Sólin Sólin Rís 05:33 • sest 21:22 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:14 • Sest 05:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:35 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:26 • Síðdegis: 23:41 í Reykjavík

Er nauðsynlegt að við varðveitum tungumál okkar eða er þetta óþörf fornaldardýrkun?

Kristján Árnason bókmenntafræðingur

Spurningunni, eins og hún er orðuð, hvort það sé nauðsynlegt fyrir okkur íbúa þessa lands að tala íslensku eður ei, ætti í sjálfu sér að vera auðsvarað og það neitandi. Strangt tekið er það ekki samkvæmt neinu náttúrulögmáli heldur af sögulegum ástæðum og tilviljunum að við höfum talað þetta tungumál í hartnær tólf aldir. Það ætti því að vera undir okkur sjálfum komið, ef við tækjum upp á því einn góðan veðurdag að leggja þessa tungu niður með viðhöfn á Þingvöllum við Öxará og taka upp aðra og æskilegri í staðinn. Trúlega mundi þó slíkt uppátæki þykja nokkrum tíðindum sæta og jafnvel endemum um heimsbyggðina, og einkum vekja furðu meðal þjóða sem aðþrengdar verja þjóðerni sitt og sérkenni til hinsta blóðdropa, sem og þeirra er leita nú logandi ljósi að rótum sínum í fortíðinni.

Að leggja niður tunguna fæli í sér að höggva á þá taug er tengir okkur við fyrri kynslóðir í landinu og jafngilti því í raun að þjóðin legði sjálfa sig niður sem slíka, því að tungumálið hlýtur að teljast meginþáttur þess sem við nefnum þjóðerni. Það væri því að minnsta kosti ómaksins vert og við hæfi, áður en í slíkt yrði ráðist, að leggjast undir feld að fornum sið og reyna að gera okkur grein fyrir því hvað sé svo bogið við okkar forna móðurmál að það sé ekki á vetur setjandi. Jafnvel þó að við fyndum málinu ekkert til foráttu, yrðu slík heilabrot gagnleg, því að það gildir sama um tunguna og til að mynda trúna eða hjónabandið að henni er enginn greiði gerður með því að við höldum í hana í lengstu lög, ef það er gert í hugsunarleysi og ástríðuleysi og eingöngu af gömlum vana.

Það myndi trúlega nokkrum tíðindum sækja ef Íslendingar tækju upp á því einn góðan veðurdag að leggja tungumál sitt niður með viðhöfn á Þringvöllum við Öxará og taka annað upp.

Er íslenskan orðin úrelt?

Í upprunalegu spurningunni er reyndar ekki gefin nein ástæða fyrir þessu hugsanlega afnámi íslenskrar tungu önnur en sú kannski að tryggð við hana sé „fornaldardýrkun”. Með því er gefið í skyn að tungan megi teljast úrelt ef ekki beinlínis aflóga í síbreytilegum heimi þar sem allt snýst um að dragast ekki aftur úr í framfarakapphlaupi heldur „nútímavæðast” eins og það heitir, og þá kynni „fornmálið” stirða og flókna að vera betur til þess fallið að yrkja á því dýrt kveðin dróttkvæði en að tjá sig með hraði í tölvupósti. Um leið er og léttvægt fundið það sem við höfum fram til þessa talið tungunni til ágætis og gumað af út á við, sem sé það að tunga okkar hafi haldist lítið breytt um aldaraðir og að við eigum fyrir vikið greiðari leið að fornum menningarheimi og bókmenntaarfi en aðrar þjóðir.

Íslenskan ber þess vissulega merki að hún hefur mótast við aðstæður sem verða að teljast ónútímalegar eða með öðrum orðum frumstæðar og náttúrlegar. Fyrir vikið hefur styrkur hennar löngum verið talinn meiri á sviði hins áþreifanlega og sýnilega veruleika en hins huglæga, fræðilega og tilfinningalega sem hún nálgast fremur á óbeinan og skáldlegan hátt í líkingum og lifandi myndum en með óhlutstæðum hugtökum. Engu að síður kemur einmitt upprunaleiki íslenskunnar og náttúrleiki henni til góða og ljær henni sköpunarmátt og vopn í hendur til að hafa í fullu tré við framþróun vísinda og tækni með stöðugri smíð nýyrða úr gömlum stofnum. Þau hafa þann kost að vera í senn ólíkt gagnsærri, lífrænni og þjálli en hinar steingerðu grísk-latnesku samsetningar sem mynda fræði- og tækniheiti á öðrum málum. Þannig þarf það ekki að vera út í hött sem skáldið kvað að orð sé „á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu”.

