Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er til forngrískur eða rómverskur kveðskapur sem fjallar um siðspillingu mannanna og afleiðingar hennar, samanber til dæmis Völuspá í norræni trú?

Geir Þ. Þórarinsson

Í Völuspá segir frá upphafi heimsins og endalokum hans og ragnarökum eða endalokum guðanna, sem verða vegna hegðunar þeirra sjálfra og manna. Sams konar heimsslitabókmenntir voru ekki til hjá Forngrikkjum eða Rómverjum. Þar segir hvergi frá endalokum guðanna og endalokum heimsins – nema þá ef með er talin Opinberunarbók Jóhannesar þar sem segir frá heimsslitum en hún var eins og Nýja testamentið allt rituð á forngrísku. En venjulega eru kristnar bókmenntir ekki taldar til klassískra forngrískra eða rómverskra bókmennta.

Siðspilling manna og afleiðingar hennar koma þó víða við sögu í klassískum bókmenntum í einni eða annarri mynd. Hér gefst vitaskuld ekki færi á að lýsa öllum þeim bókmenntum þar sem siðspilling og afleiðingar hennar koma við sögu en þó má nefna nokkur dæmi. Þar ber að nefna kvæðið Verk og dagar eftir forngríska skáldið Hesíódos sem var uppi seint á áttundu öld f.Kr. eða snemma á þeirri sjöundu. Í kvæðinu segir frá tilurð mannkyns en samkvæmt fræðum Hesíódosar hafa mörg kyn manna byggt ból heimsins. Hesíódos greinir frá fimm skeiðum í sögu heimsins með tilheyrandi hnignun frá því fyrsta til þess síðasta, sem hann telur vera samtíma sinn. Þessi skeið eru gullöld, silfuröld, bronsöld, hetjuöld og járnöld. Hesíódos segir að guðirnir hafi skapað fyrsta kyn manna á gullöldinni en segir ekki hvernig það kyn fórst. Ljóst er að kyn silfur- og bronsaldar dóu út af því að menn frömdu glæpi hver gegn öðrum og virtu ekki guðina og herjuðu hverjir á aðra. Um þetta má lesa í svari undirritaðs við spurningunni Hvernig varð mannkynið til samkvæmt grískri goðafræði? Útgáfu af þessari sögu er einnig að finna í kvæðinu Umbreytingum eða Metamorphoses eftir rómverska skáldið Publius Ovidius Naso.

Í Verkum og dögum segir Hesíódos einnig frá afleiðingum þess að Prómeþeifur hafi stolið eldinum handa mönnum. Af þeim sökum sendu guðirnir nefnilega Pandóru (eða Algjöf) til manna en í öskju hennar voru sjúkdómar og pestir hvers kyns. Hefæstos mótaði hana úr leir í mynd hinna ódauðlegu gyðja, eins og sést hér á myndinni til hliðar. Aþena kenndi henni að vefa, Afródíta gaf henni þokka en Hermes gerði hana undirförla. Hermes færði hana svo Epimeþeifi, bróður Prómeþeifs, sem gleymdi fyrirmælum bróður síns um að þiggja ekki gjafir frá Ólympsguðum. Þegar Pandóra opnaði öskjuna flugu pestirnar út en einungis vonin varð eftir í öskjunni.

Þá er siðferðisbrest af einhverju tagi að finna í flestum grísku harmleikjunum og afleiðingarnar eru eins og gefur að skilja hörmulegar fyrir þá sem hlut eiga að máli. Hér gefst ekki færi á að rekja söguþráð allra harmleikjanna 33 sem varðveittir eru. Nægir að taka dæmi af einum, Antígónu eftir Sófókles, sem var fyrst settur á svið í Aþenu 442 eða 441 f.Kr. Forsaga leikritsins er sagan af Ödípúsi konungi í Þebu, sem óafvitandi vó föður sinn og kvæntist móður sinni.

