Sólin Sólin Rís 06:40 • sest 20:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:55 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:45 • Síðdegis: 17:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:40 • sest 20:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:55 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:45 • Síðdegis: 17:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er siðferðilegur grundvöllur fyrir aftöku sakamanna?

Salvör Nordal

Upphafleg spurning var á þessa leið: Hver er siðferðislegur grundvöllur fyrir aftöku sakamanna í ríkjum þar sem það er heimilt? Hvert er ferli þess háttar dóma í Bandaríkjunum? Hvað þarf til að slíkum dómi verði fullnægt?
Ein helstu rökin fyrir refsingum eru þau að sakamaðurinn eigi refsinguna skilið. Sú kenning sem byggir á þessum rökum er gjarnan kölluð gjaldastefna. Gjaldastefnan hefur ævinlega átt talsverðu fylgi að fagna, ekki síst þegar brotin eru alvarleg því að fjölmargir hafa átt erfitt með að sætta sig við þá tilhugsun að sakamönnum sé ekki refsað fyrir glæpi sína.

Eitt er að halda því fram að sakamaður eigi refsingu skilið en annað að ákvarða hve mikil hún eigi að vera. Einn talsmaður gjaldakenningarinnar, þýski heimspekingurinn Immanuel Kant, hélt því fram að við ákvörðun refsingar ætti að fara eftir þeirri reglu að gjalda líku líkt: Refsingin ætti ekki einvörðungu að vera í hlutfalli við afbrotið heldur af sama toga. Samkvæmt þessu ætti að lífláta þann sem hefði gerst sekur um morð. Þessi kenning kann að hljóma tiltölulega einföld í framkvæmd en þó er vert að hafa í huga að manndráp eru framin með ólíkum hætti og af ólíkum ástæðum. Þannig eru sum hrottafengin og kaldrifjuð, önnur framin í stundaræði og þannig mætti áfram telja og varla réttlátt að allir morðingjar hljóti sömu refsingu. Vandinn eykst augljóslega enn frekar þegar ákvarða skal refsingar fyrir aðra glæpi eins og nauðganir eða þjófnað.

Refsingar eru þó gjarnan réttlættar með öðrum hætti en gjaldastefnunni, nefnilega þeirri að refsingar séu víti til varnaðar og eigi mikilvægan þátt í að draga úr afbrotum. Fjölmargir fylgismenn dauðarefsinga halda því fram að harðar refsingar dragi úr afbrotum. Rannsóknir í Bandaríkjunum þar sem dauðarefsingar hafa verið við lýði sýna hins vegar að þær hafa ekki meiri fælingarmátt en aðrar refsingar, svo sem lífstíðar fangelsi. Samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið meðal almennings í Bandaríkjunum hefur einnig komið fram að meirihluti þeirra sem eru fylgjandi dauðarefsingum telst til gjaldastefnumanna sem telja að þeir sem hafi gerst sekir um alvarlegustu glæpi eigi dauðarefsinguna skilið óháð hugsanlegum fælingarmætti hennar.

Þrátt fyrir að dauðarefsingar hafi verið afnumdar í fjölmörgum ríkjum á síðustu áratugum hefur fylgi við þær farið vaxandi í Bandaríkjunum og hafa bæði fleiri verið dæmdir til dauða og fleiri teknir af lífi á síðustu árum en áratugina fyrir 1980. Sem dæmi má nefna að 98 fangar voru teknir af lífi árið 1999 í 20 ríkjum Bandaríkjanna, og þarf að fara allt aftur til ársins 1950 til að finna hærri líflátstölur.

Að mati flestra þeirra sem aðhyllast dauðarefsingar eru þær einungis réttlætanlegar fyrir alvarlegustu glæpi og dæmin undanfarin ár hafa sýnt að dauðadómar í Bandaríkjunum einskorðast við morð, sérstaklega ef þau eru hrottaleg. En hverjir eru það sem hljóta dauðadóm og eru teknir af lífi? Þegar þetta er skoðað kemur í ljós að það virðist býsna tilviljanakennt. Auk þess er slík refsing háð því hvar í Bandaríkjunum morðið er framið þar sem dauðarefsingum er aðeins beitt í sumum ríkjunum. Enda eru einungis örfáir þeirra sem fundnir eru sekir um morð teknir af lífi.

