Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er „kolefnisklukkan” alltaf áreiðanleg?

Sigurður Steinþórsson

Frumkvöðlar geislakolsaðferðarinnar gerðu ráð fyrir því að hlutfall C-14 í andrúmsloftinu breyttist ekki með tímanum — það er að segja að geimgeislastreymið sem myndar C-14 úr köfnunarefni væri stöðugt. Síðar kom í ljós að málið er ekki svo einfalt, og að eitt er geislakolsaldur og annað „raunverulegur aldur“.

Þá var farið út í það að staðla geislakolsaðferðina með árhringjum trjáa, en tré sumra tegunda geta sem kunnugt er orðið gríðarlega gömul (sjá til dæmis snið úr risafuru í Háskólabíói). Annars vegar voru árhringar taldir og þeir hins vegar aldursgreindir með geislakolsaðferð. Í ljós kom að aldur árhringanna samkvæmt talningu vék frá mældum aldri samkvæmt geislakolsgreiningu með óreglulegum hætti, þannig að fyrir viss tímabil getur munað verulega, og nú leiðrétta menn C-14 greiningar með aðstoð leiðréttingarferils.

Að því er Íslandssöguna varðar er upphaf landnámsins sérlega erfitt tímabil í þessu tilliti því að sýnishorn frá mestum hluta 9. aldar sýna sama geislakolsaldur. Af þeim sökum fékkst ekki niðurstaða um raunverulegan aldur landnámslagsins svonefnda, sem fellur saman við upphaf landnáms á Íslandi, fyrr en korn úr gosösku þess fundust í ískjarna á Grænlandi — lagið reyndist hafa fallið kringum árið 871 eftir Krist.

Á þremur stöðum á Íslandi hafa sýni tengd fornleifum bent til 200-250 ára hærri aldurs en almennt er viðurkennt fyrir landnámið (1100 ár) — í uppgreftri í Aðalstræti kringum 1970, í Vestmannaeyjum og í Dalasýslu. Um ástæðu þessa hafa staðið nokkrar deilur meðal vísindamanna, og ekki fengist niðurstaða enn. Sumir vilja trúa C-14 greiningunum og „lengja Íslandssöguna um 250 ár“ en aðrir telja að eitthvað sé bogið við sýnatöku eða mælingu.

Meðal þess sem getur „ruglað“ C-14 aldursgreiningu fornleifa er í fyrsta lagi það að hið aldursgreinda efni sé eldra en sá „atburður“ sem greina átti, til dæmis að brenndur hafi verið rekaviður eða lurkamór (til dæmis 2500 ára birkilurkar úr mýrum) fremur en samtímakjarr. En fleira kann að flækja málin.

Á fyrra ári birtist í Árbók Fornleifafélagsins fyrir árið 1998 lítil grein eftir Guðmund Ólafsson þar sem lýst var niðurstöðum C-14 aldursgreininga á sýnum úr hellinum Víðgelmi í Hallmundarhrauni. Um var að ræða annars vegar kýrbein og hins vegar salla af birkikolum frá þeim tíma er kýrin var soðin yfir viðareldi. Hallmundarhraun liggur ofan á fyrrnefndu landnámslagi með þunnum jarðvegi á milli, þannig að það er sennilegast frá 10. öld — og eldri getur hellirinn ekki verið. Samkvæmt geislakolsmælingu reyndust 95% líkur fyrir því að beinin væru frá 890-1020, en birkikolin hins vegar frá 690-890 (!). Samkvæmt þessu eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli.

Svarið við upphaflegu spurningunni er hins vegar þetta: Kolefnisklukkan er áreiðanleg, svo fremi við kunnum að lesa af henni.

Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hver fann upp geislakolsaðferðina til að aldursgreina til dæmis risaeðlur og hvenær gerðist það?

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

2.7.2001

Spyrjandi

Daði Guðjónsson, fæddur 1981

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Er „kolefnisklukkan” alltaf áreiðanleg?“ Vísindavefurinn, 2. júlí 2001, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1759.

