Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Erfðabreytt kallast matvæli framleidd úr lífverum, sem breytt hefur verið lítillega með utanaðkomandi erfðaefni. Mikill meirihluti þeirra eru nytjaplöntur og afurðir þeirra. Erfðabreytingarnar hafa einkum beinst að aukinni framleiðslu með því að gera plönturnar ónæmar fyrir skordýrum og illgresiseyðandi efnum. Mest er framleitt af erfðabreyttum sojabaunum, maís, olíufræjum, kartöflum og tómötum auk baðmullar og tóbaks. Bandaríkin eru langstærsti framleiðandi og útflytjandi erfðabreyttra nytjaplantna. Á eftir þeim koma Kanada og Kína en minnst er framleiðslan í Evrópu.
Á alþjóðavettvangi hafa erfðabreytt matvæli verið mikið til umræðu og ekki eru allir á eitt sáttir um áhrif þeirra. Umræðan hefur verið af tvennum toga, annars vegar hvort matvælin geti haft skaðleg áhrif á heilsu manna og hinsvegar hvaða áhrif ræktun erfðabreyttra nytjaplantna hafi á umhverfið og lífríkið í heild.
Hvað sem þessari umræðu líður eru erfðabreytt matvæli komin á markað víða um heiminn. Nærri víst má telja að afurðir erfðabreyttra plantna séu einnig á boðstólnum hérlendis í einhverjum mæli. Helst er þá um að ræða afurðir sem innihalda sojamjöl, maís og tómata.
Veruleg aukning hefur orðið á matvælaframleiðslu í heiminum undanfarna áratugi fyrir tilstilli hefðbundinna kynbóta. Í fljótu bragði virðist munurinn á hefðbundnum kynbótum og erfðatækninni, sem notuð er til framleiðslu erfðabreyttra matvæla ekki ýkja mikill. Með hefðbundnum kynbótum eru mörg gen flutt milli skyldra lífvera en með erfðatækninni eru eitt eða örfá gen flutt milli lífvera óháð skyldleika þeirra. Þannig er til dæmis unnt að flytja gen úr bakteríum eða dýrum í plöntur, sem ekki er hægt með hefðbundnum kynbótum.
Hollusta
Spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir varðandi hollustu og öryggi erfðabreyttra matvæla eru síður en svo einfaldar. Hversu vel sem við treystum vísindunum eru svörin hvorki augljós né einhlít. Þannig er vandasamt að meta hvort muni vega þyngra, kostir eða gallar erfðabreyttra matvæla þegar til lengdar lætur.
Kostir
Ef við lítum fyrst á kostina er ljóst að með þessari tækni er mögulegt að framleiða hraustari plöntur með þoli gegn plágum, illgresiseyðum, þurrki og kulda. Auk þess er stefnt að framleiðslu plantna sem geta nýtt betur sólarljós og næringarefni, sem þýðir að þær gætu vaxið hraðar en óbreyttar plöntur. Þetta mun hafa í för með sér nýtingu áður óræktanlegra landsvæða. Miklar vonir eru þannig bundnar við að með beitingu erfðatækninnar í landbúnaði verði hægt að brauðfæða heiminn.
Þá verður einnig hægt að auka næringargildi matvæla í fátækari hlutum heimsins þar sem fæðan er oft einhæf. Samkvæmt spá FAO þarf að tvöfalda uppskeruna til að mæta fæðuþörfinni í heiminum á næstu 30 árum en það verður varla mögulegt nema til komi ný tækni í landbúnaði.
Hagur matvælaiðnaðarins af erfðabreyttum matvælum getur orðið margvíslegur. Búast má við fjölbreyttari matvælum með aukið geymslu- og flutningsþol, bætta vinnslueiginleika, næringargildi og bragðgæði. Í raun virðist ímyndunaraflið eitt takmarka möguleika okkar í þessum efnum.
Erfðabreyttar nytjaplöntur voru framleiddar á um 40 milljónum hektara lands í heiminum árið 1999. Mælanlegur árangur af framleiðslu þeirra er einkum sá að notkun eiturefna í landbúnaði hefur minnkað um 20-40%. Minnkun á notkun eiturefna um 10% þýðir um 200 milljón Bandaríkjadala sparnað fyrir bændur.
Einnig ber að líta á heilsufarslegan ávinning og minnkaða umhverfismengun vegna minni notkunar eiturefna í landbúnaði. Útflutningstekjur Bandaríkjanna af landbúnaðarafurðum námu árið 1999 um 50 milljörðum dala en vaxandi hluti útflutningsins eru erfðabreyttar afurðir. Þeir sem hagnast mest á framleiðslu erfðabreyttra nytjaplantna eru líftæknifyrirtæki og bændur.
Ókostir
Málin vandast talsvert þegar fjallað er um gallana sem fylgja framleiðslu erfðabreyttra lífvera. Þeir eru af allt öðrum toga, tengjast meira tilfinningum og valda áhyggjum vegna þess að mun minna er vitað um þá en kostina. Tortryggni og ótti við óvissuna um hugsanlegan heilsu- og umhverfisskaða auk trúarlegra og siðferðilegra spurninga einkenna þá umræðu.
Ávinningur neytenda af erfðabreyttum matvælum er heldur ekki merkjanlegur og hafa neytendasamtök víða um heim barist hatrammlega gegn þeim. Einnig hafa umhverfissamtök víða mælt gegn ræktun erfðabreyttra lífvera á þeim forsendum að hún valdi breytingum á náttúrulegum gróðri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir allt lífríkið.
Varnaraðgerðir
Árið 1998 gekk í gildi reglugerð Evrópusambandsins (ESB) um sérstakar merkingar á afurðum úr erfðabreyttum maís, sem ætlað er að vernda neytendur og veita þeim val. Árið 2000 gaf ESB út aðra reglugerð þar sem kveðið er á um að merkja beri einnig erfðabreytt aukefni og bragðefni. Þannig er nú skylt að merkja slíkar afurðir með óyggjandi hætti. Ennfremur eru í gildi sérstök lög um markaðssetningu erfðabreyttra lífvera og afurða þeirra. Neytendur í Evrópu hafa þannig val um það hvort þeir kaupa erfðabreytt matvæli eða ekki.
Lokaorð
Ljóst er að miklar rannsóknir liggja að baki þeim erfðabreyttu matvælum sem þegar eru komin á markaðinn. Þótt ekkert bendi til þess í dag að þau séu hættuleg heilsu manna er ekki unnt að útiloka skaðsemi þeirra um alla framtíð. Svipaða sögu er reyndar hægt að segja um fleiri matvæli, sem ekki eru erfðabreytt. Mikil óvissa ríkir einnig um langtímaáhrif erfðabreyttra nytjaplantna á umhverfið.
Ágústa Guðmundsdóttir. „Hvað eru erfðabreytt matvæli? Hvaða áhrif hafa þau á daglegt líf okkar og eru þau með einhverjum hætti skaðleg?“ Vísindavefurinn, 30. október 2001, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1930.
Ágústa Guðmundsdóttir. (2001, 30. október). Hvað eru erfðabreytt matvæli? Hvaða áhrif hafa þau á daglegt líf okkar og eru þau með einhverjum hætti skaðleg? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1930
Ágústa Guðmundsdóttir. „Hvað eru erfðabreytt matvæli? Hvaða áhrif hafa þau á daglegt líf okkar og eru þau með einhverjum hætti skaðleg?“ Vísindavefurinn. 30. okt. 2001. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1930>.