Sú skoðun hefur mestan hljómgrunn að synd sé gamalt tökuorð sem unnið hafi sér sess í norður-germönskum málum fyrir kristin áhrif. Veitimálið sem orðið kom úr er fornsaxneska þar sem til var orðið sundia í merkingunni ‘yfirsjón, brot á réttri hegðun’. Orðið var einnig til í öðrum vestur-germönskum málum, í fornháþýsku sem sunte, sunta (í nýháþýsku Sünde), fornfrísnesku sem sende, miðlágþýsku sem sünde, miðhollensku sem sonde, sunde (hollensku zonde), fornensku sem synn (ensku sinn). Í öllum norrænum málum er notuð myndin synd. Í gotnesku, sem telst eina austur-germanska málið, kemur orðið ekki fyrir en heimildir um það mál eru nær eingöngu þýðing á Nýja-testamentinu.
Orðið synd er talið tvímynd við syn en upphafleg merking þess orðs er ‘sannleikur’. Það er nú oftast notað sem síðari liður samsetninga eins og nauðsyn. Síðar þróast merkingin yfir í ‘sönnun á sakleysi, neitun, afsönnun á sök’. Synd og syn eru skyld lýsingarorðinu sannur. Upphafleg merking orðsins synd er talin ‘viðurkenning á sök’, það er sannleiksviðurkenning’ en þróast síðar yfir í þá merkingu sem notuð er í dag.
Um orðið synd hefur Halldór Halldórsson skrifað í Scientia Islandica 1968:60–64 („Synd – An Old-Saxon Loanword“). Einnig má benda á umfjöllun um synd í ritinu Våre arveord eftir Harald Bjorvand og Fredrik Otto Lindeman. Oslo 2000, bls 898.
Mynd: HB
