Rússar (Sovétmenn) gerðu fyrstu tilraunir til að senda geimför til Mars á árunum 1960-1962, en þær mistókust allar. Fyrsta könnunarferð þangað, sem heppnaðist eins og til var ætlast, var farin árið 1964 er bandaríska geimfarið Mariner 4 flaug framhjá hnettinum og náði 20 ljósmyndum af litlum hluta yfirborðsins. Mariner 9 var svo á braut um Mars 1971-72 og ljósmyndaði mikinn hluta hnattarins.
Sovétríkin sendu lendingarför til Mars 1971 og 1974, en árangur varð lítill. Viking-förin bandarísku lentu 1976 og fengust þá fyrstu skýru myndirnar af yfirborðinu, auk þess sem teknar voru myndir af hnettinum öllum úr lofti.
Síðan gerðist ekkert fram til 1997, er Pathfinder lenti á Mars og Mars Global Surveyor (MGS) fór á braut um hann. Frá MGS hafa stöðugt borist myndir og landslagsgögn undanfarin 4 ár. Tvö bandarísk könnunarför, Mars Climate Orbiter og Mars Polar Lander, fórust við Mars á árinu 1999 en nú í október 2001 tókst að koma Mars Odyssey á braut um hnöttinn án áfalla. Síðustu leiðöngrunum er því ekki lokið enn.
Fleiri könnunarferðir verða farnar á komandi árum. Taflan hér að neðan gefur hugmynd um hvernig geimferðir til Mars hafa tekist síðastliðin 40 ár og nákvæmari upplýsinga má leita á vefsíðu á vegum NASA.
| Ferðir | Heppnaðar | Misheppnaðar | |
| Bandaríkin | 14 | 9 | 5 |
| Sovétríkin/Rússland | 16 | 4 | 12 |
| Japan | Ein á leiðinni |
Myndir: NASA - NSSDC Photo Gallery - Mars