Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað þýðir máltækið "Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni"? Er hér um yfirfærða merkingu að ræða?Í Snorra-Eddu, 12. kafla Gylfaginningar, segir svo frá úlfakreppu sólar:
Þá mælti Gangleri: "Skjótt ferr sólin ok nær svá sem hún sé hrædd, ok eigi myndi hon þá meir hvata göngunni, at hon hræddist bana sinn."

Þá svarar Hárr: "Eigi er þat undarligt, at hon fari ákafliga. Nær gengr sá, er hana sækir, ok engan útveg á hon nema renna undan."

Þá mælti Gangleri: "Hverr er sá, er henni gerir þann ómaka"

Hárr segir: "Þat eru tveir úlfar, ok heitir sá, er eftir henni ferr, Skoll [Sköll]. Hann hræðist hon, ok hann mun taka hana. En sá heitir Hati Hróðvitnisson, er fyrir henni hleypr, ok vill hann taka tunglit, ok svá mun verða."
Þarna er að finna elstu vísun í íslensku um hjásólir eða aukasólir en til gamans má geta þess að í grískri goðafræði er einnig sagt frá því að úlfar leitist við að gleypa sólina. Í fornu máli og í síðari alda máli eru þess mörg dæmi að menn þóttust geta séð fyrir ókomna atburði af teiknum á himni.

Elstu dæmi um málsháttinn "Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni" er að finna í Málsháttasafni Guðmundar Jónssonar (Kaupmannahöfn 1830) og Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Í síðari heimildinni er skýringin á þessu fyrirbrigði mjög rækileg:
Hjásólir eða aukasólir, það eru ljósdílar í kringum sólina, eru ekki sjaldsénar á Suðurlandi. Ef tvær hjásólir sjást í einu sín hvorumegin sólarinnar, önnur á undan sól, en hin á eftir, er það kallað að "sólin sé í úlfakreppu" eða að "það fari bæði á undan og eftir sól" og er hvort tveggja orðatiltækið dregið af úlfunum Sköll sem átti að gleypa sólina og Hata sem átti að taka tunglið. Stundum er þetta kallað gílaferð og hjásólin sem fer á undan sól gíll. Hann þykir ills viti með veður ef ekki fer einnig á eftir sólu, en sú hjásól er enn kölluð úlfur og er þaðan dreginn talshátturinn: "Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni." (Ný útgáfa (1954), bls. 655)
Elstu dæmi um nafnorðið gíll 'aukasól, ljósblettur sem sést stundum rétt vestan við sól' eru frá síðari hluta 18. aldar og breytingin frá fara/renna eftir einhverjum í fara/renna á eftir einhverjum er naumast miklu eldri. Nútímamynd málsháttarins er því tiltölulega ung en minnið er fornt.

Af sama meiði eru orðasamböndin 'að vera í úlfakreppu', 'lenda í úlfakreppu' og ýmis afbrigði af sama toga með vísun til þess er einhver er mjög aðþrengdur, oft þar sem eitthvað tvennt togast á.Mynd: Arbeitskreis Meteore e.V.

Útgáfudagur

16.11.2001

Spyrjandi

Ingibjörg Jónsdóttir, Guðjón Hilmarsson

Höfundur

prófessor í íslensku fyrir erlenda stúdenta

Tilvísun

Jón G. Friðjónsson. „Hvað þýðir máltækið "Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni"? Er hér um yfirfærða merkingu að ræða?“ Vísindavefurinn, 16. nóvember 2001. Sótt 22. september 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=1956.

Jón G. Friðjónsson. (2001, 16. nóvember). Hvað þýðir máltækið "Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni"? Er hér um yfirfærða merkingu að ræða? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1956

Jón G. Friðjónsson. „Hvað þýðir máltækið "Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni"? Er hér um yfirfærða merkingu að ræða?“ Vísindavefurinn. 16. nóv. 2001. Vefsíða. 22. sep. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1956>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Hrafn Loftsson

1965

Hrafn Loftsson er dósent í tölvunarfræði við HR. Rannsóknir Hrafns eru á sviði máltækni sem er rannsóknar- og þróunarsvið hvers markmið er að þróa búnað sem getur unnið með og skilið náttúruleg tungumál og stuðlað að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu.