Sagan um franskan uppruna orðsins peysa er skemmtileg. Sagt er að franskir sjómenn hafi bent og kallað, þegar þeir sáu íslenska bændur: „paysan, paysan“, sem þýðir „bóndi, bóndi“. Íslendingar hafi misskilið orðið, haldið að verið væri að benda á prjónapeysurnar þeirra og farið að kalla flíkurnar peysur.
Þótt sagan sé góð er uppruni orðsins tæpast talinn franskur. Orðið er til í íslensku að minnsta kosti frá því á 16. öld í merkingunni „prjónuð bolflík við peysuföt“ og einnig í merkingunni „skinnkyrtill“ en hún er nú ekki lengur notuð. Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar (1989:705) segir að óvíst sé hvort stofnhljóðið sé -ei- eða -ey- og að engin samsvörun sé til í grannmálunum. Hann telur því líklegast að orðið sé tökuorð og stytting úr miðlágþýsku eða miðhollensku og bendir á hollenska orðið wambuis og styttinguna buis sem merki „bolflík“ en það er einmitt síðari liðurinn sem gæti tengst peysunni.
Hollenska orðið á rætur að rekja til miðaldalatínu wambasium „kviðflík höfð undir brynju“ en það er aftur sótt til miðaldagrísku bámbax „bómull“. Íslendingar höfðu talsverð viðskipti við Hollendinga og þýska Hansakaupmenn svo ekki er ólíklegt að orðið hafi borist þá leiðina.
Mynd: HB