Hreintungustefna, nýyrði og tökuorð

Sú hreintungustefna sem hér hefur ráðið ríkjum allt frá dögum Fjölnismanna hefur því ekki verið landanum neinn dragbítur að þessu leyti, þó að vissulega sé hætt við því að tungan verði í einsleitara lagi eða jafnvel heimóttarleg, ef úthýsa skal úr henni öllum orðstofnum öðrum en þeim sem talist geta forngermanskir. Svo vel vill þó til að frá alda öðli hefur það tíðkast hér að fella framandleg orð inn í íslenskuna með þeim hætti sem gert var á sínum tíma við nær öll orð sem snerta kristnihald og eru komin úr grísku og latínu, allt frá kirkju og messu til biskups, prests og djákna en falla prýðilega inn í málið og beygingakerfi þess og gefa því auk þess lit. Jafnframt hafa alþjóðleg orð oftar en ekki þrifist við hlið hinna þjóðlegri, svo sem pólitík, músík, sport, bíll og bíó og það getur verið hressandi að grípa til þeirra í stað hinna rammíslensku sem eru oft hátíðlegri og þunglamalegri.

Þetta eykur á blæbrigði málsins, en öllu hvimleiðari er hins vegar sú árátta margra landa okkar að slá um sig með útlenskuslettum í tíma og ótíma, hvort sem það er gert til að hylja fákunnáttu sína í móðurmálinu eða til að flíka yfirborðskunnáttu sinni í útlenskunni, með því að segja um hluti að þeir séu spúkí, kósí, kjúd, næs, júník, in eða bara ókei.

Þó keyrir um þverbak þegar lætt er inn í málið á ísmeygilegan hátt erlendri orðanotkun, orðatiltækjum og talsháttum sem kunna að hljóma sem íslenska en eru það ekki fyrir fimmaura, svo sem þegar talað er um að eitthvað selji og jafnvel toppi innkomuna eða að höfuðstaður Íslands sé heitasta borgin í víðri veröld.

Hér koma upp í hugann orð Klettafjallaskáldsins að „Greiðasta skeið til að skrílmenna þjóð er skemmdir á tungunni að vinna”, en höfundur þeirra hafði allt sitt á hreinu í þeim efnum, þótt hann byggi í Vesturheimi og beitti tveim tungumálum, enda vissi hann hvað tilheyrði hvoru um sig og hvað ekki. En það má spyrja hvort ekki væri betra að leggja niður íslenskuna áður en að hún verður líkt og maðksmogin af öllum þeim málleysum sem ryðja sér braut inn í hana í vaxandi mæli.

Smæð málsamfélagsins

En þegar allt kemur til alls er það ekki aldur og fornleiki tungunnar sem er mönnum einkum þyrnir í augum heldur það hve hún er töluð af fám og óskiljanleg flestum, og er þar skemmst að minnast júró-söngvakappanna sem töldu tungu Egils og Snorra myndi verða sér að fótakefli á leið til heimsfrægðarinnar. Að vísu kann sumum að finnast það góð tilhugsun að eiga sér tungumál fyrir sig sem hægara er að leggja rækt við og vernda fyrir hnjaski og spjöllum en heimstungur sem eru berskjaldaðri fyrir slíku. Hins vegar munu aðrir sem vilja láta ljós sitt skína og vera séðir og heyrðir sem víðast una því illa að vera settir undir mæliker útkjálkamáls sem stendur í vegi fyrir því að boðskapur þeirra nái til heimsbyggðarinnar beinustu leið.

Það vill reyndar svo til að þegar hafa komið fram tillögur um að leggja niður íslenskuna á svipuðum forsendum og þessum, og það í fúlustu alvöru, nánar tiltekið í álitsgerð eftir Bjarna nokkurn Jónsson skólameistara frá síðari hluta átjándu aldar, er konungseinveldið danska var upp á sitt besta. Þar styður hann mál sitt með því að sú tíð sé liðin er íslensk skáld gátu gengið keik fyrir konungmenn jafnt í Niðarósi austur sem í Jórvík vestur og flutt þeim á sínu máli dýrt kveðnar drápur er áheyrendur gátu þó meðtekið og talið hið besta ortar. Og Bjarni bendir á að nú hafi þetta snúist við og að íslenskan njóti ekki lengur virðingar í Danaveldi, þar sem hún sé öllum óskiljanleg, og Íslendingar verði því, til að geta látið til sín taka og notið virðingar meðal annarra þegna konungsríkisins, að semja sig sem mest að siðum hinna og taka upp danska tungu.

