Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:33 • Sest 01:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:46 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:46 í Reykjavík

Eru ekki miklar líkur á 3. heimstyrjöldinni ef flest stríð hafa verið vegna trúarbragða og meiri hluti heimsins er trúaður?

Jón Ormur HalldórssonSpyrjandi gefur sér að flest stríð heimsins hafi verið vegna trúarbragða. Þetta er að líkindum ekki rétt. Trúarbrögð hafa alla tíð blandast með ýmsum hætti í stríðsátök en rætur stríðsátaka má oftast finna í ýmis konar hagsmunatogstreitu frekar en í ólíku viðhorfi til almættisins. Trúarbrögð eru hins vegar oft ríkur þáttur í sjálfsmynd hópa sem skynja hagsmuni sína á skjön við aðra hópa eða á skjön við alla sem ekki tilheyra hópnum. Trúarbrögðin eru þó öllu sjaldnar beinlínis ástæðan fyrir því að tilteknir hópar myndast eða að þeir leggja sérstakan skilning í hagsmuni sína.

Spyrjandi nefnir sérstaklega hættu á þriðju heimstyrjöldinni. Hvorki fyrri heimstyrjöldin né sú síðari áttu mikilvægar rætur í átökum milli trúarbragða. Og aðrar af stærstu styrjöldum síðustu aldar, svo sem stríðið í Víetnam, stríðið í Kambódíu, Kóreustríðið, Persaflóastríðið, átökin í Mið-Ameríku, átökin í Afríku, stríðin á Indlandsskaga, Búastríðið og stríð Íran og Írak áttu sér allar aðrar rætur en ólík trúarbrögð stríðsaðila. Stríðsaðilar voru þó í nokkrum þessara stríða af mismunandi trúarbrögðum. Í engu tilviki verður hins vegar séð að trúarbrögðin valdið því að átök hófust eða að þau hafi haft afgerandi áhrif á þróun viðkomandi stríðs.

Það sama má segja um helstu stríð aldarinnar á undan, svo sem Napóleonsstríðin, Krímstríðið, stríð Frakka og Þjóðverja og þau mörgu stríð sem Evrópuríki háðu um nýlendur sínar. Það heyrir því til undantekninga að trúarbrögð séu raunverulegur þáttur í nýlegum styrjöldum. Þau stríð sem flestir myndu líta til í leit að slíkum dæmum á undanförnum áratugum eru líklega stríðið um Palestínu, stríðin í Bosníu og Kosovó, stríðið í Afghanistan, stríðið á Sri Lanka og borgarastríðið í Líbanon. Frá 18. og 19. öld má finna nokkur dæmi af svipuðu tagi þar sem trúarbrögð stríðsaðila voru mismunandi og að minnsta kosti á yfirborðinu ríkur þáttur í átökunum.

Ef við lítum nánar á þessi dæmi kemur hins vegar í ljós að rætur átakanna liggja í tilfinningum hópa um hverjir þeir eru, eða eru ekki, frekar en í skilningi þeirra á almættinu eða í átökum um hvers eðlis það kann að vera. Þessi átök þar sem trúin er sýnilegur þáttur hafa þannig í flestum tilvikum snúist um hagsmuni þjóðernishópa frekar en um trúarbrögð. Á 18. og 19. öld snerust þessi átök yfirleitt um viðnám við útþenslu nýlenduvelda eða þau áttu rætur í uppreisnum gegn útlendri stjórn. Í flestum tilvikum töldust nýlenduveldin kristin en viðnám var veitt af múslimum eða hindúum sem höfðu ekki áhuga á því að láta fjarlæg nýlenduveldi stjórna löndum sínum.

Ástæðurnar fyrir innrásum Vesturlanda í þessi lönd voru hins vegar í raun viðskiptalegar en ekki trúarlegar. Lítum að lokum á fyrrnefnd dæmi um hugsanleg trúarbragðastríð frá tuttugustu öld. Í Bosníu og Kosovó snerust stríðin greinilega um átök milli þjóðernishópa. Þjóðernistilfinning þessara hópa byggist í sumum tilvikum á trúarbrögðum frekar en þjóðerni í venjulegum skilningi. Það sama má segja um átökin í Líbanon þar sem fólk af sama þjóðerni en af ólíkum trúarbrögðum tókst á. Í báðum tilvikum höfðu ólíkir trúarhópar búið í sæmilegu sambýli um aldir, þótt ýmis átök hafi vissulega átt sér stað á löngum tíma. Í báðum tilvikum réð fólk af einum trúarhópi eða þjóðerni miklu stærri löndum en fjöldi eða útbreiðsla fólksins gaf tilefni til, Serbar í Bosníu og Kosovó, Marónítar í Líbanon.