Fjölmargt annað en eðli morðanna virðist hafa úrslitaáhrif á það hvort sakamaður er dæmdur til dauða eða ekki. Þegar saksóknari fer fram á dauðadóm yfir sakborningi gera lög flestra ríkja í Bandaríkjunum, þar sem dauðadómur er við lýði, ráð fyrir tvöföldu réttarhaldi. Í fyrra réttarhaldinu er ákvarðað hvort viðkomandi er sekur eða saklaus, og ef hann er sekur fundinn þá fer fram annað réttarhald þar sem úrskurðað er um refsinguna. Í þessum réttarhöldum ræður miklu samsetning kviðdóms og afstaða einstaklinga innan hans til dauðadóma. Val á kviðdómi getur því verið tímafrekt í þessum málum.

Þegar ákveðið er hvort sækjast eigi eftir dauðadómi getur það haft mikil áhrif hvert fórnarlambið var. Mun sjaldgæfara er til dæmis að maður sé dæmdur til dauða fyrir morð á svörtum manni heldur en hvítum, og hafi fórnarlambið verið fyrirmyndarborgari aukast líkurnar á dauðadómi enn frekar. Rannsóknir í sumum ríkjum Bandaríkjanna hafa einnig leitt í ljós að meiri líkur eru á dauðadómi í dreifbýli en þéttbýli eða stórum borgum. Þá eru einnig minni líkur á dauðadómum á svæðum þar sem meirihluti íbúanna, og þá jafnframt þeirra sem koma til með að sitja í kviðdómi, eru svartir eða frá Suður-Ameríku. Efnahagur sakbornings getur einnig haft mikil áhrif á niðurstöðuna og í mörgum tilfellum hafa þeir sem hafa hlotið dauðadóm haft lélega verjendur. Þá er ónefndur þáttur fjölmiðla sem hafa í sumum málum haft mikil áhrif á það hvort einstaklingur hefur verið dæmdur til dauða eða ekki, ekki síst þegar málið blandast inn í stjórnmálabaráttu, en dauðarefsingar eru mikið hitamál í bandarískum stjórnmálum.

Eftir að dauðadómur hefur verið kveðinn upp getur liðið langur tími þar til honum er fullnægt. Þar sem hér er um hörðustu refsingu að ræða getur sakborningur áfrýjað málinu til nokkurra æðri stiga. Margir dauðadómar hafa þannig verið felldir úr gildi á æðri dómstigum. Einnig hafa menn verið náðaðir, ekki síst ef fundnir hafa verið formgallar á upphaflegu réttarhaldi. Þetta skýrir hve fáir hafa í raun verið teknir af lífi í Bandaríkjunum. Margir fylgismenn dauðarefsinga hafa gagnrýnt seinagang kerfisins og því hefur á síðustu árum verið reynt að draga úr möguleikum hins dæmda til að fá mál sitt endurupptekið. Aftökum hefur fjölgað í kjölfarið.

Af framansögðu er ljóst að tilviljanir og fordómar ráða miklu um það hverjir hljóta dauðadóm og láta síðan lífið vegna hans. Þyngstu rökin gegn dauðarefsingum eru þó eðli málsins samkvæmt þau að dauðarefsing er ekki aftur tekin og engin leið að rétta orðinn hlut eftir að dómi hefur verið fullnægt. Jafnvel sá sem telur réttlætinu ekki fullnægt fái sakamaður ekki hæfilega refsingu hlýtur að fallast á að enn meira óréttlæti hlýst af því að dæma saklausan mann til lífláts sem ekki verður aftur tekið.

Heimild:

Hugo Adam Bedau (ritstj.): The Death Penalty in America: Current Controversies, 1997.

Ýmsar upplýsingar um dauðarefsingar í Bandaríkjunum:

Capital Punishment eftir James Fieser úr The Internet Encyclopedia of Philosophy

Tölur frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu yfir aftökur og dauðadóma

Death Penalty Information Center

Tenglar á ýmsar síður um dauðarefsingar af Ethics Updates, Háskólanum í San Diego



Mynd: California Department of Corrections

Höfundur

Salvör Nordal

umboðsmaður barna og prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

5.8.2001

Spyrjandi

Ragnar Grönvold

Tilvísun

Salvör Nordal. „Hver er siðferðilegur grundvöllur fyrir aftöku sakamanna?“ Vísindavefurinn, 5. ágúst 2001, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1824.

