi og list en niðurrif. Hreyfing súrrealista bar því nokkurn keim af þeim pólitísku flokkum sem létu að sér kveða á þessum árum og vildu bylta ríkjandi skipulagi og boðuðu ýmist stéttlaus eða kynhrein þúsundáraríki, enda var þessi hreyfing undir sterkri stjórn eins manns, stofnandans Bretons, ólíkt dadaistum sem lutu engri stjórn.

En meginstefnumið súrrealista var vitaskuld að losa menn úr viðjum kollóttrar skynsemishyggju og smáborgaralegra lífshátta og gildismats, og því tefldu þeir fram gegn vísindalegri hugsun, byggðri á sundurgreiningu (analýsu) og flokkun eftir samkennum, rökvísi draumsins og mætti ímyndunaraflsins sem getur séð hlutina tengda í víðara samhengi.

Af þessu er sprottin sú tilhneiging þeirra að stilla saman einhverju sem virðist fullkomlega óskylt og ósamstætt og storka þannig vanabundinni skynjun og koma ímyndunaraflinu á flug. Í myndlist súrrealista gat því að líta ástargyðjuna Venusi standa með hálfopnaðar skúffur framan á sér út úr barmi og kviði og í kvikmyndum belju hlamma sér upp í sófa eða auga skorið sundur með rakblaði, svo fræg dæmi séu nefnd. Í ljóðlistinni birtist þessi tilhneiging einkum í langsóttum og djörfum myndhverfingum, svo sem því að tala um „bláfextar hugsanir”, „augnatóftir tækninnar” og þar fram eftir götunum.

Mikilvægt í þessu sambandi er að gera sér grein fyrir því að hér er fremur um aðferð að ræða en inntak og verður að skoðast í ljósi þess meginstefnumiðs súrrealískrar listar að opna mönnum víðari sýn og gefa veruleikanum fyllingu. En sú aðferð verður óhjákvæmilega innantóm og leiðigjörn ef henni er beitt eingöngu til að koma mönnum á óvart eða ganga fram af þeim.

Hið „absúrda” eða fáránleikinn er hins vegar sjálft megininntak svonefnds absúrdisma sem haslaði sér völl á rústum Evrópu í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari, þegar öll gildi, guðleg jafnt sem mannleg, virtust endanlega hrunin.

Hugtakinu „absurdum” höfðu kristnir hugsuðir á sínum tíma teflt fram sem grundvelli trúar gegn vitrembu heimspekinga, en í tilvistarspeki tuttugustu aldar lýsir það stöðu mannsins í heimi sem hann stendur framandi gagnvart og ófær um að gefa nokkurt gildi eða merkingu og þar sem öll samskipti hans við aðra verða vélræn og innantóm. Þessari stöðu hafa einkum hinir svonefndu absúrdistar verið ötulir við að lýsa, ekki síst í leikritsformi, og þar komið sumum þeirra vel að geta sótt í smiðju súrrealista og beitt tækni þeirra, þó að þeir stefni í öfuga átt, eða til að horfast í augu við tómið og merkingarleysið fremur en að leita fyllingar draumsins.

Þegar Ionesco beitir því bragði að láta allar persónur í leikriti sínu (utan eina) breytast í nashyrninga er hann vitaskuld að fletta ofan af þeirri nöpru staðreynd að bilið er skemmra milli nashyrnings og manns en margan grunar, þar sem blind einstefna og hóphyggja ræður ferðinni í lífi manna.

En hjá Beckett birtist absúrdisminn á enn beinskeyttari hátt í samþjöppuðum myndum er sýna stöðu mannsins í heimi sem honum er óþyrmilega kastað inn í af óskiljanlegum ástæðum og í fullkominni erindisleysu og þar sem hann bíður eftir einhverju sem aldrei lætur sjá sig, eltist við tálsýnir eða reynir að breiða yfir stöðu sína með því að láta móðan mása, þar sem hann situr kengfastur ýmist ofan í öskutunnu eða niðurgrafinn í sand, og telur sér trú um að lífið á jörðinni sé „hamingjudagar”.

Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Eru eða voru til íslenskir súrrealistar?



Mynd:

Dadaismi: DaDa Online

Absúrdismi: HB

Höfundur

dósent í almennri bókmenntafræði við HÍ

Útgáfudagur

1.6.2001

Spyrjandi

Eiríkur Smith

Tilvísun

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. „Hver er munurinn á dadaisma, súrrealisma og absúrdisma?“ Vísindavefurinn, 1. júní 2001, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1668.

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. (2001, 1. júní). Hver er munurinn á dadaisma, súrrealisma og absúrdisma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1668

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. „Hver er munurinn á dadaisma, súrrealisma og absúrdisma?“ Vísindavefurinn. 1. jún. 2001. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1668>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á dadaisma, súrrealisma og absúrdisma?
Dadaismi og súrrealismi eiga það sameiginlegt að rísa upp gegn ríkjandi hefðum í lífi og list og boða nýtt upphaf. Dadaisminn, sprottinn upp úr vitfirringu heimstyrjaldarinnar fyrri sem andsvar og endurspeglun í senn, telst vera undanfari hins síðarnefnda en gengur vissulega lengra og er að því leyti sjálfum sér samkvæmur að hann stefnir ekki að því að koma á nýrri hefð eða stofnun í listinni í stað þeirrar sem hann vill ryðja úr vegi heldur er sannur dadaisti ekkert síður á móti dadaismanum sjálfum og verkum hans en öllu öðru.

Í augum dadaista var marglofaður varanleiki listaverka í hróplegri mótsögn við stöðugt flæði lífsins sjálfs sem listin á að tjá og túlka, og því var síst í þeirra anda að skilja eftir sig listaverk sem yrðu, er tímar liðu, höfð til sýnis, flutnings eða útláns sem „menningararfur” í gljásölum leikhúsa eða ábúðarmiklum safnahúsum. Sköpunarverk dadaista hlutu því að vera einnota og ekki einu sinni það, og sá samflutningur ólíkra listgreina sem stefnt var að undir nafninu „símúltanismi” hafði þann kost að þessar listir gátu þá unnið hver á móti annarri.

Upplestri þeirra á ljóðum í Cabaret Voltaire í Zürich fylgdi því einatt einhver hljómleikur eða búkhljóð að baki, hvort sem það var gal, stunur eða jóðl, sem yfirgnæfði flutninginn þannig að ekki heyrðist mannsins mál, hversu mjög sem upplesarinn brýndi raustina. Kannski var þó bættur skaðinn, því að kveðskapur dadaista var samsettur úr hljóðgervingum fremur en merkingarbærum orðum og átti fyrir vikið þeim mun greiðari leið inn um annað eyrað og út um hitt.

Stefnuskrár áttu dadaistar til að rita þar sem meira púðri var eytt í að skjóta í kaf „vondar” samtímastefnur í listum, svo sem expressíonisma og fútúrisma, en að leiða mönnum fyrir sjónir ágæti sinnar eigin, enda rækilega brýnt fyrir lesendum í lokin að vera á móti öllu því sem þeir voru að enda við að lesa. Enda var og dadaistum ekki í mun að predika af sannfæringarkrafti háleit markmið eða að bera á torg aðferðir, heldur var nóg að vita og vera sammála um eitt, sem sé tilvist dada, eða eins og það hét á þýsku: „Wenn Dada da ist, ist Dada da”.

Súrrealisminn, sem leysti dadaismann af hólmi á árunum eftir heimsstyrjöldina fyrri tók að þessu leyti allt annan pól í hæðina, enda aðstæður breyttar, og það sem lá í loftinu þá var fremur uppbygging og gagnger endurnýjun í lífi og list en niðurrif. Hreyfing súrrealista bar því nokkurn keim af þeim pólitísku flokkum sem létu að sér kveða á þessum árum og vildu bylta ríkjandi skipulagi og boðuðu ýmist stéttlaus eða kynhrein þúsundáraríki, enda var þessi hreyfing undir sterkri stjórn eins manns, stofnandans Bretons, ólíkt dadaistum sem lutu engri stjórn.

