Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Af hverju er talað um að Jesús hafi dáið og fórnað sér fyrir okkur? Var það ekki fólkið sem ákvað að krossfesta hann?

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

Vissulega var það fólkið sem ákvað að krossfesta Jesú. Fólkinu - eða öllu heldur leiðtogum þess - fannst Jesús óþægilegur svo að það yrði að ryðja honum úr vegi.

Krossfesting var andstyggileg pyntingaraðferð, ein af mörgum sem mannkynið hefur fundið upp í blóðugri sögu sinni. Í Rómaveldi var krossfestingu beitt á menn sem þóttu pólitískt hættulegir, svo sem á þræla er gerðu uppreisn eða á þegna í skattlöndunum sem þóttu ógna veldi Rómverja. Með því að krossfesta slíka menn á almannafæri þóttust Rómverjar geta sýnt fram á hver það væri sem völdin hefði. Og það þótti Pílatusi líka þegar hann hafði framselt Jesú til krossfestingar.

Að kristnum skilningi var því hins vegar þveröfugt farið. Sá sem sigraði á Golgata var ekki Pílatus heldur hinn krossfesti Jesús. Sá sigur kom í ljós í upprisu hans á þriðja degi. Hún birti að Jesús er Messías, Kristur. Um leið leiðir hún í ljós að hið pólitíska vald, hvort sem það er vald Rómar eða einhvers annars stórveldis, er ekki hinsta vald í heimi. Það er annað vald sem er öllu stjórnmálavaldi æðra og það er vald Guðs, vald kærleikans.

Handtaka Jesú og dómurinn yfir honum hafa með öðrum orðum tvær hliðar. Ytri hliðin snertir hlutdeild manna sem vildu ryðja honum úr vegi. Innri hliðin lýtur að sambandi Jesú og Guðs. Að kristnum skilningi er Jesús Guðs elskaði Sonur, "orð Guðs í holdi manns" eins og segir í jólaguðspjalli Jóhannesar (Jóhannesar guðspjall 1. kapituli 1-14). Guð sendi son sinn í heiminn af því að hann elskar heiminn segir Jóhannes líka í 3. kapitula 16. versi. Kristnir menn játa á grundvelli upprisu Jesú að Guð hafi náð frelsistilgangi sínum þrátt fyrir að menn hafi afneitað honum.

Sennilega hefði Guð getað gripið inn í atburðarásina á Golgata með því að forða syninum frá kvöl og dauða. Það gerði hann ekki og því segir kristinn vitnisburður að Guð hafi ekki þyrmt sínum eigin syni heldur framselt hann fyrir okkur til þess að geta gefið okkur allt með honum: Frelsi, líf, fyrirgefningu og frið (sjá Rómverjabréfið 8.31-39).

Í þeim skilningi dó Jesús fyrir okkur og fórnaði sér vegna okkar. Þegar við því minnumst dauða Jesú, minnumst við þess að sátt er komið á milli Guðs og manna. Þess vegna er bæði unnt og skylt að vinna að sátt, friði og einingu meðal manna. Það er sú nýja ytri hlið á krossfestingu Jesú sem að okkur og breytni okkar snýr í ljósi upprisu Jesú.

Frekara lesefni:

Einar Sigurbjörnsson, Ljós í heimi. Kristin trú og nútíminn. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1996, bls. 93-117.

Einar Sigurbjörnsson, Credo: Kristin trúfræði. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1993, bls. 237-254.

Sigurbjörn Einarsson, "Sigur krossins - sigur vor." Coram Deo. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981, bls. 197-213.

Sigurbjörn Einarsson: Hvað gerðist á krossinum? Reykjavík: Kristilegt stúdentafélag, 1986.Mynd: HB

Höfundur

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

prófessor í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

4.12.2001

Spyrjandi

Andri Þorvaldsson, f. 1984

Tilvísun

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Af hverju er talað um að Jesús hafi dáið og fórnað sér fyrir okkur? Var það ekki fólkið sem ákvað að krossfesta hann?“ Vísindavefurinn, 4. desember 2001. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1989.

