Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er erfitt að svara þessari spurningu vegna þess að merking orðsins nýfrjálshyggja er á reiki. Það er þýðing á enska orðinu neoliberalism sem hefur helst verið notað af andstæðingum frjálshyggju. Þeir hafa, margir hverjir, reynt að ljá því neikvæðan blæ, án þess að skilgreina eða skýra á hvern hátt þessi „nýja” frjálshyggja er ólík frjálshyggju 19. aldar.
Mér vitanlega eru ekki til neinir stjórnmálahugsuðir eða stjórnmálaflokkar sem kenna sig við nýfrjálshyggju. Eftir því sem ég kemst næst telja flestir þeir sem eru stimplaðir „nýfrjálshyggjumenn” af andstæðingum sínum sig sjálfir aðhyllast klassíska frjálshyggju.
Ef til vill má gefa orðinu nýfrjálshyggja hlutlausa merkingu með því að láta það ná yfir sjónarmið og kenningar allra núlifandi frjálshyggjumanna. Það sem þeir eiga helst sammerkt er einstaklingshyggja, áhersla á mikilvægi frelsis- og eignarréttinda, trú á að frjáls viðskipti bæði innan lands og milli landa stuðli að góðum lífskjörum og vantrú á að mikil ríkisafskipti hafi góð áhrif á samfélagið. John Stuart Mill tók undir allar þessar skoðanir svo viðhorf hans til stjórnmála eru í dúr við boðskap flestra frjálshyggjumanna bæði nú og fyrr á öldum.
Á seinni hluta 20. aldar blandaðist frjálshyggja í auknum mæli saman við jafnaðarstefnu. Þessi blanda á sér sögu sem rekja má aftur til Thomasar Paine og frönsku stjórnarbyltingarinnar. Í Bandaríkjunum kalla þeir sem aðhyllast svona millistig milli þessara tveggja kenninga sig gjarna „liberals”. Við getum kallað þá frjálslynda jafnaðarmenn. Ætli Al Gore og Tony Blair séu ekki nokkuð dæmigerðir fulltrúar þessarar stefnu. Hún er stundum kölluð frjálshyggja (á ensku „liberalism”), einkum af íhaldsmönnum. En þeim sem sjálfir kalla sig frjálshyggjumenn (á ensku „libertarians”) þykir heldur lítið til hennar koma og þar hafa þeir Mill nokkuð örugglega á sínu bandi.
Allt frá David Hume og Edmund Burke á átjándu öld hafa verið til stjórnmálastefnur sem eru blanda af frjálshyggju og íhaldssemi. Meðal öflugustu talsmanna slíkrar hugmyndablöndu á tuttugustu öld eru Friedrich A. Hayek og Michael Oakeshott, en líklega eru þau Ronald Reagan og Margaret Thatcher þekktustu fulltrúar íhaldsfrjálshyggju á seinni tímum. Allstór hópur þeirra sem kalla sig frjálshyggjumenn án fyrirvara eru jákvæðari í garð þessarar stefnu en frjálslyndu jafnaðarstefnunnar. Ég efast um að Mill fylgi þeim þar.
Eigi að finna eitthvað sem skilur á milli frjálshyggju nútímans og stjórnmálaskoðana Johns Stuart Mill má kannski helst nefna að Mill á síður samleið með íhaldsmönnum. Hér verður þó að hafa þann fyrirvara á að frjálshyggjumenn nútímans eru ekki einlit hjörð og mörgum þeirra er ekki síður í nöp við íhaldssemi en jafnaðarstefnu.
Atli Harðarson. „Hvað á John Stuart Mill sameiginlegt með nýfrjálshyggju?“ Vísindavefurinn, 8. júní 2001, sótt 8. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1687.
Atli Harðarson. (2001, 8. júní). Hvað á John Stuart Mill sameiginlegt með nýfrjálshyggju? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1687
Atli Harðarson. „Hvað á John Stuart Mill sameiginlegt með nýfrjálshyggju?“ Vísindavefurinn. 8. jún. 2001. Vefsíða. 8. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1687>.