Orðið póstur er til í fleiri en einni merkingu og er uppruninn ekki alltaf hinn sami. Í fyrsta lagi er póstur notað um mann sem ber út eða flytur bréf og böggla milli staða. Sendingin sjálf er einnig nefnd póstur og sömuleiðis sú stofnun sem annast slíka þjónustu. Í þessari merkingu er orðið til í íslensku frá því á 18. öld. Það er talið tökuorð úr dönsku post. Í norræn mál barst orðið úr ítölsku, hugsanlega um þýsku Post. Ítalska orðið posta á rætur að rekja til miðaldalatínu posta 'póststöð, staður þar sem sendimaður skiptir um hesta'. Posta er komið af postita, lýsingarhætti þátíðar í kvenkyni, af sögninni ponere 'setja, leggja'. Af sömu ætt er póstur í merkingunni 'atriði í reikningi; kafli í bók eða bréfi.'
Í öðru lagi er póstur notað um vatnsdælu og lóðréttan lista eða styrktartré, t.d. gluggapóstur. Það er einnig tökuorð úr dönsku frá 17. öld. Danska orðið post er fengið úr miðlágþýsku post sem rætur á að rekja til latínu postis 'dyrakarmur'.
Að lokum má nefna að orðið póstur er notað um sexurnar í spilum eins og alkorti og treikorti. Það er hliðarmynd við pástur í sömu merkingu og tökuorð úr dönsku paust 'sexa í spilum, páfi'.
Mynd: HB
