Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver var Mídas konungur?

Sigríður Lóa Björnsdóttir og Vignir Már Lýðsson

Í grískri goðafræði var Mídas konungur í Frýgíu í Anatólíu eða Litlu-Asíu þar sem Tyrkland er nú. Til eru margar sögur af honum en frægust þeirra er sú sem segir frá því hvernig Mídas öðlaðist þann eiginleika að geta breytt öllu því í gull sem hann snerti. Það atvikaðist þannig að dag einn uppgötvaði Díonýsos sem var guð vínsins að einn af satýrunum hans var horfinn. Satýrar voru fylgimenn bæði Díonýsosar og skógarpúkans Pans.



Endurgerð af grafhýsi Mídasar konungs á safni í Ankara í Tyrklandi.

Satýrinn sem hafði týnst hét Sílenos og var hann fósturfaðir Díonýsosar. Í ölvímu hafði Sílenos ráfað út í buskann og endað að lokum í höll Mídasar. Þar skemmtu Mídas og Sílenos hvor öðrum í tíu daga en á ellefta degi skilaði Mídas Sílenosi heim til Lýdíu þar sem hann bjó.

Þar urðu fagnaðarfundir með Sílenosi og Díonýsosi. Sá hinn síðarnefndi réð sér varla fyrir kæti og hét Mídasi einni ósk. Hann óskaði sér þá að allt sem hann snerti yrði að gulli og rættist óskin. Þegar hann kom heim var hann svo kátur að hann faðmaði dóttur sína í ógáti en hún breyttist samstundis í gull. Mídas komst þess vegna fljótt að því að óskin var honum ekki til heill. Allt sem hann snerti breyttist í gull, líka matur og drykkur.

Mídas hafði þess vegna ekki önnur úrræði en að grátbiðja Díonýsos um að taka aftur óskina svo að hann dæi ekki úr hungri og þorsta. Hann tók það til greina og sagði Mídasi að baða sig í ánni Paktólos í Lýdíu. Sagan segir að sandurinn í ánni hafi þá breyst í gull.

Til er önnur saga af Mídasi þar sem hann er dómari í tónlistarkeppni Apollós og Pans. Mídasi fannst flautuleikur Pans betri en lýruleikur Apollós og breytti Apolló þá eyrum Mídasar í asnaeyru. Mídas gat falið þetta leyndarmál fyrir öllum nema rakaranum sínum en honum var stranglega bannað að segja nokkrum manni frá eyrunum. Rakarinn stóðst ekki freistinguna og segir sagan að hann hafi grafið holu í engi, hvíslað söguna um asnaeyru Mídasar ofan í hana og grafið svo yfir. Síðar uxu plöntur þar upp af sem hvísluðu í vindinn svo að barst um ríkið: „Mídas konungur er með asnaeyru.“

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:


Þetta svar er að hluta eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2008.

Höfundar

nemandi í Háskóla unga fólksins

Útgáfudagur

20.6.2008

Spyrjandi

Kristbjörg Björnsdóttir

Tilvísun

Sigríður Lóa Björnsdóttir og Vignir Már Lýðsson. „Hver var Mídas konungur?“ Vísindavefurinn, 20. júní 2008. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=20015.

Sigríður Lóa Björnsdóttir og Vignir Már Lýðsson. (2008, 20. júní). Hver var Mídas konungur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=20015

Sigríður Lóa Björnsdóttir og Vignir Már Lýðsson. „Hver var Mídas konungur?“ Vísindavefurinn. 20. jún. 2008. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=20015>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Mídas konungur?
Í grískri goðafræði var Mídas konungur í Frýgíu í Anatólíu eða Litlu-Asíu þar sem Tyrkland er nú. Til eru margar sögur af honum en frægust þeirra er sú sem segir frá því hvernig Mídas öðlaðist þann eiginleika að geta breytt öllu því í gull sem hann snerti. Það atvikaðist þannig að dag einn uppgötvaði Díonýsos sem var guð vínsins að einn af satýrunum hans var horfinn. Satýrar voru fylgimenn bæði Díonýsosar og skógarpúkans Pans.



Endurgerð af grafhýsi Mídasar konungs á safni í Ankara í Tyrklandi.

Satýrinn sem hafði týnst hét Sílenos og var hann fósturfaðir Díonýsosar. Í ölvímu hafði Sílenos ráfað út í buskann og endað að lokum í höll Mídasar. Þar skemmtu Mídas og Sílenos hvor öðrum í tíu daga en á ellefta degi skilaði Mídas Sílenosi heim til Lýdíu þar sem hann bjó.

Þar urðu fagnaðarfundir með Sílenosi og Díonýsosi. Sá hinn síðarnefndi réð sér varla fyrir kæti og hét Mídasi einni ósk. Hann óskaði sér þá að allt sem hann snerti yrði að gulli og rættist óskin. Þegar hann kom heim var hann svo kátur að hann faðmaði dóttur sína í ógáti en hún breyttist samstundis í gull. Mídas komst þess vegna fljótt að því að óskin var honum ekki til heill. Allt sem hann snerti breyttist í gull, líka matur og drykkur.

Mídas hafði þess vegna ekki önnur úrræði en að grátbiðja Díonýsos um að taka aftur óskina svo að hann dæi ekki úr hungri og þorsta. Hann tók það til greina og sagði Mídasi að baða sig í ánni Paktólos í Lýdíu. Sagan segir að sandurinn í ánni hafi þá breyst í gull.

Til er önnur saga af Mídasi þar sem hann er dómari í tónlistarkeppni Apollós og Pans. Mídasi fannst flautuleikur Pans betri en lýruleikur Apollós og breytti Apolló þá eyrum Mídasar í asnaeyru. Mídas gat falið þetta leyndarmál fyrir öllum nema rakaranum sínum en honum var stranglega bannað að segja nokkrum manni frá eyrunum. Rakarinn stóðst ekki freistinguna og segir sagan að hann hafi grafið holu í engi, hvíslað söguna um asnaeyru Mídasar ofan í hana og grafið svo yfir. Síðar uxu plöntur þar upp af sem hvísluðu í vindinn svo að barst um ríkið: „Mídas konungur er með asnaeyru.“

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:


Þetta svar er að hluta eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2008....