Eftir andlát Ödípúsar skiptu synir hans Pólýneikes og Eteókles með sér völdum í borginni þannig að annar þeirra væri við stjórn í einu. Þegar kom að því að Pólýneikes átti að taka við vildi Eteókles ekki láta af völdum. Pólýneikes safnaði því liði frá sjö öðrum borgum og herjaði á Þebu. Frá þessu segir meðal annars í leikritinu Sjö gegn Þebu eftir Æskýlos. Að endingu fór svo að bræðurnir vógu hvor annan. Þá tók Kreon, mágur Ödípúsar og móðurbróðir þeirra Pólýneikesar og Eteóklesar völdin.

Í Antígónu hefur Kreon bannað að Pólýneikes verði grafinn enda þótt Eteókles fái greftrun. Þetta vill Antígóna, systir Pólýneikesar og Eteóklesar, ekki sætta sig við. Hún ákveður að greftra Pólýneikes þvert gegn banni Kreons, með þeim rökum að það sé samkvæmt lögum guðanna, sem séu æðri en lög manna. Þegar upp kemst um verknaðinn er Antígóna tekin höndum. Hæmon, sonur Kreons og unnusti Antígónu, reynir árangurslaust að miðla málum en Kreon neitar að gefa eftir og fyrirskipar að Antígóna skuli grafin lifandi. Þegar spámaðurinn Teiresías segir fyrir um að Kreon muni missa barn sitt vegna þessa lætur Kreon loks undan en þá hafa bæði Antígóna og Hæmon stytt sér aldur og það hefur Evrýdíka kona hans einnig gert eftir að hún frétti að láti Hæmons. Dramb og stolt Kreons höfðu því skelfilegar afleiðingar.


Antígóna við lík Pólýneikesar. málverk frá árinu 1865 eftir gríska málarann Nikiphoros Lytras.

Einnig má geta rómverskrar sagnaritunar í þessu sambandi því að sumir rómverskir sagnaritarar töldu að ýmiss konar siðferðisbrestir hefðu valdið hnignun í rómversku samfélagi. Meðal þeirra sem töldu það má nefna sagnaritarana Sallustius Crispus og Titus Livius. Í fyrsta riti sínu, Um samsæri Catilinu, útskýrir Sallustius ástæður sínar fyrir efnisvalinu: Honum virtist samsæri Catilinu hafa verið afar mikilvægur atburður í sögu borgarinnar og verðskulda umfjöllunina því að hættan sem stafaði af samsærinu hafi verið gríðarleg; en Catilina var sjálfur persónugervingur þeirrar spillingar og siðferðishnignunar sem var í þann mund að kollvarpa ríkinu. Samsærið var nokkurs konar hápunktur siðleysisins. Livius tekur ekki jafn djúpt í árinni en hann segir í formálanum að verki sínu Frá stofnun borgarinnar (Ab urbe condita) að fyrir honum vaki að hefja upp dygðirnar sem Róm var byggð á og benda á lestina og spillinguna sem ógnuðu henni síðar.

Að lokum má nefna rómverska bókmenntaformið satírur, sem voru háðs- og ádeilukveðskapur þar sem gjarnan var deilt á hvers kyns siðspillingu, svo sem græðgi og framhjáhald en minna fór fyrir umfjöllun um afleiðingar spillingarinnar í satírukveðskapnum. Um satírur má lesa nánar í svari undirritaðs við spurningunni Hvers konar skáldskapur er ljóðasafnið Satírur eftir rómverska skáldið Júvenalis?

Hér hafa verið nefnd dæmi af ýmsu tagi um siðspillingu eða siðferðisbresti og afleiðingar þeirra. Afleiðingarnar hafa verið hörmulegar annaðhvort fyrir fólk persónulega (eins og í tilviki Kreons) eða fyrir samfélagið (eins og rómversku sagnaritararnir héldu) eða fyrir tilvist mannkyns (eins og í tilviki hinna goðsögulegu kynslóða manna hjá Hesíódosi). En afleiðingarnar eru aldrei ragnarök eða heimsendir.

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

26.3.2009

Spyrjandi

Helga Aðalsteinsdóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Er til forngrískur eða rómverskur kveðskapur sem fjallar um siðspillingu mannanna og afleiðingar hennar, samanber til dæmis Völuspá í norræni trú?“ Vísindavefurinn, 26. mars 2009, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=17578.