Hve vel sem þetta kann að hljóma voru tillögur Bjarna ekki teknar mjög alvarlega og þeim ekki mikill gaumur gefinn. Hitt er svo annað mál og lítið við það að athuga að íslenskir höfundar í upphafi síðustu aldar hafi kosið að hasla sér völl í Danaveldi með skrifum á danskri tungu til að ná til stærri lesendahóps, og sama má segja um það að ýmsir sem sækjast eftir frama á þröngu fræðasviði nú á dögum bregði þar fyrir sig einskonar vísindaensku, líkt og forfeðurnir latínu, enda má búast við að þeir haldi slíku tungutaki aðskildu frá því sem þeir nota til daglegs brúks og við hundinn sinn.

Á það má raunar benda sem einn kostinn við að tala fáskilið mál að það knýr okkur til að líta í allar áttir og tileinka okkur önnur tungumál til að geta staðið á eigin fótum í veröldinni, þar sem stórþjóðum hættir aftur á móti oft til að vera sljóar fyrir tungu og menningu hinna smærri og því sjálfhverfari og þröngsýnni fyrir bragðið. Allt frá tímum sjálfstæðisbaráttunnar hafa Íslendingar lagt kapp á að læra mál sem flestra þjóða, og má í því sambandi minna á Einar Ásmundsson bónda í Nesi í Höfðahverfi á nítjándu öld sem lagði út í nám í dönsku, ensku, frönsku, þýsku og rússnesku til að verða læs á þessar tungur.

Hnattþorpið og nýlendur markaðarins

Á þessum tíma virtist vera nokkuð vítt til veggja í veröldinni, en nú bregður svo einkennilega við á síðustu tímum að það er eins og þessi sama veröld hafi verið að skreppa saman í það sem nú er nefnt „hnattþorpið” þar sem fjölbreytni og víðsýni virðast eiga undir högg að sækja, þannig að menn einblína æ meir á eina tungu (sem vart þarf að nefna) líkt og fyrir daga Babelsturnsins og temja sér sömu lífshætti sem allir eiga að fylgja hvar sem er, ef þeir eiga að vera gjaldgengir og í hópi þeirra sem betur mega í þorpinu.

Hér er sem við séum að færast aftur inn í nýtt nýlenduskeið og nýtt lénsskipulag, eftir að grafið hefur verið undan þjóðríkjum og völdin færð í hendur „fjölþjóðlegra” fjármagnseigenda og þá verður ástandið að sumu leyti svipað og á tímum einveldisins danska, þá er Bjarni skólameistari taldi ástæðu til að leggja niður íslenskuna, svo að landar hans féllu betur í sama mót og aðrir. Munurinn er sá að í sess Hans Hátignar einvaldsins hefur andlitslaust fjármagnið hlammað sér, og spurningin er því síður um hylli eða virðingu en hagkvæmni og hagræðingu (eins og það er kallað) og kannski að það verði á endanum hinn margumræddi, marglofaði og alvísi „Markaður” sem á lokasvarið við þeirri spurningu sem hér var lögð fram í upphafi um nauðsyn þess að tala íslensku. Hann mun eflaust svara henni neitandi og bæta því við að það sé hins vegar bráðnauðsynlegt og þjóðhagslega hagkvæmt að leggja niður smærri þjóðir á sama hátt og smærri fyrirtæki.

Sjá einnig svör Guðrúnar Kvaran við spurningunum

Hvaða tungumál er mest talað í heiminum í dag?

Hvernig búum við til ný orð?

Hvert er það tungumál í heimi sem fæstir tala?

Hvers vegna er ekki bara eitt tungumál í heiminum?

Mynd:

Höfundur

dósent í almennri bókmenntafræði við HÍ

Útgáfudagur

7.9.2001

Spyrjandi

Elsa Hlín Einarsdóttir, f. 1983

Tilvísun

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. „Er nauðsynlegt að við varðveitum tungumál okkar eða er þetta óþörf fornaldardýrkun? “ Vísindavefurinn, 7. september 2001. Sótt 21. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1864.