Salvör Nordal. (2001, 5. ágúst). Hver er siðferðilegur grundvöllur fyrir aftöku sakamanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1824

Salvör Nordal. „Hver er siðferðilegur grundvöllur fyrir aftöku sakamanna?“ Vísindavefurinn. 5. ágú. 2001. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1824>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er siðferðilegur grundvöllur fyrir aftöku sakamanna?

Upphafleg spurning var á þessa leið: Hver er siðferðislegur grundvöllur fyrir aftöku sakamanna í ríkjum þar sem það er heimilt? Hvert er ferli þess háttar dóma í Bandaríkjunum? Hvað þarf til að slíkum dómi verði fullnægt?
Ein helstu rökin fyrir refsingum eru þau að sakamaðurinn eigi refsinguna skilið. Sú kenning sem byggir á þessum rökum er gjarnan kölluð gjaldastefna. Gjaldastefnan hefur ævinlega átt talsverðu fylgi að fagna, ekki síst þegar brotin eru alvarleg því að fjölmargir hafa átt erfitt með að sætta sig við þá tilhugsun að sakamönnum sé ekki refsað fyrir glæpi sína.

Eitt er að halda því fram að sakamaður eigi refsingu skilið en annað að ákvarða hve mikil hún eigi að vera. Einn talsmaður gjaldakenningarinnar, þýski heimspekingurinn Immanuel Kant, hélt því fram að við ákvörðun refsingar ætti að fara eftir þeirri reglu að gjalda líku líkt: Refsingin ætti ekki einvörðungu að vera í hlutfalli við afbrotið heldur af sama toga. Samkvæmt þessu ætti að lífláta þann sem hefði gerst sekur um morð. Þessi kenning kann að hljóma tiltölulega einföld í framkvæmd en þó er vert að hafa í huga að manndráp eru framin með ólíkum hætti og af ólíkum ástæðum. Þannig eru sum hrottafengin og kaldrifjuð, önnur framin í stundaræði og þannig mætti áfram telja og varla réttlátt að allir morðingjar hljóti sömu refsingu. Vandinn eykst augljóslega enn frekar þegar ákvarða skal refsingar fyrir aðra glæpi eins og nauðganir eða þjófnað.

Refsingar eru þó gjarnan réttlættar með öðrum hætti en gjaldastefnunni, nefnilega þeirri að refsingar séu víti til varnaðar og eigi mikilvægan þátt í að draga úr afbrotum. Fjölmargir fylgismenn dauðarefsinga halda því fram að harðar refsingar dragi úr afbrotum. Rannsóknir í Bandaríkjunum þar sem dauðarefsingar hafa verið við lýði sýna hins vegar að þær hafa ekki meiri fælingarmátt en aðrar refsingar, svo sem lífstíðar fangelsi. Samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið meðal almennings í Bandaríkjunum hefur einnig komið fram að meirihluti þeirra sem eru fylgjandi dauðarefsingum telst til gjaldastefnumanna sem telja að þeir sem hafi gerst sekir um alvarlegustu glæpi eigi dauðarefsinguna skilið óháð hugsanlegum fælingarmætti hennar.

Þrátt fyrir að dauðarefsingar hafi verið afnumdar í fjölmörgum ríkjum á síðustu áratugum hefur fylgi við þær farið vaxandi í Bandaríkjunum og hafa bæði fleiri verið dæmdir til dauða og fleiri teknir af lífi á síðustu árum en áratugina fyrir 1980. Sem dæmi má nefna að 98 fangar voru teknir af lífi árið 1999 í 20 ríkjum Bandaríkjanna, og þarf að fara allt aftur til ársins 1950 til að finna hærri líflátstölur.

Að mati flestra þeirra sem aðhyllast dauðarefsingar eru þær einungis réttlætanlegar fyrir alvarlegustu glæpi og dæmin undanfarin ár hafa sýnt að dauðadómar í Bandaríkjunum einskorðast við morð, sérstaklega ef þau eru hrottaleg. En hverjir eru það sem hljóta dauðadóm og eru teknir af lífi? Þegar þetta er skoðað kemur í ljós að það virðist býsna tilviljanakennt. Auk þess er slík refsing háð því hvar í Bandaríkjunum morðið er framið þar sem dauðarefsingum er aðeins beitt í sumum ríkjunum. Enda eru einungis örfáir þeirra sem fundnir eru sekir um morð teknir af lífi.

