Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver var hugsun George Orwells á bak við skáldsöguna Dýrabæ?

Viðar Þorsteinsson

Enska rithöfundinum George Orwell (1903-1950, fæddur Eric Blair) var svo ákaflega uppsigað við óréttlæti heimsins að hann gerði skrif pólitískra ádeiluverka að hugsjón sinni. Fyrstu bækur hans frá fjórða áratug 20. aldar voru í samræmi við þá hugsjón. Bókin Down and Out in Paris and London (Utan garðs í París og London, 1933) segir frá kjörum fátæklinga í London og París og skáldsagan Burmese Days (Dagar í Búrma, 1934) er um ungan Englendingi í Búrma og samviskukvalir hans vegna kúgunarinnar sem landar hans beita innfædda. Eigin reynsla Orwells stóð honum snemma nærri í skrifum hans; hann lagðist út meðal fátæklinga til að safna efni í fyrrnefndu bókina, og í þeirri síðarnefndu byggði hann á reynslu sinni af störfum í lögreglusveitum Breta í Búrma.

Rætur skáldsögunnar Dýrabær (e. Animal Farm) má rekja til þess að vorið 1937 hélt hann til Spánar að berjast með lýðveldissinnum gegn herjum Francos í spænska borgarastríðinu. Orwell var þar í hópi sósíalista frá öllum heimshornum sem litu á Spán sem vígvöll fasisma og sósíalisma. Tilviljun réði því að Orwell gekk til liðs við litla hersveit óháðra sósíalista frekar en hina öflugu hersveit kommúnista, en þessar fylkingar börðust framan af hlið við hlið. En eftir að kommúnistar tóku að ofsækja þá lýðveldissinna sem ekki vildu alfarið fylgja hugmyndafræði þeirra skildu leiðir með þeim og Orwell. Hann skildi ekki hvers vegna kommúnistar lögðust gegn anarkistum og óháðum sósíalistum -- sem hvort tveggja voru öflugar hreyfingar meðal spænskrar alþýðu -- og fylltist viðbjóði af að horfa upp á hvernig þeir ofsóttu þessa hópa og börðu þá niður í krafti sovéskra vopna.

Í Homage to Catalonia (Virðingarvottur við Katalóníu, 1938) segir Orwell frá ævintýrum sínum í stríðinu, ósættinu við kommúnista og því þegar hann fékk byssuskot í hálsinn. Hann átti fótum fjör að launa frá Spáni, hundeltur af þeim sem hann hafði talið til vopnabræðra sinna og að eilífu fylltur vantrausti í garð Sovétríkjanna og fylgismanna þeirra.

Orwell gat ekki tekið þátt í seinni heimsstyrjöldinni vegna meiðslanna sem hann varð fyrir á Spáni, en nýtti tímann þess í stað til að skrifa þær tvær bækur sem áttu eftir að bera hróður hans hvað lengst, Dýrabæ og 1984. Sögurnar eiga það sameiginlegt að fjalla um Sovétríkin, og einkennast báðar af harðri gagnrýni og hárbeittri ádeilu.

Í Dýrabæ rekur Orwell sögu rússnesku byltingarinnar árið 1917 og forkólfa hennar, þeirra Leníns, Trotskýs og Stalíns. Sagan gerist á sveitabænum Manor Farm þar sem dýrin styðja svínin í uppreisn gegn hinum eigingjarna, lata og harðráða bónda Hr. Jones. Það er gölturinn Gamli majór (Lenín) sem kveikir upphafið að byltingunni, en svínin Napóleon (Stalín) og Snowball (Trotský) fylgja henni eftir að honum látnum. Síðan fylgjumst við með því hvernig Napóleon svíkur félaga sinn Snowball og gerir hann brottrækan, tekur sér smám saman einræðisvald og verður að lokum alveg jafn mikill harðstjóri og bóndinn Hr. Jones hafði áður verið.

Hugsjónir byltingarinnar eru sviknar hver á fætur annarri og svínin njóta ein afrakstursins af vinnu hinna dýranna. Slagorðinu sem einu sinni var "Öll dýrin er jöfn" er breytt í "Öll dýrin eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur". Svínin verða á endanum svo úrkynjuð að þau taka að líkjast mönnum æ meir, fara að ganga á tveim fótum og gera bandalag við menn á næstu bæjum.

Í bókinni er aragrúi af samsvörunum við sögu Sovétríkjanna, má þar nefna friðarsáttmálann við Hitler (bóndi á næsta bæ í sögunni) og hvernig Trotský (Snowball) var gerður að erkióvini og blóraböggli fyrir allt sem aflaga fór.