Stríðin snerust um að ráðandi hópar misstu forræði yfir fólki sem tilheyrði öðrum hópum, frekar en beinlínis um trúarbrögð. Á Sri Lanka hefur geisað stríð þar sem minnihlutahópur Tamíla, sem eru flestir hindúar, berst fyrir sjálfstæðu ríki á eyju sem er undir stjórn fólks sem aðhyllist búddisma en er líka af öðru þjóðerni og talar annað tungumál. Átökin eru því um vilja þjóðernishóps til að verða óháður fólki af öðru þjóðerni.

Í Afganistan hefur staðið stríð um langa hríð. Afganistan er byggt fólki af ólíkum þjóðernum og fólki sem aðhyllist ólík afbrigði af islam. Trú og þjóðerni blandast þarna saman í flókin átök sem Sovétríkin, Bandaríkin og nágrannaríki Afganistan tengdust eða tengjast með ýmsum hætti. Sú undarlega stjórn sem nú situr við völd í Kabúl byggist beinlínis á tiltekinni túlkun á ákveðnum trúarbrögðum og er mjög óvanalegt fyrirbæri í alla staði.

Átökin í Palestínu snúast hins vegar um þau vandræði að tvær þjóðir gera tilkall til sama lands. Þarna eru annars vegar Palestínumenn sem eru ýmist kristnir eða múslimar. Uppruni þeirra í landinu er forn. Hins vegar eru Gyðingar sem voru mjög fámennir í landinu þar til nýverið en þeir telja sig eiga rétt til landsins af sögulegum og trúarlegum ástæðum. Trúarbrögð blandast í þessa deilu annars vegar vegna þess að Gyðingar rekja eignarheimild sína á landinu til meintra fyrirheita guðs, og hins vegar vegna þess að fólkið sem bjó í landinu þegar Gyðingar sneru aftur er annarrar trúar. Palestínumenn veita viðnám og vilja stjórna landi sínu og frelsa það undan hernámi annarrar þjóðar. Þessi vilji þeirra hefur hins vegar lítið með trúarbrögð að gera.

Um ófriðinn milli Palestínumanna og Ísraela má lesa nánar í svari Magnúsar Þorkels Bernharðssonar við spurningunni Af hverju geta Ísraelar og Palestínumenn ekki lifað saman í sátt og samlyndi?Mynd: HB

Höfundur

stjórnmálafræðingur og dósent við Háskólann í Reykjavík

Útgáfudagur

25.10.2001

Spyrjandi

Haukur Brynjar

Tilvísun

Jón Ormur Halldórsson. „Eru ekki miklar líkur á 3. heimstyrjöldinni ef flest stríð hafa verið vegna trúarbragða og meiri hluti heimsins er trúaður?“ Vísindavefurinn, 25. október 2001. Sótt 16. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1924.

Jón Ormur Halldórsson. (2001, 25. október). Eru ekki miklar líkur á 3. heimstyrjöldinni ef flest stríð hafa verið vegna trúarbragða og meiri hluti heimsins er trúaður? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1924

Jón Ormur Halldórsson. „Eru ekki miklar líkur á 3. heimstyrjöldinni ef flest stríð hafa verið vegna trúarbragða og meiri hluti heimsins er trúaður?“ Vísindavefurinn. 25. okt. 2001. Vefsíða. 16. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1924>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru ekki miklar líkur á 3. heimstyrjöldinni ef flest stríð hafa verið vegna trúarbragða og meiri hluti heimsins er trúaður?


Spyrjandi gefur sér að flest stríð heimsins hafi verið vegna trúarbragða. Þetta er að líkindum ekki rétt. Trúarbrögð hafa alla tíð blandast með ýmsum hætti í stríðsátök en rætur stríðsátaka má oftast finna í ýmis konar hagsmunatogstreitu frekar en í ólíku viðhorfi til almættisins. Trúarbrögð eru hins vegar oft ríkur þáttur í sjálfsmynd hópa sem skynja hagsmuni sína á skjön við aðra hópa eða á skjön við alla sem ekki tilheyra hópnum. Trúarbrögðin eru þó öllu sjaldnar beinlínis ástæðan fyrir því að tilteknir hópar myndast eða að þeir leggja sérstakan skilning í hagsmuni sína.

Spyrjandi nefnir sérstaklega hættu á þriðju heimstyrjöldinni. Hvorki fyrri heimstyrjöldin né sú síðari áttu mikilvægar rætur í átökum milli trúarbragða. Og aðrar af stærstu styrjöldum síðustu aldar, svo sem stríðið í Víetnam, stríðið í Kambódíu, Kóreustríðið, Persaflóastríðið, átökin í Mið-Ameríku, átökin í Afríku, stríðin á Indlandsskaga, Búastríðið og stríð Íran og Írak áttu sér allar aðrar rætur en ólík trúarbrögð stríðsaðila. Stríðsaðilar voru þó í nokkrum þessara stríða af mismunandi trúarbrögðum. Í engu tilviki verður hins vegar séð að trúarbrögðin valdið því að átök hófust eða að þau hafi haft afgerandi áhrif á þróun viðkomandi stríðs.

