
Mælifell mun vera svokallaður líparítgúll, myndaður í eldgosi seint á ísöld. Bergkvikan var svo seig að hún hlóðst upp yfir gosopinu en rann ekki í burtu sem hraun. Mælifell er samsett úr tveimur kvikugerðum, ljósari og dekkri. Ljósari gerðin myndar meginhluta fjallsins, og í henni eru flygsur af hinni dekkri, en dökka gerðin myndar eins konar gígfyllingu í hvirfli fjallsins. Greinilegt er að Mælifell „situr ofan á gömlu landslagi", því að berggrunnurinn undir því er miklu eldri og rofinn af jöklum. Hefði fjallið hins vegar myndast eftir ísöld hefði efni úr því vafalaust dreifst yfir umhverfið, auk þess sem sjá má að fjallið er ekki ósnortið af jöklum.
Mynd: Úr jarðfræðiverkefni eftir nemendur við Fjölbrautaskóla Vesturlands.