Sú neikvæða mynd sem Orwell dró upp af Sovétríkjunum í Dýrabæ þótti svo róttæk að útgefendur höfnuðu henni hver á fætur öðrum. Victor Gollancz, sem hafði lengi gefið út bækur Orwells, var sovéthollur og vildi ekki sjá þennan gagnrýna boðskap. Skáldinu T.S. Eliot, sem þá starfaði hjá útgáfufyrirtækinu Faber & Faber, líkaði bókin en guggnaði á að bera ábyrgð á hinum vægðarlausa pólitíska boðskap. Samskonar viðbragða gætti hjá bandarískum útgefendum; þeir vildu ekki styggja Sovétmenn enda voru þeir mikilvægir bandamenn gegn Þýskalandi í stríðinu. Bókin kom þó loks út árið 1945, hlaut meiri vinsældir en nokkur bók Orwells fram að því og gerði þetta honum kleift að snúa sér alfarið að eigin skrifum, en hann hafði þá um nokkurt skeið haft blaðamennsku og bókagagnrýni sem aðalstarf. Afrakstur þessa var skáldsagan 1984, sem vafalaust má telja stórvirkið á höfundarferli Georges Orwell. Hún kom út árið 1949, ári áður en hann lést úr berklum, einungis 47 ára.

George Orwell var einna fyrstur málsmetandi manna í bókmenntaheiminum til að viðra gagnrýni á Sovétríkin, en meðal starfsbræðra hans og skoðanabræðra voru vitaskuld margir sem héldu uppi vörnum fyrir þau. Orwell var maður sem hélt tryggð við hugsjónir sínar og lét ekki óskhyggju eða flokkshollustu koma í veg fyrir að hann sæi sannleikann, sannleika sem tók að minnsta kosti tvo áratugi í viðbót að verða almenn skoðun á Vesturlöndum.

Heimildir og frekara lesefni

George Orwell, Dýrabær. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1985.

Ágæt heimasíða um George Orwell

Fyrir þá sem vilja fræðast um baráttuna milli kommúnista og óháðra sósíalista í spænsku borgarastyrjöldinni er áhugavert að skoða kvikmyndina Land og frelsi (e. Land and Freedom) eftir Ken Loach frá 1995. Handritið er lauslega byggt á bók Orwells, Homage to Catalonia.

Hér er tengill í skáldsöguna Animal Farm á ensku í boði YGGDRASIL'S LIBRARY.

Mynd af Dýrabæ:
IMDB - Internet Movie Database

Höfundur

heimspekinemi við HÍ

Útgáfudagur

6.12.2001

Spyrjandi

Una Sighvatsdóttir, f. 1985

Tilvísun

Viðar Þorsteinsson. „Hver var hugsun George Orwells á bak við skáldsöguna Dýrabæ?“ Vísindavefurinn, 6. desember 2001. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1995.

Viðar Þorsteinsson. (2001, 6. desember). Hver var hugsun George Orwells á bak við skáldsöguna Dýrabæ? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1995

Viðar Þorsteinsson. „Hver var hugsun George Orwells á bak við skáldsöguna Dýrabæ?“ Vísindavefurinn. 6. des. 2001. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1995>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var hugsun George Orwells á bak við skáldsöguna Dýrabæ?
Enska rithöfundinum George Orwell (1903-1950, fæddur Eric Blair) var svo ákaflega uppsigað við óréttlæti heimsins að hann gerði skrif pólitískra ádeiluverka að hugsjón sinni. Fyrstu bækur hans frá fjórða áratug 20. aldar voru í samræmi við þá hugsjón. Bókin Down and Out in Paris and London (Utan garðs í París og London, 1933) segir frá kjörum fátæklinga í London og París og skáldsagan Burmese Days (Dagar í Búrma, 1934) er um ungan Englendingi í Búrma og samviskukvalir hans vegna kúgunarinnar sem landar hans beita innfædda. Eigin reynsla Orwells stóð honum snemma nærri í skrifum hans; hann lagðist út meðal fátæklinga til að safna efni í fyrrnefndu bókina, og í þeirri síðarnefndu byggði hann á reynslu sinni af störfum í lögreglusveitum Breta í Búrma.

Rætur skáldsögunnar Dýrabær (e. Animal Farm) má rekja til þess að vorið 1937 hélt hann til Spánar að berjast með lýðveldissinnum gegn herjum Francos í spænska borgarastríðinu. Orwell var þar í hópi sósíalista frá öllum heimshornum sem litu á Spán sem vígvöll fasisma og sósíalisma. Tilviljun réði því að Orwell gekk til liðs við litla hersveit óháðra sósíalista frekar en hina öflugu hersveit kommúnista, en þessar fylkingar börðust framan af hlið við hlið. En eftir að kommúnistar tóku að ofsækja þá lýðveldissinna sem ekki vildu alfarið fylgja hugmyndafræði þeirra skildu leiðir með þeim og Orwell. Hann skildi ekki hvers vegna kommúnistar lögðust gegn anarkistum og óháðum sósíalistum -- sem hvort tveggja voru öflugar hreyfingar meðal spænskrar alþýðu -- og fylltist viðbjóði af að horfa upp á hvernig þeir ofsóttu þessa hópa og börðu þá niður í krafti sovéskra vopna.

