Sólin Sólin Rís 08:23 • sest 18:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:16 • Síðdegis: 25:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:12 • Síðdegis: 18:26 í Reykjavík

Hvar er dauðarefsing leyfð? Hvers vegna er henni beitt? Fækkar hún glæpum?

Helgi Gunnlaugsson

Breski afbrotafræðingurinn Roger Hood er víðkunnur fyrir rannsóknir sínar á dauðarefsingum í alþjóðlegu ljósi. Samkvæmt nýlegri bók hans The Death Penalty: A World-Wide Perspective heimila alls um 90 ríki dauðarefsingar og hafa flest þeirra beitt þeim á síðustu árum. Til viðbótar nefnir hann 30 ríki sem heimila dauðarefsingar en hafa ekki nýtt sér þessa heimild í að minnsta kosti 10 ár þar á undan.

Afar fá ríki Vesturlanda eru á meðal þeirra ríkja sem heimila dauðarefsingar; aðeins Bandaríkin eru í fyrrnefnda hópnum og Belgía í þeim síðarnefnda. Fjölmörg ríki í Asíu eins og Kína og Japan beita dauðarefsingum, svo og mörg ríki Mið-Austurlanda eins og Sádí-Arabía, Kúveit og Túnis. Einnig má nefna ríki í Afríku eins og Nígeríu, Súdan og Úganda, svo og fjölmörg ríki í Austur-Evrópu, til dæmis Rússland, Búlgaríu og Júgóslavíu, sem bæði heimila dauðarefsingar og beita þeim.

Ýmis rök hafa verið færð fyrir beitingu dauðarefsinga. Svokölluð gjaldastefna felur í sér að refsingar eigi að vera í samræmi við alvarleika afbrotsins. Í því ljósi kann dauðarefsing að teljast réttlætanleg fyrir til dæmis morð eða manndráp af ásetningi. Önnur rök eru að heimild til dauðarefsinga fæli borgarana frá því að fremja alvarlega glæpi og að þær gegni því mikilvægu hlutverki í að draga úr alvarlegum afbrotum. Fjölmargir fræðimenn hafa einmitt rannsakað þennan tilgang dauðarefsinga á síðustu áratugum.

Rannsóknir sýna yfirleitt ekki marktækt samband milli dauðarefsinga og morðtíðni; upptaka eða afnám dauðarefsinga virðist ekki hafa marktæk áhrif á tíðni morða í tilteknu landi, hvorki til fækkunar né fjölgunar. Þó er til ein fræg undantekning sem stuðningsmenn dauðarefsinga vitna jafnan í. Bandaríski hagfræðingurinn Isaac Ehrlich taldi sig komast að því árið 1975 á grundvelli gagna um tíðni morða og beitingu dauðarefsinga, að sérhver aftaka bjargi að minnsta kosti 7 til 8 mönnum frá því að verða fórnarlamb morðingja.

Ehrlich tók þó ekki nægilegt tillit til lýðfræðilegra breytinga í bandarísku samfélagi og nýrri rannsóknir virðast hrekja niðurstöður hans og styðja fyrri rannsóknir. Dauðarefsing virðist með öðrum orðum ekki hafa meiri fælingu í för með sér en lífstíðarfangelsi sem aðferð samfélagsins til að draga úr voðaverkum af þessu tagi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lengi haft það á stefnuskrá sinni að afnema dauðarefsingar í aðildarríkjum sínum og sömuleiðis hafa mannréttindasamtökin Amnesty International barist fyrir afnámi þeirra. Heldur hefur dregið úr fjölda þeirra ríkja sem beita dauðarefsingum á síðustu árum en fjöldi aftaka í heiminum hefur þó ekki minnkað að sama skapi. Árið 1998 voru aftökur í heiminum um tvö þúsund og áttu um 70 prósent þeirra sér stað í Kína.

Síðasta aftakan á Íslandi fór fram árið 1830 þegar Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru tekin af lífi fyrir morðið á Nathani Ketilssyni bónda og Pétri Jónssyni. Heimild til dauðarefsingar var afnumin úr lögum um öld síðar eða árið 1928.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Helgi Gunnlaugsson

prófessor í félagsfræði við HÍ

Útgáfudagur

7.12.2001

Spyrjandi

Íris Ósk Ólafsdóttir
Eva Lind Jónsdóttir

Tilvísun

Helgi Gunnlaugsson. „Hvar er dauðarefsing leyfð? Hvers vegna er henni beitt? Fækkar hún glæpum?“ Vísindavefurinn, 7. desember 2001. Sótt 4. mars 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1999.

