Í æsku var flestum sagt að hljóðið sem heyrist þegar maður heldur kuðungi upp við eyrað sé hljóðið í hafinu. Svo er þó ekki, en hvað er það þá sem framkallar þetta hljóð?
Ein möguleg skýring er sú að hljóðið sé komið til vegna streymis andrúmslofts um kuðunginn. Við nánari athugun stenst það þó ekki. Ef við erum stödd í hljóðþéttu herbergi og prófum að hlusta á hljóðið í kuðungi þá heyrum við ekki neitt, jafnvel þó að andrúmsloft sé til staðar í herberginu.
Líklegasta skýringin á ölduhljóðinu í kuðungnum er sú að kuðungurinn magni upp umhverfishljóð sem við heyrum annars lítið eða ekkert í. Hann tekur þá við hljóðbylgjum, þær sveiflast inni í kuðungnum, sumar með magnandi víxlverkun en aðrar með eyðandi víxlverkun. Tíðni og styrkur hljóðsins breytist því og við heyrum nið sem líkist sjávarnið. Úkoman er svo mismunandi eftir kuðungum og styrk umhverfishljóða. „Öldugangurinn” í kuðungnum ætti því að vera meiri ef maður er staddur á fjölfarinni umferðargötu en ef maður væri heima í hljóðlátu herbergi.
Þeim lesendum sem vilja upplifa raunverulega þá rómantísku hugmynd að hljóðið sem heyrist sé frá sjónum, er bent á að fara einfaldlega niður að sjó með stóran kuðung og hlusta þar. Umhverfishljóðin í fjörunni ættu að vera að mestu leyti frá öldunum og því er með réttu hægt að segja að maður heyri sjávarniðinn í kuðungnum.
Mynd: HB