Fjölmargt annað en eðli morðanna virðist hafa úrslitaáhrif á það hvort sakamaður er dæmdur til dauða eða ekki. Þegar saksóknari fer fram á dauðadóm yfir sakborningi gera lög flestra ríkja í Bandaríkjunum, þar sem dauðadómur er við lýði, ráð fyrir tvöföldu réttarhaldi. Í fyrra réttarhaldinu er ákvarðað hvort viðkomandi er sekur eða saklaus, og ef hann er sekur fundinn þá fer fram annað réttarhald þar sem úrskurðað er um refsinguna. Í þessum réttarhöldum ræður miklu samsetning kviðdóms og afstaða einstaklinga innan hans til dauðadóma. Val á kviðdómi getur því verið tímafrekt í þessum málum.

Þegar ákveðið er hvort sækjast eigi eftir dauðadómi getur það haft mikil áhrif hvert fórnarlambið var. Mun sjaldgæfara er til dæmis að maður sé dæmdur til dauða fyrir morð á svörtum manni heldur en hvítum, og hafi fórnarlambið verið fyrirmyndarborgari aukast líkurnar á dauðadómi enn frekar. Rannsóknir í sumum ríkjum Bandaríkjanna hafa einnig leitt í ljós að meiri líkur eru á dauðadómi í dreifbýli en þéttbýli eða stórum borgum. Þá eru einnig minni líkur á dauðadómum á svæðum þar sem meirihluti íbúanna, og þá jafnframt þeirra sem koma til með að sitja í kviðdómi, eru svartir eða frá Suður-Ameríku. Efnahagur sakbornings getur einnig haft mikil áhrif á niðurstöðuna og í mörgum tilfellum hafa þeir sem hafa hlotið dauðadóm haft lélega verjendur. Þá er ónefndur þáttur fjölmiðla sem hafa í sumum málum haft mikil áhrif á það hvort einstaklingur hefur verið dæmdur til dauða eða ekki, ekki síst þegar málið blandast inn í stjórnmálabaráttu, en dauðarefsingar eru mikið hitamál í bandarískum stjórnmálum.

Eftir að dauðadómur hefur verið kveðinn upp getur liðið langur tími þar til honum er fullnægt. Þar sem hér er um hörðustu refsingu að ræða getur sakborningur áfrýjað málinu til nokkurra æðri stiga. Margir dauðadómar hafa þannig verið felldir úr gildi á æðri dómstigum. Einnig hafa menn verið náðaðir, ekki síst ef fundnir hafa verið formgallar á upphaflegu réttarhaldi. Þetta skýrir hve fáir hafa í raun verið teknir af lífi í Bandaríkjunum. Margir fylgismenn dauðarefsinga hafa gagnrýnt seinagang kerfisins og því hefur á síðustu árum verið reynt að draga úr möguleikum hins dæmda til að fá mál sitt endurupptekið. Aftökum hefur fjölgað í kjölfarið.

Af framansögðu er ljóst að tilviljanir og fordómar ráða miklu um það hverjir hljóta dauðadóm og láta síðan lífið vegna hans. Þyngstu rökin gegn dauðarefsingum eru þó eðli málsins samkvæmt þau að dauðarefsing er ekki aftur tekin og engin leið að rétta orðinn hlut eftir að dómi hefur verið fullnægt. Jafnvel sá sem telur réttlætinu ekki fullnægt fái sakamaður ekki hæfilega refsingu hlýtur að fallast á að enn meira óréttlæti hlýst af því að dæma saklausan mann til lífláts sem ekki verður aftur tekið.

Heimild:

Hugo Adam Bedau (ritstj.): The Death Penalty in America: Current Controversies, 1997.

Ýmsar upplýsingar um dauðarefsingar í Bandaríkjunum:

Capital Punishment eftir James Fieser úr The Internet Encyclopedia of Philosophy

Tölur frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu yfir aftökur og dauðadóma

Death Penalty Information Center

Tenglar á ýmsar síður um dauðarefsingar af Ethics Updates, Háskólanum í San Diego



Mynd: California Department of Corrections...