Þetta svið taugafræðinnar er eftir því sem næst verður komist mjög illa þekkt og skortir talsverða vitneskju um þetta fyrirbæri. En samt verður hér gerð tilraun til að svara spurningunni eftir fremsta megni.
Við getum á engan hátt sett okkur í spor svo fjarskyldra lífvera sem fiska hvað varðar tilfinningar eins og sársauka. Þó hafa rannsóknir sem fela í sér samanburð á taugakerfi fiska og spendýra sýnt að það svæði mannsheilans sem vinnur úr sársauka á sér ekki hliðstæðu í fiskum. Það svæði heilans í fiskum sem miðlar boðum um viðbragð, til dæmis þegar fiskurinn festist við öngul, reynir að rífa sig lausan úr kjafti afræningja eða lendir í öðrum aðstæðum sem okkur er tamt að tengja við „sársauka”, er í afturhluta heilans en svæðið sem vinnur úr sársauka okkar er í framhluta heilans.
Vísindamenn sem hafa rannsakað fyrirbærið „sársauka” í hinum ýmsu hópum dýra álykta sem svo: Uppbygging þeirra hluta taugakerfisins sem hafa með úrvinnslu áreitis að gera er í meginatriðum ólík milli fiska og spendýra. Þess vegna hljóta fiskar að skynja sársauka á allt annan hátt en við mannfólkið, enda er æði langt síðan við greindumst frá fiskum í þróunarsögunni.
Í þessum orðum felst þó það að þeir fræðimenn sem hafa mesta þekkingu á þessu sviði telja að fiskar „finni til” á einhvern hátt, það er að segja að einhver örvun á sér stað í taugakerfi þeirra þegar þeir eru „pyntaðir” af rannsóknarmönnum eða verða fyrir hliðstæðu áreiti í náttúrunni. Tilfinnanlega skortir þó á þekkingu fræðimanna á þessu sviði eins og áður segir.
Mynd: HB