Geir Þ. Þórarinsson. (2009, 26. mars). Er til forngrískur eða rómverskur kveðskapur sem fjallar um siðspillingu mannanna og afleiðingar hennar, samanber til dæmis Völuspá í norræni trú? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=17578

Geir Þ. Þórarinsson. „Er til forngrískur eða rómverskur kveðskapur sem fjallar um siðspillingu mannanna og afleiðingar hennar, samanber til dæmis Völuspá í norræni trú?“ Vísindavefurinn. 26. mar. 2009. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=17578>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er til forngrískur eða rómverskur kveðskapur sem fjallar um siðspillingu mannanna og afleiðingar hennar, samanber til dæmis Völuspá í norræni trú?
Í Völuspá segir frá upphafi heimsins og endalokum hans og ragnarökum eða endalokum guðanna, sem verða vegna hegðunar þeirra sjálfra og manna. Sams konar heimsslitabókmenntir voru ekki til hjá Forngrikkjum eða Rómverjum. Þar segir hvergi frá endalokum guðanna og endalokum heimsins – nema þá ef með er talin Opinberunarbók Jóhannesar þar sem segir frá heimsslitum en hún var eins og Nýja testamentið allt rituð á forngrísku. En venjulega eru kristnar bókmenntir ekki taldar til klassískra forngrískra eða rómverskra bókmennta.

Siðspilling manna og afleiðingar hennar koma þó víða við sögu í klassískum bókmenntum í einni eða annarri mynd. Hér gefst vitaskuld ekki færi á að lýsa öllum þeim bókmenntum þar sem siðspilling og afleiðingar hennar koma við sögu en þó má nefna nokkur dæmi. Þar ber að nefna kvæðið Verk og dagar eftir forngríska skáldið Hesíódos sem var uppi seint á áttundu öld f.Kr. eða snemma á þeirri sjöundu. Í kvæðinu segir frá tilurð mannkyns en samkvæmt fræðum Hesíódosar hafa mörg kyn manna byggt ból heimsins. Hesíódos greinir frá fimm skeiðum í sögu heimsins með tilheyrandi hnignun frá því fyrsta til þess síðasta, sem hann telur vera samtíma sinn. Þessi skeið eru gullöld, silfuröld, bronsöld, hetjuöld og járnöld. Hesíódos segir að guðirnir hafi skapað fyrsta kyn manna á gullöldinni en segir ekki hvernig það kyn fórst. Ljóst er að kyn silfur- og bronsaldar dóu út af því að menn frömdu glæpi hver gegn öðrum og virtu ekki guðina og herjuðu hverjir á aðra. Um þetta má lesa í svari undirritaðs við spurningunni Hvernig varð mannkynið til samkvæmt grískri goðafræði? Útgáfu af þessari sögu er einnig að finna í kvæðinu Umbreytingum eða Metamorphoses eftir rómverska skáldið Publius Ovidius Naso.

Í Verkum og dögum segir Hesíódos einnig frá afleiðingum þess að Prómeþeifur hafi stolið eldinum handa mönnum. Af þeim sökum sendu guðirnir nefnilega Pandóru (eða Algjöf) til manna en í öskju hennar voru sjúkdómar og pestir hvers kyns. Hefæstos mótaði hana úr leir í mynd hinna ódauðlegu gyðja, eins og sést hér á myndinni til hliðar. Aþena kenndi henni að vefa, Afródíta gaf henni þokka en Hermes gerði hana undirförla. Hermes færði hana svo Epimeþeifi, bróður Prómeþeifs, sem gleymdi fyrirmælum bróður síns um að þiggja ekki gjafir frá Ólympsguðum. Þegar Pandóra opnaði öskjuna flugu pestirnar út en einungis vonin varð eftir í öskjunni.

Þá er siðferðisbrest af einhverju tagi að finna í flestum grísku harmleikjunum og afleiðingarnar eru eins og gefur að skilja hörmulegar fyrir þá sem hlut eiga að máli. Hér gefst ekki færi á að rekja söguþráð allra harmleikjanna 33 sem varðveittir eru. Nægir að taka dæmi af einum, Antígónu eftir Sófókles, sem var fyrst settur á svið í Aþenu 442 eða 441 f.Kr. Forsaga leikritsins er sagan af Ödípúsi konungi í Þebu, sem óafvitandi vó föður sinn og kvæntist móður sinni.

