Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrsta tilraun til að gera Íslendingum stafróf var gerð um miðja 12. öld. Hún birtist í ritgerð sem nefndist Fyrsta málfræðiritgerðin, var eftir nafnlausan höfund og er varðveitt í einu handriti Snorra-Eddu. Hann setti sér það markmið að koma reglu á íslenska stafsetningu og notast við sem fæsta bókstafi. Honum þótti til dæmis óþarfi að nota allt latneska stafrófið og hafnaði hann því stöfunum x og z. Þeir stæðu báðir fyrir tvö hljóð og mætti í staðinn skrifa cs og ds. Fáir ritarar munu hafa farið eftir leiðbeiningunum í Fyrstu málfræðiritgerðinni og stafirnir x og z bárust því í íslenskt stafróf þegar í öndverðu.
Í fornu máli var stafurinn z talsvert notaður. Stafirnir t, d, og stundum ð féllu til dæmis snemma saman á undan s og hafa líklegast verið bornir fram ts en skrifaðir z, til dæmis broz sem bæði getur staðið fyrir brots og brodds.
Einnig var z algeng í miðmyndarendingum sagna þegar á 13. öld (við köllumz). Á 14. öld komu upp miðmyndarendingarnar -zt og -zst en á 15. öld varð -zt næstum einráð ending (við köllumzt). Á 14. öld varð z einnig algeng í efsta stigi lýsingarorða, það er að segja að menn rituðu -az fyrir -ast í orðum eins og fallegast .
Skiptar skoðanir eru um hvenær z missti sjálfstætt hljóðgildi og fékk framburðinn s en margt í handritum bendir til að það hafi ekki verið fyrr en á 16. öld.
Það var því löng hefð fyrir bókstafnum z þegar farið var að semja stafsetningarreglur í tengslum við aukna móðurmálskennslu í skólum. Í Íslenzkum rjettritunarreglum eftir Halldór Kr. Friðriksson frá 1859 (bls. 183) eru settar fram reglur um notkun z sem eru nánast hinar sömu og giltu allt fram til ársins 1974. Skrifa átti t.d. z þar sem saman lentu tannhljóð (t, d, ð) og s, til dæmis þið elskizt (elskið+st), þið hafið elskazt (elskað+st), þú veizt (veit+st), við höfum hitzt (hitt+st). Í efsta stigi lýsingarorða eins og beztur, elztur, helztur var einnig skrifuð z þar sem t og d voru í stofni á undan s (bet+stur, eld+stur, held+stur). Í orðinu hanzki var rituð z þar sem d fór í stofni á undan s (hand+ski) o.s.frv.
Mörgum þótti erfitt að læra eða kenna þessar reglur og þar kom að z var felld brott í stafsetningu 1974 annars staðar en í mannanöfnum þar sem hefð var fyrir notkun hennar, til dæmis Zophonías.
Sjá svar sama höfundar við spurningunni: Nú orðið er stafurinn y ekki borinn fram 'uj' eins og forðum. Hví ekki að taka hann úr íslensku eins og með z í denn?
Guðrún Kvaran. „Hvers vegna var bókstafurinn z svona mikið notaður á Íslandi en því svo hætt?“ Vísindavefurinn, 7. mars 2000, sótt 4. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=192.
Guðrún Kvaran. (2000, 7. mars). Hvers vegna var bókstafurinn z svona mikið notaður á Íslandi en því svo hætt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=192
Guðrún Kvaran. „Hvers vegna var bókstafurinn z svona mikið notaður á Íslandi en því svo hætt?“ Vísindavefurinn. 7. mar. 2000. Vefsíða. 4. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=192>.