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. (2001, 7. september). Er nauðsynlegt að við varðveitum tungumál okkar eða er þetta óþörf fornaldardýrkun? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1864

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. „Er nauðsynlegt að við varðveitum tungumál okkar eða er þetta óþörf fornaldardýrkun? “ Vísindavefurinn. 7. sep. 2001. Vefsíða. 21. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1864>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er nauðsynlegt að við varðveitum tungumál okkar eða er þetta óþörf fornaldardýrkun?
Spurningunni, eins og hún er orðuð, hvort það sé nauðsynlegt fyrir okkur íbúa þessa lands að tala íslensku eður ei, ætti í sjálfu sér að vera auðsvarað og það neitandi. Strangt tekið er það ekki samkvæmt neinu náttúrulögmáli heldur af sögulegum ástæðum og tilviljunum að við höfum talað þetta tungumál í hartnær tólf aldir. Það ætti því að vera undir okkur sjálfum komið, ef við tækjum upp á því einn góðan veðurdag að leggja þessa tungu niður með viðhöfn á Þingvöllum við Öxará og taka upp aðra og æskilegri í staðinn. Trúlega mundi þó slíkt uppátæki þykja nokkrum tíðindum sæta og jafnvel endemum um heimsbyggðina, og einkum vekja furðu meðal þjóða sem aðþrengdar verja þjóðerni sitt og sérkenni til hinsta blóðdropa, sem og þeirra er leita nú logandi ljósi að rótum sínum í fortíðinni.

Að leggja niður tunguna fæli í sér að höggva á þá taug er tengir okkur við fyrri kynslóðir í landinu og jafngilti því í raun að þjóðin legði sjálfa sig niður sem slíka, því að tungumálið hlýtur að teljast meginþáttur þess sem við nefnum þjóðerni. Það væri því að minnsta kosti ómaksins vert og við hæfi, áður en í slíkt yrði ráðist, að leggjast undir feld að fornum sið og reyna að gera okkur grein fyrir því hvað sé svo bogið við okkar forna móðurmál að það sé ekki á vetur setjandi. Jafnvel þó að við fyndum málinu ekkert til foráttu, yrðu slík heilabrot gagnleg, því að það gildir sama um tunguna og til að mynda trúna eða hjónabandið að henni er enginn greiði gerður með því að við höldum í hana í lengstu lög, ef það er gert í hugsunarleysi og ástríðuleysi og eingöngu af gömlum vana.

Það myndi trúlega nokkrum tíðindum sækja ef Íslendingar tækju upp á því einn góðan veðurdag að leggja tungumál sitt niður með viðhöfn á Þringvöllum við Öxará og taka annað upp.

Er íslenskan orðin úrelt?

Í upprunalegu spurningunni er reyndar ekki gefin nein ástæða fyrir þessu hugsanlega afnámi íslenskrar tungu önnur en sú kannski að tryggð við hana sé „fornaldardýrkun”. Með því er gefið í skyn að tungan megi teljast úrelt ef ekki beinlínis aflóga í síbreytilegum heimi þar sem allt snýst um að dragast ekki aftur úr í framfarakapphlaupi heldur „nútímavæðast” eins og það heitir, og þá kynni „fornmálið” stirða og flókna að vera betur til þess fallið að yrkja á því dýrt kveðin dróttkvæði en að tjá sig með hraði í tölvupósti. Um leið er og léttvægt fundið það sem við höfum fram til þessa talið tungunni til ágætis og gumað af út á við, sem sé það að tunga okkar hafi haldist lítið breytt um aldaraðir og að við eigum fyrir vikið greiðari leið að fornum menningarheimi og bókmenntaarfi en aðrar þjóðir.

Íslenskan ber þess vissulega merki að hún hefur mótast við aðstæður sem verða að teljast ónútímalegar eða með öðrum orðum frumstæðar og náttúrlegar. Fyrir vikið hefur styrkur hennar löngum verið talinn meiri á sviði hins áþreifanlega og sýnilega veruleika en hins huglæga, fræðilega og tilfinningalega sem hún nálgast fremur á óbeinan og skáldlegan hátt í líkingum og lifandi myndum en með óhlutstæðum hugtökum. Engu að síður kemur einmitt upprunaleiki íslenskunnar og náttúrleiki henni til góða og ljær henni sköpunarmátt og vopn í hendur til að hafa í fullu tré við framþróun vísinda og tækni með stöðugri smíð nýyrða úr gömlum stofnum. Þau hafa þann kost að vera í senn ólíkt gagnsærri, lífrænni og þjálli en hinar steingerðu grísk-latnesku samsetningar sem mynda fræði- og tækniheiti á öðrum málum. Þannig þarf það ekki að vera út í hött sem skáldið kvað að orð sé „á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu”.

