Á jólanóttina var nærri alls staðar matreiddur (bygg)grjónagrautur úr mjólk og rúsínum út í og skammtaður fólkinu [...].Sumir tengdu jólasveininn Pottasleiki sérstaklega við jólagrautinn; hann færi til fjalla strax þegar hann væri búinn að sleikja jólagrautarpottinn og kæmi því fyrstur jólasveinanna.

Í byrjun tuttugustu aldar varð vanalegt að jólagrauturinn væri hafður úr hrísgrjónum sem þá voru orðin aðgengileg fyrir alþýðufólk, en höfðu áður verið fæða höfðingja. Í heimildum á þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands, sem eiga við fyrstu áratugi 20 aldar, kemur fram að víðast hvar var grauturinn á borðum á jólum en mismunandi hvort hann var etinn á aðfangadagskvöld eða jóladag. Á vestanverðu landinu var algengara að hann væri hafður á jóladag, ýmist í morgunmat eða sem eftirréttur á eftir miðdegismat. Á austanverðu landinu, einkum norðanmegin, var algengara að bera hann fram á aðfangadagskvöld og sá háttur vann á eftir því sem leið á 20. öld. Jafnframt komu til sögunnar möndlugjafir í tengslum við jólagrautinn en hvort tveggja kemur til okkar frá Danmörku. Mandla var sett í jólagrautinn og sá sem hana fann hlaut verðlaun eða gjöf að launum, venjulega sælgæti eða smáhlut. Eftir að hrísgrjónagrauturinn varð á allra færi varð riz à l'amande höfðingjaútgáfan af jólagrautnum og tók jafnframt víða við sem eftirréttur á aðfangadagskvöld á síðustu áratugum 20. aldar. Riz à l'amande er nafn á dönskum hrísgrjónabúðingi með möndlum sem mun ekki tengjast Frakklandi að öðru leyti en því að innihaldið er talið eiga uppruna sinn í möndlugjöfinni. Hún er aftur talin tengjast frönskum sið sem þekktur er frá miðöldum og felst í því að í samkvæmi daginn fyrir þrettánda borðuðu menn köku sem í var falin baun. Sá sem hana fann réði öllu í samkvæminu það sem eftir lifði kvölds. Hér má finna uppskriftina Jólagrautur mömmu af vefsetrinu Kjarnafæði Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvenær var slátur fyrst búið til á Íslandi? eftir Hallgerði Gísladóttur
- Hvenær hófu menn að brugga bjór? Var bjór bruggaður á Íslandi fyrr á öldum? eftir Hallgerði Gísladóttur
- Wikipedia.com. Sótt 9.8.2010.