Í Homage to Catalonia (Virðingarvottur við Katalóníu, 1938) segir Orwell frá ævintýrum sínum í stríðinu, ósættinu við kommúnista og því þegar hann fékk byssuskot í hálsinn. Hann átti fótum fjör að launa frá Spáni, hundeltur af þeim sem hann hafði talið til vopnabræðra sinna og að eilífu fylltur vantrausti í garð Sovétríkjanna og fylgismanna þeirra.

Orwell gat ekki tekið þátt í seinni heimsstyrjöldinni vegna meiðslanna sem hann varð fyrir á Spáni, en nýtti tímann þess í stað til að skrifa þær tvær bækur sem áttu eftir að bera hróður hans hvað lengst, Dýrabæ og 1984. Sögurnar eiga það sameiginlegt að fjalla um Sovétríkin, og einkennast báðar af harðri gagnrýni og hárbeittri ádeilu.

Í Dýrabæ rekur Orwell sögu rússnesku byltingarinnar árið 1917 og forkólfa hennar, þeirra Leníns, Trotskýs og Stalíns. Sagan gerist á sveitabænum Manor Farm þar sem dýrin styðja svínin í uppreisn gegn hinum eigingjarna, lata og harðráða bónda Hr. Jones. Það er gölturinn Gamli majór (Lenín) sem kveikir upphafið að byltingunni, en svínin Napóleon (Stalín) og Snowball (Trotský) fylgja henni eftir að honum látnum. Síðan fylgjumst við með því hvernig Napóleon svíkur félaga sinn Snowball og gerir hann brottrækan, tekur sér smám saman einræðisvald og verður að lokum alveg jafn mikill harðstjóri og bóndinn Hr. Jones hafði áður verið.

Hugsjónir byltingarinnar eru sviknar hver á fætur annarri og svínin njóta ein afrakstursins af vinnu hinna dýranna. Slagorðinu sem einu sinni var "Öll dýrin er jöfn" er breytt í "Öll dýrin eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur". Svínin verða á endanum svo úrkynjuð að þau taka að líkjast mönnum æ meir, fara að ganga á tveim fótum og gera bandalag við menn á næstu bæjum.

Í bókinni er aragrúi af samsvörunum við sögu Sovétríkjanna, má þar nefna friðarsáttmálann við Hitler (bóndi á næsta bæ í sögunni) og hvernig Trotský (Snowball) var gerður að erkióvini og blóraböggli fyrir allt sem aflaga fór.

Sú neikvæða mynd sem Orwell dró upp af Sovétríkjunum í Dýrabæ þótti svo róttæk að útgefendur höfnuðu henni hver á fætur öðrum. Victor Gollancz, sem hafði lengi gefið út bækur Orwells, var sovéthollur og vildi ekki sjá þennan gagnrýna boðskap. Skáldinu T.S. Eliot, sem þá starfaði hjá útgáfufyrirtækinu Faber & Faber, líkaði bókin en guggnaði á að bera ábyrgð á hinum vægðarlausa pólitíska boðskap. Samskonar viðbragða gætti hjá bandarískum útgefendum; þeir vildu ekki styggja Sovétmenn enda voru þeir mikilvægir bandamenn gegn Þýskalandi í stríðinu. Bókin kom þó loks út árið 1945, hlaut meiri vinsældir en nokkur bók Orwells fram að því og gerði þetta honum kleift að snúa sér alfarið að eigin skrifum, en hann hafði þá um nokkurt skeið haft blaðamennsku og bókagagnrýni sem aðalstarf. Afrakstur þessa var skáldsagan 1984, sem vafalaust má telja stórvirkið á höfundarferli Georges Orwell. Hún kom út árið 1949, ári áður en hann lést úr berklum, einungis 47 ára.

George Orwell var einna fyrstur málsmetandi manna í bókmenntaheiminum til að viðra gagnrýni á Sovétríkin, en meðal starfsbræðra hans og skoðanabræðra voru vitaskuld margir sem héldu uppi vörnum fyrir þau. Orwell var maður sem hélt tryggð við hugsjónir sínar og lét ekki óskhyggju eða flokkshollustu koma í veg fyrir að hann sæi sannleikann, sannleika sem tók að minnsta kosti tvo áratugi í viðbót að verða almenn skoðun á Vesturlöndum.

Heimildir og frekara lesefni

George Orwell, Dýrabær. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1985.

Ágæt heimasíða um George Orwell

Fyrir þá sem vilja fræðast um baráttuna milli kommúnista og óháðra sósíalista í spænsku borgarastyrjöldinni er áhugavert að skoða kvikmyndina Land og frelsi (e. Land and Freedom) eftir Ken Loach frá 1995. Handritið er lauslega byggt á bók Orwells, Homage to Catalonia.

Hér er tengill í skáldsöguna Animal Farm á ensku í boði YGGDRASIL'S LIBRARY.

Mynd af Dýrabæ:
IMDB - Internet Movie Database

...