Eftir andlát Ödípúsar skiptu synir hans Pólýneikes og Eteókles með sér völdum í borginni þannig að annar þeirra væri við stjórn í einu. Þegar kom að því að Pólýneikes átti að taka við vildi Eteókles ekki láta af völdum. Pólýneikes safnaði því liði frá sjö öðrum borgum og herjaði á Þebu. Frá þessu segir meðal annars í leikritinu Sjö gegn Þebu eftir Æskýlos. Að endingu fór svo að bræðurnir vógu hvor annan. Þá tók Kreon, mágur Ödípúsar og móðurbróðir þeirra Pólýneikesar og Eteóklesar völdin.

Í Antígónu hefur Kreon bannað að Pólýneikes verði grafinn enda þótt Eteókles fái greftrun. Þetta vill Antígóna, systir Pólýneikesar og Eteóklesar, ekki sætta sig við. Hún ákveður að greftra Pólýneikes þvert gegn banni Kreons, með þeim rökum að það sé samkvæmt lögum guðanna, sem séu æðri en lög manna. Þegar upp kemst um verknaðinn er Antígóna tekin höndum. Hæmon, sonur Kreons og unnusti Antígónu, reynir árangurslaust að miðla málum en Kreon neitar að gefa eftir og fyrirskipar að Antígóna skuli grafin lifandi. Þegar spámaðurinn Teiresías segir fyrir um að Kreon muni missa barn sitt vegna þessa lætur Kreon loks undan en þá hafa bæði Antígóna og Hæmon stytt sér aldur og það hefur Evrýdíka kona hans einnig gert eftir að hún frétti að láti Hæmons. Dramb og stolt Kreons höfðu því skelfilegar afleiðingar.


Antígóna við lík Pólýneikesar. málverk frá árinu 1865 eftir gríska málarann Nikiphoros Lytras.

Einnig má geta rómverskrar sagnaritunar í þessu sambandi því að sumir rómverskir sagnaritarar töldu að ýmiss konar siðferðisbrestir hefðu valdið hnignun í rómversku samfélagi. Meðal þeirra sem töldu það má nefna sagnaritarana Sallustius Crispus og Titus Livius. Í fyrsta riti sínu, Um samsæri Catilinu, útskýrir Sallustius ástæður sínar fyrir efnisvalinu: Honum virtist samsæri Catilinu hafa verið afar mikilvægur atburður í sögu borgarinnar og verðskulda umfjöllunina því að hættan sem stafaði af samsærinu hafi verið gríðarleg; en Catilina var sjálfur persónugervingur þeirrar spillingar og siðferðishnignunar sem var í þann mund að kollvarpa ríkinu. Samsærið var nokkurs konar hápunktur siðleysisins. Livius tekur ekki jafn djúpt í árinni en hann segir í formálanum að verki sínu Frá stofnun borgarinnar (Ab urbe condita) að fyrir honum vaki að hefja upp dygðirnar sem Róm var byggð á og benda á lestina og spillinguna sem ógnuðu henni síðar.

Að lokum má nefna rómverska bókmenntaformið satírur, sem voru háðs- og ádeilukveðskapur þar sem gjarnan var deilt á hvers kyns siðspillingu, svo sem græðgi og framhjáhald en minna fór fyrir umfjöllun um afleiðingar spillingarinnar í satírukveðskapnum. Um satírur má lesa nánar í svari undirritaðs við spurningunni Hvers konar skáldskapur er ljóðasafnið Satírur eftir rómverska skáldið Júvenalis?

Hér hafa verið nefnd dæmi af ýmsu tagi um siðspillingu eða siðferðisbresti og afleiðingar þeirra. Afleiðingarnar hafa verið hörmulegar annaðhvort fyrir fólk persónulega (eins og í tilviki Kreons) eða fyrir samfélagið (eins og rómversku sagnaritararnir héldu) eða fyrir tilvist mannkyns (eins og í tilviki hinna goðsögulegu kynslóða manna hjá Hesíódosi). En afleiðingarnar eru aldrei ragnarök eða heimsendir.

Myndir:...