Sólin Sólin Rís 09:45 • sest 16:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:12 • Sest 01:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:07 • Síðdegis: 14:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:20 • Síðdegis: 21:01 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:45 • sest 16:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:12 • Sest 01:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:07 • Síðdegis: 14:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:20 • Síðdegis: 21:01 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru hvítt og svart litir?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Segja má að svarið við þessu ráðist meðal annars af því hvort átt er við liti sem ljós úr ljósgjafa eða liti sem endurvarp ljóss, auk þess hvað átt er við með hugtakinu litur. Í svari Hauks Más Helgasonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvers vegna eru grunnlitir listmálara gulur, rauður og blár en grunnlitir tölvuskjáa og sjónvarpa rauður, grænn og blár? er fjallað um muninn á lituðu ljósi og endurvarpi lita, eða viðlægum og frádrægum litum. Ljós getur verið rautt, appelsínugult, gult, grænt, blátt eða fjólublátt eftir því hver bylgjulengd þess er. Ef ljósi af öllum bylgjulengdum hins sýnilega litrófs er blandað saman fáum við svo hvítt ljós. Í þessum skilningi má því segja að hvítur geti verið litur. Á hinn bóginn er hvorki til brúnt né svart ljós.

Frádrægir litir, eða þeir litir sem við sjáum á hlutunum í kringum okkur og sem koma úr pensli málarans, eru flóknara fyrirbæri. Rautt epli endurvarpar ljósi af mörgum mismunandi bylgjulengdum en hlutfall ljóss af þessum mismunandi bylgjulengdum er þannig að augu okkar senda heilanum skilaboð sambærileg við þau sem það sendir þegar það horfir í rautt ljós. Þess vegna sjáum við eplið sem rautt þrátt fyrir að það endurvarpi ekki bara rauðu ljósi. Þegar um frádræga liti er að ræða getur því verið erfitt að segja að litur sé bara bylgjulengd ljóss; að minnsta kosti ræðst það hvað við köllum hann af samspili geisla með mismunandi bylgjulengd, augans og heilans.

Stundum er blöndun þess ljóss sem endurvarpast af hlutum á þann veg að úr verður sú upplifun sem við kennum við brúnan lit þó að aldrei sjáum við ljós sem við mundum kalla brúnt. Sumir fletir endurvarpa svo alls engu ljósi og þá skynjum við sem svarta. Ef litið er svo á að frádrægur litur ráðist eingöngu af upplifun okkar af honum ætti að vera óhætt að segja að bæði séu til brúnir og svartir litir þar sem okkur finnst ofur eðlilegt að tala um bæði brúna og svarta hluti og upplifum þá á ákveðinn hátt. Samkvæmt þessum skilningi á orðinu litur er litur hlutar það sem birtist okkur þegar við horfum á hann og einkennist af ákveðnum hughrifum. Þar sem við búum yfir ákveðinni tegund reynslu sem fær okkur til að segja að eitthvað sé brúnt eða svart, og þessi reynsla kemur til af því að við horfum á hluti, eru bæði svartur og brúnn litir.

Ef litið er svo á að frádrægur litur sé það sama og einhvers konar blanda af ljósendurvarpi og upplifun á því verður niðurstaðan kannski sú að hægt sé að tala um brúnan lit en ekki svartan. Svartur er skortur á endurvarpi og því mætti kannski tala um hann sem „and-lit” ef litur á að vera það sama og endurvarp ljóss eða byggja að verulegu leyti á endurvarpi. Eða kannski hann verði „einskonar litur en ekki beinlínis”. Hvítur litur verður hins vegar til þegar flötur endurvarpar jafnt ljósi af öllum bylgjulengdum og virðist því uppfylla þær kröfur sem við gerum til lita.

Eitt sem mælir gegn því að tala um svartan sem lit er að myrkrið er svart. Líklega líta margir svo á að ljós gegni grundvallarhlutverki í myndun lita og svartur er það sem einkennir skort á ljósi. Ef við lítum svo á að svartur geti verið litur sitjum við upp með þá niðurstöðu að einn lit getum við séð í myrkri, nefnilega svartan, en það brýtur gegn þeirri hugsun margra að óhugsandi sé að sjá liti í myrkri.

Á hinn bóginn má benda á að í daglegu tali finnst okkur ofur eðlilegt að tala um svartan sem lit. Ef einhver spyr hvernig hjólbarðar, lakkrís og kjólföt séu á litinn svörum við án þess að blikna: „svört”. Svo má benda á að við tölum stundum um hvíta hluti sem „litlausa”.

Svo virðist sem við notum orðið litur á marga mismunandi vegu og erfitt er að benda á eina „rétta” notkun orðsins. Endanlega niðurstöðu um hvort svart og hvítt séu litir verður lesandinn því að gera upp við sig sjálfur eða kannski meta það eftir aðstæðum hverju sinni.

