Dæmi um osmósu er flæði vatnssameinda úr hreinu vatni yfir í lausn sem inniheldur prótín uppleyst í vatni þar sem vatnið og lausnin eru aðgreind með himnu sem einungis hleypir vatnssameindum í gegn en ekki prótínsameindum vegna stærðar þeirra. Svokallaður osmósu-þrýstingur er einkennandi fyrir viðkomandi kerfi. Hann er unnt að ákvarða með eftirfarandi hætti. Ef lausn og leysir eru aðskilin með sértækri himnu líkt og sýnt er á meðfylgjandi mynd leitar leysiefnið yfir í lausnina með þeim afleiðingum að yfirborð lausnarinnar hækkar (og yfirborð leysiefnisins lækkar). Við það eykst þrýstingur vökvasúlu lausnarinnar. Þrýstingur vökvasúlunnar vinnur gegn osmósuflæðinu uns jafnvægi milli flæðisins og vökvaþrýstingsins kemst á. Þá rís vökvayfirborðið ekki meira og þrýstingur vökvasúlunnar sem þá ríkir nefnist osmósuþrýstingur.
Osmósa er algeng í lífríkinu og getur átt sér stað þar sem ólíkar lausnir eru aðskildar með lífrænum himnum, svo sem frumuhimnum eða himnuveggjum frumulíffæra. Osmósa gegnir þannig mikilvægu hlutverki við stjórnun á vatnsflæði í ýmsum lífkerfum. Dæmi um nothæfa himnu fyrir osmósu er þunna himnan næst egjaskurni inni í eggi. Sú himna hleypir einmitt vatni í gegn en ekki stórum lífrænum prótínsameindum eggjahvítunnar.
http://www.holland.isd.tenet.edu/ms/sci/cp/8th/starch/osmosis.html D.W.A. Sharp, The Penguin Dictionary of Chemistry, Penguin Books, 1983. P.W. Atkins, Physical Chemistry, 6. útg., Oxford University Press, 1999.