Orðin í dönsku og ensku sem vísað er til í spurningunni eru birthday og fødselsdag og í þýsku er notað orðið Geburtstag. Í íslensku er til samsvarandi orð sem er fæðingardagur en fyrri liðurinn í öllum þremur orðunum (birth, fødsel, Geburt) merkir einmitt „fæðing“. Orðið fæðingardagur kemur fyrir þegar í fornu mál og hefur lifað góðu lífi allt til þessa dags.
Þegar spurt er um fæðingardag á íslensku er átt við mánaðardaginn þegar viðkomandi fæddist. Orðið afmæli er mun yngra. Það virðist koma fram snemma á 18. öld. Halldór Halldórsson skrifaði um orðið afmæli og birti í ritinu Örlög orðanna (1958:121-123).
Halldór telur frummerkingu orðsins vera „afmældur tími“ en síðar sé farið að nota það um daginn þegar afmörkunin fer fram. Þetta styður hann meðal annars með dæmi úr orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 18. öld. Skýringar þar eru á latínu en við afmæli stendur (í þýðingu Halldórs): tími, sem við teljumst frá, en í rauninni fæðingarár reiknað frá einum fæðingardegi til annars.Jón segir einnig:
tiltekinn tími, sem eitthvað er mælt frá, er notað um fæðingartíma, þegar hann ber upp á einhvern tiltekinn dag og mánuð í árinu eða er haldinn hátíðlegursem sýnir að hann hefur þekkt afmæli í þeirri merkingu sem nú er notuð.
Mynd: HB