Sjá einnig:



Mynd: HB

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

26.6.2001

Spyrjandi

Arnór Bogason

Efnisorð

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Eru hvítt og svart litir?“ Vísindavefurinn, 26. júní 2001, sótt 11. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1746.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 26. júní). Eru hvítt og svart litir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1746

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Eru hvítt og svart litir?“ Vísindavefurinn. 26. jún. 2001. Vefsíða. 11. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1746>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru hvítt og svart litir?
Segja má að svarið við þessu ráðist meðal annars af því hvort átt er við liti sem ljós úr ljósgjafa eða liti sem endurvarp ljóss, auk þess hvað átt er við með hugtakinu litur. Í svari Hauks Más Helgasonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvers vegna eru grunnlitir listmálara gulur, rauður og blár en grunnlitir tölvuskjáa og sjónvarpa rauður, grænn og blár? er fjallað um muninn á lituðu ljósi og endurvarpi lita, eða viðlægum og frádrægum litum. Ljós getur verið rautt, appelsínugult, gult, grænt, blátt eða fjólublátt eftir því hver bylgjulengd þess er. Ef ljósi af öllum bylgjulengdum hins sýnilega litrófs er blandað saman fáum við svo hvítt ljós. Í þessum skilningi má því segja að hvítur geti verið litur. Á hinn bóginn er hvorki til brúnt né svart ljós.

Frádrægir litir, eða þeir litir sem við sjáum á hlutunum í kringum okkur og sem koma úr pensli málarans, eru flóknara fyrirbæri. Rautt epli endurvarpar ljósi af mörgum mismunandi bylgjulengdum en hlutfall ljóss af þessum mismunandi bylgjulengdum er þannig að augu okkar senda heilanum skilaboð sambærileg við þau sem það sendir þegar það horfir í rautt ljós. Þess vegna sjáum við eplið sem rautt þrátt fyrir að það endurvarpi ekki bara rauðu ljósi. Þegar um frádræga liti er að ræða getur því verið erfitt að segja að litur sé bara bylgjulengd ljóss; að minnsta kosti ræðst það hvað við köllum hann af samspili geisla með mismunandi bylgjulengd, augans og heilans.

Stundum er blöndun þess ljóss sem endurvarpast af hlutum á þann veg að úr verður sú upplifun sem við kennum við brúnan lit þó að aldrei sjáum við ljós sem við mundum kalla brúnt. Sumir fletir endurvarpa svo alls engu ljósi og þá skynjum við sem svarta. Ef litið er svo á að frádrægur litur ráðist eingöngu af upplifun okkar af honum ætti að vera óhætt að segja að bæði séu til brúnir og svartir litir þar sem okkur finnst ofur eðlilegt að tala um bæði brúna og svarta hluti og upplifum þá á ákveðinn hátt. Samkvæmt þessum skilningi á orðinu litur er litur hlutar það sem birtist okkur þegar við horfum á hann og einkennist af ákveðnum hughrifum. Þar sem við búum yfir ákveðinni tegund reynslu sem fær okkur til að segja að eitthvað sé brúnt eða svart, og þessi reynsla kemur til af því að við horfum á hluti, eru bæði svartur og brúnn litir.

Ef litið er svo á að frádrægur litur sé það sama og einhvers konar blanda af ljósendurvarpi og upplifun á því verður niðurstaðan kannski sú að hægt sé að tala um brúnan lit en ekki svartan. Svartur er skortur á endurvarpi og því mætti kannski tala um hann sem „and-lit” ef litur á að vera það sama og endurvarp ljóss eða byggja að verulegu leyti á endurvarpi. Eða kannski hann verði „einskonar litur en ekki beinlínis”. Hvítur litur verður hins vegar til þegar flötur endurvarpar jafnt ljósi af öllum bylgjulengdum og virðist því uppfylla þær kröfur sem við gerum til lita.

Eitt sem mælir gegn því að tala um svartan sem lit er að myrkrið er svart. Líklega líta margir svo á að ljós gegni grundvallarhlutverki í myndun lita og svartur er það sem einkennir skort á ljósi. Ef við lítum svo á að svartur geti verið litur sitjum við upp með þá niðurstöðu að einn lit getum við séð í myrkri, nefnilega svartan, en það brýtur gegn þeirri hugsun margra að óhugsandi sé að sjá liti í myrkri.

Á hinn bóginn má benda á að í daglegu tali finnst okkur ofur eðlilegt að tala um svartan sem lit. Ef einhver spyr hvernig hjólbarðar, lakkrís og kjólföt séu á litinn svörum við án þess að blikna: „svört”. Svo má benda á að við tölum stundum um hvíta hluti sem „litlausa”.

Svo virðist sem við notum orðið litur á marga mismunandi vegu og erfitt er að benda á eina „rétta” notkun orðsins. Endanlega niðurstöðu um hvort svart og hvítt séu litir verður lesandinn því að gera upp við sig sjálfur eða kannski meta það eftir aðstæðum hverju sinni.

Sjá einnig:



Mynd: HB

...