1,75% jarðarbúa, eða 105 milljónir, tilheyra hvítasunnusöfnuðum (Pentecostal) af einhverju tagi en um 1,1%, 64 milljónir, tilheyra lúterskum söfnuðum. Þegar á heildina er litið eru hvítasunnukirkjur því talsvert fjölmennari en lúterskar. Munurinn fer vaxandi þar sem fjölgun í hvítasunnusöfnuðum er meiri en í lúterskum.
Þessi stærðarhlutföll eiga ekki við hér á Íslandi svo sem kunnugt er. Hér er lútersk þjóðkirkja og í henni eru 87,83% landsmanna. Í svokölluðum fríkirkjum, sem eru lútersk trúfélög utan þjóðkirkjunnar, eru 3,92%. Samtals tilheyra því 91,75% Íslendinga lúterskri kirkju sem verður að teljast öllu hærra hlutfall en hlutfall lúterskra á heimsvísu. Meðlimir í Hvítasunnukirkjunni á Íslandi eru tæplega 1500, eða 0,53% Íslendinga. Að auki má telja fleiri trúfélög sem kennd eru við hvítasunnuhreyfinguna; Veginn, Krossinn og Betaníu. Samanlagt hlutfall hvítasunnufólks á Íslandi er um 1%.
Segja má því að íslenskt trúarlíf sé langt frá því að vera dæmigert fyrir jörðina í heild, jafnvel þegar eingöngu er litið til kristinna safnaða. Enn eitt dæmið, og kannski hið skýrasta er að rómversk-kaþólskir telja um helming kristinna, eða um 17% jarðarbúa í heild. Hins vegar eru aðeins 1,52% íslensku þjóðarinnar rómversk-kaþólsk.
Heimildir:
Adherents.com
Religioustolerance.org
Hagstofa Íslands
Mynd: HB