Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þá tilgátu að ekkert geti hreyfst má rekja til Parmenídesar frá Eleu, sem var grískur heimspekingur á fimmtu öld fyrir Krist. Parmenídes setti kenningu sína um að hreyfing og raunar öll breyting væri ómöguleg fram í löngu kvæði sem enn er varðveitt að hluta. Og þótt kenningin gangi í berhögg við daglega reynslu allra manna þá naut Parmenídes mikillar virðingar sem heimspekingur um sína daga.
Frægasti lærisveinn Parmenídesar var Zenón en hann er þekktur fyrir snjallar þverstæður þess efnis að hreyfing sé óhugsandi. En Parmenídes naut ekki einungis virðingar meðal lærisveina sinna heldur einnig margra sem voru honum algerlega ósammála. Má þar nefna að Aristóteles vísar til hans hvað eftir annað og er mikið í mun að hrekja þá kenningu að breyting sé ómöguleg og Platon skrifaði heila samræðu þar sem Sókrates sem ungur fullhugi fer halloka í rökræðu við Parmenídes.
En hver voru rökin fyrir þeirri kenningu Parmenídesar að hreyfing, og raunar öll breyting væri óhugsandi? Rök Parmenídesar byggjast á tveimur grunnhugmyndum:
Það eina sem er, er það sem er til, og það sem ekki er til, er ekki neitt.
Tóm er þar sem ekki neitt er, og því getur tóm ekki verið til.
Fyrri hugmyndin virðist raunar svo sjálfsögð að engum skyldi detta í hug að hafna henni. Næst veltir Parmenídes því fyrir sér hvernig eitthvað gæti hafa orðið til. Hér kemur tvennt til. Annað hvort hefur það sem er til verið skapað úr því sem ekki er til eða úr því sem er til. Fyrri möguleikinn er óhugsandi því það sem er ekki til er ekki neitt og getur ekki getið neitt af sér. En gæti það sem er til þá verið skapað úr því sem er til? Parmenídesi viriðist þessi niðurstaða einnig óhugsandi því ekkert getur orðið til úr sjálfu sér. Ef hlutur gæti orðið til úr sjálfu sér þá þyrfti hluturinn að hafa verið til áður en hann varð til, en það er óhugsandi.
Hér höfum við rök gegn því að veröldin hafi upphaf. En hversvegna getur það sem er til ekki breyst, til dæmis hreyfst frá einum stað til annars? Þótt veröldin geti ekki haft upphaf, er ekki þar með sagt að hún geti ekki verið á hreyfingu. Rök Parmenídesar gegn möguleikanum á hreyfingu byggðust á seinna lögmálinu hér á undan.
Hreyfing er færsla hlutar frá einum stað til annars. En til þess að hlutur geti færst úr einum stað á annan verður að vera autt pláss fyrir hlutinn á seinni staðnum. Þetta er einfaldlega það lögmál sem við rekum okkur á þegar við komum heim með innkaupapoka og reynum að raða mjólkurfernunum inn í yfirfullan ísskápinn. En hvað er autt pláss? Parmenídes leit svo á að autt pláss gæti ekki verið annað en tóm, og þar sem tóm gæti ekki verið til þá gæti autt pláss ekki verið til. Og þar með væri öll hreyfing ómöguleg.
En víkjum þá að lærisveini Parmenídesar, Zenóni. Sagt er að Zenón hafi sett fram 40 þverstæður, en einungis fjórar þeirra eru þekktar enn í dag. Þverstæður Zenóns þess efnis að hreyfing sé ómöguleg eru talsvert ólíkar röksemdafærslum Parmenídesar.
Frægust er líklega sagan af Akkillesi og skjaldbökunni. Zenón hugsar sér kapphlaup milli Akkillesar, sem var frækinn hermaður, og skjaldböku þar sem skjaldbakan fær lítilsháttar forskot. Segjum að Akkilles byrji á punkti A en skjaldbakan á punkti B. Þegar Akkilles hefur hlaupið frá A til B hefur skjaldbakan þokað sér ögn áleiðis. Segjum að skjaldbakan sé nú komin á stað C. Þegar Akkilles er svo kominn á C, er skjaldbakan enn búin að þoka sér lítinn spöl. Nú er hún á D. Og þannig heldur Akkilles áfram að elta skjaldbökuna; þegar hann hefur hlaupið frá C til D, þá hefur skjaldbakan þokað sér til E. Og þótt bilið milli Akkillesar og skjaldbökunnar minnki alltaf þá þarf Akkilles að hlaupa óendanlega marga spotta áður en hann nær skjaldbökunni. Og nú ályktaði Zenón sem svo að þar sem Akkilles gæti ekki hlaupið óendanlega marga spotta á endanlegum tíma, þá gæti hann ekki náð skjaldbökunni.
Þessi þverstæða Zenóns er í senn einföld og flókin. Það hlýtur að vera brestur í henni. Það er ekki nóg að fá forskot til að vinna í kapphlaupi, það þarf líka að hlaupa hratt. En hvar er þá bresturinn? Bresturinn er í seinustu ályktuninni, að ekki sé hægt að hlaupa óendanlega marga spotta á endanlegum tíma. En það var ekki fyrr en með tilkomu stærðfræðigreiningar á 17. öld sem menn höfðu tæki til að skilja þennan brest til hlítar.
En hvað um sannleiksgildi kenningarinnar um að hreyfing sé ómöguleg? Hún stangast harkalega á við daglega reynslu okkar, og rökin sem hafa verið færð fyrir henni eru ekki laus við bresti. Flestir eru því á þeirri skoðun að daglegri reynslu okkar sé að treysta í þessum efnum og að kenningin sé ósönn.
Um kapphlaup Akkillesar og skjaldbökunnar má lesa nánar í svari Kristínar Höllu Jónsdóttur við spurningunni Ef skjaldbaka og hestur fara í kapphlaup og skjaldbakan byrjar með 100 m forskot, getur hesturinn einhvern tímann náð henni?Frekara lesefni
Atli Harðarson, Afarkostir, Háskólaútgáfan 1995.
Ólafur Páll Jónsson. „Hver setti fram þá tilgátu að hreyfing væri ekki til? Er hún sönn?“ Vísindavefurinn, 12. júlí 2001, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1780.
Ólafur Páll Jónsson. (2001, 12. júlí). Hver setti fram þá tilgátu að hreyfing væri ekki til? Er hún sönn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1780
Ólafur Páll Jónsson. „Hver setti fram þá tilgátu að hreyfing væri ekki til? Er hún sönn?“ Vísindavefurinn. 12. júl. 2001. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1780>.