Það sama má segja um helstu stríð aldarinnar á undan, svo sem Napóleonsstríðin, Krímstríðið, stríð Frakka og Þjóðverja og þau mörgu stríð sem Evrópuríki háðu um nýlendur sínar. Það heyrir því til undantekninga að trúarbrögð séu raunverulegur þáttur í nýlegum styrjöldum. Þau stríð sem flestir myndu líta til í leit að slíkum dæmum á undanförnum áratugum eru líklega stríðið um Palestínu, stríðin í Bosníu og Kosovó, stríðið í Afghanistan, stríðið á Sri Lanka og borgarastríðið í Líbanon. Frá 18. og 19. öld má finna nokkur dæmi af svipuðu tagi þar sem trúarbrögð stríðsaðila voru mismunandi og að minnsta kosti á yfirborðinu ríkur þáttur í átökunum.

Ef við lítum nánar á þessi dæmi kemur hins vegar í ljós að rætur átakanna liggja í tilfinningum hópa um hverjir þeir eru, eða eru ekki, frekar en í skilningi þeirra á almættinu eða í átökum um hvers eðlis það kann að vera. Þessi átök þar sem trúin er sýnilegur þáttur hafa þannig í flestum tilvikum snúist um hagsmuni þjóðernishópa frekar en um trúarbrögð. Á 18. og 19. öld snerust þessi átök yfirleitt um viðnám við útþenslu nýlenduvelda eða þau áttu rætur í uppreisnum gegn útlendri stjórn. Í flestum tilvikum töldust nýlenduveldin kristin en viðnám var veitt af múslimum eða hindúum sem höfðu ekki áhuga á því að láta fjarlæg nýlenduveldi stjórna löndum sínum.

Ástæðurnar fyrir innrásum Vesturlanda í þessi lönd voru hins vegar í raun viðskiptalegar en ekki trúarlegar. Lítum að lokum á fyrrnefnd dæmi um hugsanleg trúarbragðastríð frá tuttugustu öld. Í Bosníu og Kosovó snerust stríðin greinilega um átök milli þjóðernishópa. Þjóðernistilfinning þessara hópa byggist í sumum tilvikum á trúarbrögðum frekar en þjóðerni í venjulegum skilningi. Það sama má segja um átökin í Líbanon þar sem fólk af sama þjóðerni en af ólíkum trúarbrögðum tókst á. Í báðum tilvikum höfðu ólíkir trúarhópar búið í sæmilegu sambýli um aldir, þótt ýmis átök hafi vissulega átt sér stað á löngum tíma. Í báðum tilvikum réð fólk af einum trúarhópi eða þjóðerni miklu stærri löndum en fjöldi eða útbreiðsla fólksins gaf tilefni til, Serbar í Bosníu og Kosovó, Marónítar í Líbanon.

Stríðin snerust um að ráðandi hópar misstu forræði yfir fólki sem tilheyrði öðrum hópum, frekar en beinlínis um trúarbrögð. Á Sri Lanka hefur geisað stríð þar sem minnihlutahópur Tamíla, sem eru flestir hindúar, berst fyrir sjálfstæðu ríki á eyju sem er undir stjórn fólks sem aðhyllist búddisma en er líka af öðru þjóðerni og talar annað tungumál. Átökin eru því um vilja þjóðernishóps til að verða óháður fólki af öðru þjóðerni.

Í Afganistan hefur staðið stríð um langa hríð. Afganistan er byggt fólki af ólíkum þjóðernum og fólki sem aðhyllist ólík afbrigði af islam. Trú og þjóðerni blandast þarna saman í flókin átök sem Sovétríkin, Bandaríkin og nágrannaríki Afganistan tengdust eða tengjast með ýmsum hætti. Sú undarlega stjórn sem nú situr við völd í Kabúl byggist beinlínis á tiltekinni túlkun á ákveðnum trúarbrögðum og er mjög óvanalegt fyrirbæri í alla staði.

Átökin í Palestínu snúast hins vegar um þau vandræði að tvær þjóðir gera tilkall til sama lands. Þarna eru annars vegar Palestínumenn sem eru ýmist kristnir eða múslimar. Uppruni þeirra í landinu er forn. Hins vegar eru Gyðingar sem voru mjög fámennir í landinu þar til nýverið en þeir telja sig eiga rétt til landsins af sögulegum og trúarlegum ástæðum. Trúarbrögð blandast í þessa deilu annars vegar vegna þess að Gyðingar rekja eignarheimild sína á landinu til meintra fyrirheita guðs, og hins vegar vegna þess að fólkið sem bjó í landinu þegar Gyðingar sneru aftur er annarrar trúar. Palestínumenn veita viðnám og vilja stjórna landi sínu og frelsa það undan hernámi annarrar þjóðar. Þessi vilji þeirra hefur hins vegar lítið með trúarbrögð að gera.

Um ófriðinn milli Palestínumanna og Ísraela má lesa nánar í svari Magnúsar Þorkels Bernharðssonar við spurningunni Af hverju geta Ísraelar og Palestínumenn ekki lifað saman í sátt og samlyndi?Mynd: HB...