Hreintungustefna, nýyrði og tökuorð

Sú hreintungustefna sem hér hefur ráðið ríkjum allt frá dögum Fjölnismanna hefur því ekki verið landanum neinn dragbítur að þessu leyti, þó að vissulega sé hætt við því að tungan verði í einsleitara lagi eða jafnvel heimóttarleg, ef úthýsa skal úr henni öllum orðstofnum öðrum en þeim sem talist geta forngermanskir. Svo vel vill þó til að frá alda öðli hefur það tíðkast hér að fella framandleg orð inn í íslenskuna með þeim hætti sem gert var á sínum tíma við nær öll orð sem snerta kristnihald og eru komin úr grísku og latínu, allt frá kirkju og messu til biskups, prests og djákna en falla prýðilega inn í málið og beygingakerfi þess og gefa því auk þess lit. Jafnframt hafa alþjóðleg orð oftar en ekki þrifist við hlið hinna þjóðlegri, svo sem pólitík, músík, sport, bíll og bíó og það getur verið hressandi að grípa til þeirra í stað hinna rammíslensku sem eru oft hátíðlegri og þunglamalegri.

Þetta eykur á blæbrigði málsins, en öllu hvimleiðari er hins vegar sú árátta margra landa okkar að slá um sig með útlenskuslettum í tíma og ótíma, hvort sem það er gert til að hylja fákunnáttu sína í móðurmálinu eða til að flíka yfirborðskunnáttu sinni í útlenskunni, með því að segja um hluti að þeir séu spúkí, kósí, kjúd, næs, júník, in eða bara ókei.

Þó keyrir um þverbak þegar lætt er inn í málið á ísmeygilegan hátt erlendri orðanotkun, orðatiltækjum og talsháttum sem kunna að hljóma sem íslenska en eru það ekki fyrir fimmaura, svo sem þegar talað er um að eitthvað selji og jafnvel toppi innkomuna eða að höfuðstaður Íslands sé heitasta borgin í víðri veröld.

Hér koma upp í hugann orð Klettafjallaskáldsins að „Greiðasta skeið til að skrílmenna þjóð er skemmdir á tungunni að vinna”, en höfundur þeirra hafði allt sitt á hreinu í þeim efnum, þótt hann byggi í Vesturheimi og beitti tveim tungumálum, enda vissi hann hvað tilheyrði hvoru um sig og hvað ekki. En það má spyrja hvort ekki væri betra að leggja niður íslenskuna áður en að hún verður líkt og maðksmogin af öllum þeim málleysum sem ryðja sér braut inn í hana í vaxandi mæli.

Smæð málsamfélagsins

En þegar allt kemur til alls er það ekki aldur og fornleiki tungunnar sem er mönnum einkum þyrnir í augum heldur það hve hún er töluð af fám og óskiljanleg flestum, og er þar skemmst að minnast júró-söngvakappanna sem töldu tungu Egils og Snorra myndi verða sér að fótakefli á leið til heimsfrægðarinnar. Að vísu kann sumum að finnast það góð tilhugsun að eiga sér tungumál fyrir sig sem hægara er að leggja rækt við og vernda fyrir hnjaski og spjöllum en heimstungur sem eru berskjaldaðri fyrir slíku. Hins vegar munu aðrir sem vilja láta ljós sitt skína og vera séðir og heyrðir sem víðast una því illa að vera settir undir mæliker útkjálkamáls sem stendur í vegi fyrir því að boðskapur þeirra nái til heimsbyggðarinnar beinustu leið.