Sigurður Steinþórsson. (2001, 2. júlí). Er „kolefnisklukkan” alltaf áreiðanleg? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1759

Sigurður Steinþórsson. „Er „kolefnisklukkan” alltaf áreiðanleg?“ Vísindavefurinn. 2. júl. 2001. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1759>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er „kolefnisklukkan” alltaf áreiðanleg?
Frumkvöðlar geislakolsaðferðarinnar gerðu ráð fyrir því að hlutfall C-14 í andrúmsloftinu breyttist ekki með tímanum — það er að segja að geimgeislastreymið sem myndar C-14 úr köfnunarefni væri stöðugt. Síðar kom í ljós að málið er ekki svo einfalt, og að eitt er geislakolsaldur og annað „raunverulegur aldur“.

Þá var farið út í það að staðla geislakolsaðferðina með árhringjum trjáa, en tré sumra tegunda geta sem kunnugt er orðið gríðarlega gömul (sjá til dæmis snið úr risafuru í Háskólabíói). Annars vegar voru árhringar taldir og þeir hins vegar aldursgreindir með geislakolsaðferð. Í ljós kom að aldur árhringanna samkvæmt talningu vék frá mældum aldri samkvæmt geislakolsgreiningu með óreglulegum hætti, þannig að fyrir viss tímabil getur munað verulega, og nú leiðrétta menn C-14 greiningar með aðstoð leiðréttingarferils.

Að því er Íslandssöguna varðar er upphaf landnámsins sérlega erfitt tímabil í þessu tilliti því að sýnishorn frá mestum hluta 9. aldar sýna sama geislakolsaldur. Af þeim sökum fékkst ekki niðurstaða um raunverulegan aldur landnámslagsins svonefnda, sem fellur saman við upphaf landnáms á Íslandi, fyrr en korn úr gosösku þess fundust í ískjarna á Grænlandi — lagið reyndist hafa fallið kringum árið 871 eftir Krist.

Á þremur stöðum á Íslandi hafa sýni tengd fornleifum bent til 200-250 ára hærri aldurs en almennt er viðurkennt fyrir landnámið (1100 ár) — í uppgreftri í Aðalstræti kringum 1970, í Vestmannaeyjum og í Dalasýslu. Um ástæðu þessa hafa staðið nokkrar deilur meðal vísindamanna, og ekki fengist niðurstaða enn. Sumir vilja trúa C-14 greiningunum og „lengja Íslandssöguna um 250 ár“ en aðrir telja að eitthvað sé bogið við sýnatöku eða mælingu.

Meðal þess sem getur „ruglað“ C-14 aldursgreiningu fornleifa er í fyrsta lagi það að hið aldursgreinda efni sé eldra en sá „atburður“ sem greina átti, til dæmis að brenndur hafi verið rekaviður eða lurkamór (til dæmis 2500 ára birkilurkar úr mýrum) fremur en samtímakjarr. En fleira kann að flækja málin.

Á fyrra ári birtist í Árbók Fornleifafélagsins fyrir árið 1998 lítil grein eftir Guðmund Ólafsson þar sem lýst var niðurstöðum C-14 aldursgreininga á sýnum úr hellinum Víðgelmi í Hallmundarhrauni. Um var að ræða annars vegar kýrbein og hins vegar salla af birkikolum frá þeim tíma er kýrin var soðin yfir viðareldi. Hallmundarhraun liggur ofan á fyrrnefndu landnámslagi með þunnum jarðvegi á milli, þannig að það er sennilegast frá 10. öld — og eldri getur hellirinn ekki verið. Samkvæmt geislakolsmælingu reyndust 95% líkur fyrir því að beinin væru frá 890-1020, en birkikolin hins vegar frá 690-890 (!). Samkvæmt þessu eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli.

Svarið við upphaflegu spurningunni er hins vegar þetta: Kolefnisklukkan er áreiðanleg, svo fremi við kunnum að lesa af henni.

Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hver fann upp geislakolsaðferðina til að aldursgreina til dæmis risaeðlur og hvenær gerðist það?

...