Helgi Gunnlaugsson. (2001, 7. desember). Hvar er dauðarefsing leyfð? Hvers vegna er henni beitt? Fækkar hún glæpum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1999

Helgi Gunnlaugsson. „Hvar er dauðarefsing leyfð? Hvers vegna er henni beitt? Fækkar hún glæpum?“ Vísindavefurinn. 7. des. 2001. Vefsíða. 4. mar. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1999>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar er dauðarefsing leyfð? Hvers vegna er henni beitt? Fækkar hún glæpum?
Breski afbrotafræðingurinn Roger Hood er víðkunnur fyrir rannsóknir sínar á dauðarefsingum í alþjóðlegu ljósi. Samkvæmt nýlegri bók hans The Death Penalty: A World-Wide Perspective heimila alls um 90 ríki dauðarefsingar og hafa flest þeirra beitt þeim á síðustu árum. Til viðbótar nefnir hann 30 ríki sem heimila dauðarefsingar en hafa ekki nýtt sér þessa heimild í að minnsta kosti 10 ár þar á undan.

Afar fá ríki Vesturlanda eru á meðal þeirra ríkja sem heimila dauðarefsingar; aðeins Bandaríkin eru í fyrrnefnda hópnum og Belgía í þeim síðarnefnda. Fjölmörg ríki í Asíu eins og Kína og Japan beita dauðarefsingum, svo og mörg ríki Mið-Austurlanda eins og Sádí-Arabía, Kúveit og Túnis. Einnig má nefna ríki í Afríku eins og Nígeríu, Súdan og Úganda, svo og fjölmörg ríki í Austur-Evrópu, til dæmis Rússland, Búlgaríu og Júgóslavíu, sem bæði heimila dauðarefsingar og beita þeim.

Ýmis rök hafa verið færð fyrir beitingu dauðarefsinga. Svokölluð gjaldastefna felur í sér að refsingar eigi að vera í samræmi við alvarleika afbrotsins. Í því ljósi kann dauðarefsing að teljast réttlætanleg fyrir til dæmis morð eða manndráp af ásetningi. Önnur rök eru að heimild til dauðarefsinga fæli borgarana frá því að fremja alvarlega glæpi og að þær gegni því mikilvægu hlutverki í að draga úr alvarlegum afbrotum. Fjölmargir fræðimenn hafa einmitt rannsakað þennan tilgang dauðarefsinga á síðustu áratugum.

Rannsóknir sýna yfirleitt ekki marktækt samband milli dauðarefsinga og morðtíðni; upptaka eða afnám dauðarefsinga virðist ekki hafa marktæk áhrif á tíðni morða í tilteknu landi, hvorki til fækkunar né fjölgunar. Þó er til ein fræg undantekning sem stuðningsmenn dauðarefsinga vitna jafnan í. Bandaríski hagfræðingurinn Isaac Ehrlich taldi sig komast að því árið 1975 á grundvelli gagna um tíðni morða og beitingu dauðarefsinga, að sérhver aftaka bjargi að minnsta kosti 7 til 8 mönnum frá því að verða fórnarlamb morðingja.

Ehrlich tók þó ekki nægilegt tillit til lýðfræðilegra breytinga í bandarísku samfélagi og nýrri rannsóknir virðast hrekja niðurstöður hans og styðja fyrri rannsóknir. Dauðarefsing virðist með öðrum orðum ekki hafa meiri fælingu í för með sér en lífstíðarfangelsi sem aðferð samfélagsins til að draga úr voðaverkum af þessu tagi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lengi haft það á stefnuskrá sinni að afnema dauðarefsingar í aðildarríkjum sínum og sömuleiðis hafa mannréttindasamtökin Amnesty International barist fyrir afnámi þeirra. Heldur hefur dregið úr fjölda þeirra ríkja sem beita dauðarefsingum á síðustu árum en fjöldi aftaka í heiminum hefur þó ekki minnkað að sama skapi. Árið 1998 voru aftökur í heiminum um tvö þúsund og áttu um 70 prósent þeirra sér stað í Kína.

Síðasta aftakan á Íslandi fór fram árið 1830 þegar Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru tekin af lífi fyrir morðið á Nathani Ketilssyni bónda og Pétri Jónssyni. Heimild til dauðarefsingar var afnumin úr lögum um öld síðar eða árið 1928.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...