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). (2001, 4. desember). Af hverju er talað um að Jesús hafi dáið og fórnað sér fyrir okkur? Var það ekki fólkið sem ákvað að krossfesta hann? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1989

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Af hverju er talað um að Jesús hafi dáið og fórnað sér fyrir okkur? Var það ekki fólkið sem ákvað að krossfesta hann?“ Vísindavefurinn. 4. des. 2001. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1989>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju er talað um að Jesús hafi dáið og fórnað sér fyrir okkur? Var það ekki fólkið sem ákvað að krossfesta hann?
Vissulega var það fólkið sem ákvað að krossfesta Jesú. Fólkinu - eða öllu heldur leiðtogum þess - fannst Jesús óþægilegur svo að það yrði að ryðja honum úr vegi.

Krossfesting var andstyggileg pyntingaraðferð, ein af mörgum sem mannkynið hefur fundið upp í blóðugri sögu sinni. Í Rómaveldi var krossfestingu beitt á menn sem þóttu pólitískt hættulegir, svo sem á þræla er gerðu uppreisn eða á þegna í skattlöndunum sem þóttu ógna veldi Rómverja. Með því að krossfesta slíka menn á almannafæri þóttust Rómverjar geta sýnt fram á hver það væri sem völdin hefði. Og það þótti Pílatusi líka þegar hann hafði framselt Jesú til krossfestingar.

Að kristnum skilningi var því hins vegar þveröfugt farið. Sá sem sigraði á Golgata var ekki Pílatus heldur hinn krossfesti Jesús. Sá sigur kom í ljós í upprisu hans á þriðja degi. Hún birti að Jesús er Messías, Kristur. Um leið leiðir hún í ljós að hið pólitíska vald, hvort sem það er vald Rómar eða einhvers annars stórveldis, er ekki hinsta vald í heimi. Það er annað vald sem er öllu stjórnmálavaldi æðra og það er vald Guðs, vald kærleikans.

Handtaka Jesú og dómurinn yfir honum hafa með öðrum orðum tvær hliðar. Ytri hliðin snertir hlutdeild manna sem vildu ryðja honum úr vegi. Innri hliðin lýtur að sambandi Jesú og Guðs. Að kristnum skilningi er Jesús Guðs elskaði Sonur, "orð Guðs í holdi manns" eins og segir í jólaguðspjalli Jóhannesar (Jóhannesar guðspjall 1. kapituli 1-14). Guð sendi son sinn í heiminn af því að hann elskar heiminn segir Jóhannes líka í 3. kapitula 16. versi. Kristnir menn játa á grundvelli upprisu Jesú að Guð hafi náð frelsistilgangi sínum þrátt fyrir að menn hafi afneitað honum.

Sennilega hefði Guð getað gripið inn í atburðarásina á Golgata með því að forða syninum frá kvöl og dauða. Það gerði hann ekki og því segir kristinn vitnisburður að Guð hafi ekki þyrmt sínum eigin syni heldur framselt hann fyrir okkur til þess að geta gefið okkur allt með honum: Frelsi, líf, fyrirgefningu og frið (sjá Rómverjabréfið 8.31-39).

Í þeim skilningi dó Jesús fyrir okkur og fórnaði sér vegna okkar. Þegar við því minnumst dauða Jesú, minnumst við þess að sátt er komið á milli Guðs og manna. Þess vegna er bæði unnt og skylt að vinna að sátt, friði og einingu meðal manna. Það er sú nýja ytri hlið á krossfestingu Jesú sem að okkur og breytni okkar snýr í ljósi upprisu Jesú.

Frekara lesefni:

Einar Sigurbjörnsson, Ljós í heimi. Kristin trú og nútíminn. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1996, bls. 93-117.

Einar Sigurbjörnsson, Credo: Kristin trúfræði. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1993, bls. 237-254.

Sigurbjörn Einarsson, "Sigur krossins - sigur vor." Coram Deo. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981, bls. 197-213.

Sigurbjörn Einarsson: Hvað gerðist á krossinum? Reykjavík: Kristilegt stúdentafélag, 1986.Mynd: HB...