Það vill reyndar svo til að þegar hafa komið fram tillögur um að leggja niður íslenskuna á svipuðum forsendum og þessum, og það í fúlustu alvöru, nánar tiltekið í álitsgerð eftir Bjarna nokkurn Jónsson skólameistara frá síðari hluta átjándu aldar, er konungseinveldið danska var upp á sitt besta. Þar styður hann mál sitt með því að sú tíð sé liðin er íslensk skáld gátu gengið keik fyrir konungmenn jafnt í Niðarósi austur sem í Jórvík vestur og flutt þeim á sínu máli dýrt kveðnar drápur er áheyrendur gátu þó meðtekið og talið hið besta ortar. Og Bjarni bendir á að nú hafi þetta snúist við og að íslenskan njóti ekki lengur virðingar í Danaveldi, þar sem hún sé öllum óskiljanleg, og Íslendingar verði því, til að geta látið til sín taka og notið virðingar meðal annarra þegna konungsríkisins, að semja sig sem mest að siðum hinna og taka upp danska tungu.

Hve vel sem þetta kann að hljóma voru tillögur Bjarna ekki teknar mjög alvarlega og þeim ekki mikill gaumur gefinn. Hitt er svo annað mál og lítið við það að athuga að íslenskir höfundar í upphafi síðustu aldar hafi kosið að hasla sér völl í Danaveldi með skrifum á danskri tungu til að ná til stærri lesendahóps, og sama má segja um það að ýmsir sem sækjast eftir frama á þröngu fræðasviði nú á dögum bregði þar fyrir sig einskonar vísindaensku, líkt og forfeðurnir latínu, enda má búast við að þeir haldi slíku tungutaki aðskildu frá því sem þeir nota til daglegs brúks og við hundinn sinn.

Á það má raunar benda sem einn kostinn við að tala fáskilið mál að það knýr okkur til að líta í allar áttir og tileinka okkur önnur tungumál til að geta staðið á eigin fótum í veröldinni, þar sem stórþjóðum hættir aftur á móti oft til að vera sljóar fyrir tungu og menningu hinna smærri og því sjálfhverfari og þröngsýnni fyrir bragðið. Allt frá tímum sjálfstæðisbaráttunnar hafa Íslendingar lagt kapp á að læra mál sem flestra þjóða, og má í því sambandi minna á Einar Ásmundsson bónda í Nesi í Höfðahverfi á nítjándu öld sem lagði út í nám í dönsku, ensku, frönsku, þýsku og rússnesku til að verða læs á þessar tungur.

Hnattþorpið og nýlendur markaðarins

Á þessum tíma virtist vera nokkuð vítt til veggja í veröldinni, en nú bregður svo einkennilega við á síðustu tímum að það er eins og þessi sama veröld hafi verið að skreppa saman í það sem nú er nefnt „hnattþorpið” þar sem fjölbreytni og víðsýni virðast eiga undir högg að sækja, þannig að menn einblína æ meir á eina tungu (sem vart þarf að nefna) líkt og fyrir daga Babelsturnsins og temja sér sömu lífshætti sem allir eiga að fylgja hvar sem er, ef þeir eiga að vera gjaldgengir og í hópi þeirra sem betur mega í þorpinu.

Hér er sem við séum að færast aftur inn í nýtt nýlenduskeið og nýtt lénsskipulag, eftir að grafið hefur verið undan þjóðríkjum og völdin færð í hendur „fjölþjóðlegra” fjármagnseigenda og þá verður ástandið að sumu leyti svipað og á tímum einveldisins danska, þá er Bjarni skólameistari taldi ástæðu til að leggja niður íslenskuna, svo að landar hans féllu betur í sama mót og aðrir. Munurinn er sá að í sess Hans Hátignar einvaldsins hefur andlitslaust fjármagnið hlammað sér, og spurningin er því síður um hylli eða virðingu en hagkvæmni og hagræðingu (eins og það er kallað) og kannski að það verði á endanum hinn margumræddi, marglofaði og alvísi „Markaður” sem á lokasvarið við þeirri spurningu sem hér var lögð fram í upphafi um nauðsyn þess að tala íslensku. Hann mun eflaust svara henni neitandi og bæta því við að það sé hins vegar bráðnauðsynlegt og þjóðhagslega hagkvæmt að leggja niður smærri þjóðir á sama hátt og smærri fyrirtæki.

Sjá einnig svör Guðrúnar Kvaran við spurningunum

Hvaða tungumál er mest talað í heiminum í dag?

Hvernig búum við til ný orð?

Hvert er það tungumál í heimi sem fæstir tala?

Hvers vegna er ekki bara eitt tungumál í heiminum?

Mynd:...