En meginstefnumið súrrealista var vitaskuld að losa menn úr viðjum kollóttrar skynsemishyggju og smáborgaralegra lífshátta og gildismats, og því tefldu þeir fram gegn vísindalegri hugsun, byggðri á sundurgreiningu (analýsu) og flokkun eftir samkennum, rökvísi draumsins og mætti ímyndunaraflsins sem getur séð hlutina tengda í víðara samhengi.

Af þessu er sprottin sú tilhneiging þeirra að stilla saman einhverju sem virðist fullkomlega óskylt og ósamstætt og storka þannig vanabundinni skynjun og koma ímyndunaraflinu á flug. Í myndlist súrrealista gat því að líta ástargyðjuna Venusi standa með hálfopnaðar skúffur framan á sér út úr barmi og kviði og í kvikmyndum belju hlamma sér upp í sófa eða auga skorið sundur með rakblaði, svo fræg dæmi séu nefnd. Í ljóðlistinni birtist þessi tilhneiging einkum í langsóttum og djörfum myndhverfingum, svo sem því að tala um „bláfextar hugsanir”, „augnatóftir tækninnar” og þar fram eftir götunum.

Mikilvægt í þessu sambandi er að gera sér grein fyrir því að hér er fremur um aðferð að ræða en inntak og verður að skoðast í ljósi þess meginstefnumiðs súrrealískrar listar að opna mönnum víðari sýn og gefa veruleikanum fyllingu. En sú aðferð verður óhjákvæmilega innantóm og leiðigjörn ef henni er beitt eingöngu til að koma mönnum á óvart eða ganga fram af þeim.

Hið „absúrda” eða fáránleikinn er hins vegar sjálft megininntak svonefnds absúrdisma sem haslaði sér völl á rústum Evrópu í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari, þegar öll gildi, guðleg jafnt sem mannleg, virtust endanlega hrunin.

Hugtakinu „absurdum” höfðu kristnir hugsuðir á sínum tíma teflt fram sem grundvelli trúar gegn vitrembu heimspekinga, en í tilvistarspeki tuttugustu aldar lýsir það stöðu mannsins í heimi sem hann stendur framandi gagnvart og ófær um að gefa nokkurt gildi eða merkingu og þar sem öll samskipti hans við aðra verða vélræn og innantóm. Þessari stöðu hafa einkum hinir svonefndu absúrdistar verið ötulir við að lýsa, ekki síst í leikritsformi, og þar komið sumum þeirra vel að geta sótt í smiðju súrrealista og beitt tækni þeirra, þó að þeir stefni í öfuga átt, eða til að horfast í augu við tómið og merkingarleysið fremur en að leita fyllingar draumsins.

Þegar Ionesco beitir því bragði að láta allar persónur í leikriti sínu (utan eina) breytast í nashyrninga er hann vitaskuld að fletta ofan af þeirri nöpru staðreynd að bilið er skemmra milli nashyrnings og manns en margan grunar, þar sem blind einstefna og hóphyggja ræður ferðinni í lífi manna.

En hjá Beckett birtist absúrdisminn á enn beinskeyttari hátt í samþjöppuðum myndum er sýna stöðu mannsins í heimi sem honum er óþyrmilega kastað inn í af óskiljanlegum ástæðum og í fullkominni erindisleysu og þar sem hann bíður eftir einhverju sem aldrei lætur sjá sig, eltist við tálsýnir eða reynir að breiða yfir stöðu sína með því að láta móðan mása, þar sem hann situr kengfastur ýmist ofan í öskutunnu eða niðurgrafinn í sand, og telur sér trú um að lífið á jörðinni sé „hamingjudagar”.

Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Eru eða voru til íslenskir súrrealistar?



Mynd:

Dadaismi: DaDa Online

Absúrdismi: HB

...