Eins og fram kemur í svari ÞV við spurningunni Hiti og kuldi hafa áhrif á frumefnin. En hvað eru hiti og kuldi? þá er kuldi eiginlega ekki sjálfstæður eiginleiki, heldur eingöngu skortur á hita. Því má líka segja að kuldi leiti í öfuga stefnu við hita. En eins og fram kemur hér á eftir er það ekki nákvæmlega rétt að varmi eða hiti leiti alltaf upp á við.
Þegar heitt loft leitar upp flyst kalt loft venjulega niður á við á móti, og sama gildir um kalt og heitt vatn. Þetta gerist vegna þess að heita straumefnið er léttara í sér, hefur minni eðlismassa, en það kalda. Fyrirbærið nefnist varmaburður og er ein af þremur tegundum varmaflutnings. Um þær er fjallað nánar í svari Tryggva Þorgeirssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvers vegna eru katlar, pottar og hitakönnur yfirleitt gljáandi að utan?
Þegar varmi leitar út um útvegg á húsi má vissulega segja að kuldi leiti inn á móti þó að með því sé í rauninni engu bætt við fyrri lýsinguna. En sú tegund varmaflutnings sem hér um ræðir nefnist varmaleiðing. Þriðja tegundin er svo varmageislun en með henni flyst varmi frá hlut sem er heitari en umhverfið og hann kólnar. Sjálfsagt má þá líka taka svo til orða að kuldi sé að flytjast til hlutarins.
Bæði í varmaleiðingu og varmageislun getur varmi flust frá einum hlut til annars og sá flutningur er þá frá heitari hlut til kaldari. Þá má segja að hiti flytjist til kaldari hluta og kuldi til heitari hluta.
Mynd: HB