Ástæða þess að sjór og vindur munu ekki eyða Íslandi er sú að hér verður stöðug nýmyndun lands. Nýja landið er oft varanlegt ólíkt því sem gerist til dæmis í Surtsey en hún myndaðist í eldgosi fyrir tæpum 40 árum og verður sennilega horfin í hafið eftir 1-200 ár.
Þar til fyrir um 62 milljónum ára voru Bretlandseyjar og Grænland hluti af einu meginlandi. Síðan klofnaði meginlandið og Norður-Atlantshafið tók að myndast jafnframt því sem mikil eldgos urðu sem hlóðu basalti (blágrýti) ofan á meginlandsbrúnirnar sitt hvorum megin við hafið. Þær myndanir sjást nú í Skotlandi, Írlandi, Færeyjum og Austur-Grænlandi. Mest var eldvirknin þó á einum stað, þar sem nú er Ísland. Meðan Norður-Atlantshafið var mjórra en 3-400 km hefur verið landbrú milli Grænlands og Evrópu. En þegar hafið gleikkaði sukku þeir hlutar landbrúarinnar sem fjærstir voru kvikuuppsprettunni og Ísland varð að eyju.
Norður-Atlantshaf heldur enn áfram að gleikka og eldvirkni heldur áfram á Íslandi. Þannig gliðnar Ísland um 2 cm á ári í austur-vestur við það að ný skorpa myndast á rekbeltinu þvert yfir landið (einkum á beltinu frá Vestmannaeyjum norður í Axarfjörð) en að sama skapi eyðist af ströndinni, bæði vegna sjávarrofs og vegna þess að landið sekkur í sæ þegar skorpan dregst saman við kólnun. Þannig má ætla að Ísland hafi haldist nokkurn veginn jafnstórt í aldanna rás - myndun og eyðing landsins haldist í jafnvægi - og að svo muni verða meðan möttulstrókurinn undir landinu er virkur.
Um þetta efni má lesa frekar í grein eftir undirritaðan í Náttúrufræðingnum (57. árg., bls. 81-95, 1987) „Hraði landmyndunar og landeyðingar".
Mynd: Náttúruhamfarir og mannlíf