Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er absúrdismi?

Benedikt Hjartarson

Heitið absúrdismi er dregið af latneska lýsingarorðinu absurdus og skírskotar til þess sem talið er fjarstæðukennt eða fáránlegt, en algengt er að absúrdismi sé kenndur við fáránleika á íslensku. Hugtakið er komið úr umræðum um nútímabókmenntir og heimspeki og lýsir afstöðu mannsins til heimsins eftir að trúarleg og heimspekileg kenningakerfi fortíðarinnar virðast fallin úr gildi. Er þá jafnan lögð áhersla á að maðurinn sé orðinn ófær um að finna nokkra merkingu í lífi sínu og þeirri framandi veröld sem hann er staddur í. Absúrdismi einkennist þó ekki aðeins af angist frammi fyrir tilgangsleysi eða ´fáránleika´ lífsins, heldur felur hann oft í sér jákvætt viðbragð þar sem talið er að uppræting hinna fastmótuðu merkingarkerfa gefi manninum færi á að takast á við eigin tilvist á sjálfstæðan hátt og ljá umhverfi sínu og lífi inntak.

Upptök absúrdisma í bókmenntum eru oft rakin til leikritsins Bubba kóngs eða Ubu roi eftir franska rithöfundinn Alfred Jarry, frá árinu 1896. Verk í anda absúrdisma sækja jafnframt margvíslegar hugmyndir og aðferðir í gagnrýni evrópskra framúrstefnuhreyfinga frá fyrstu áratugum 20. aldar (svo sem expressjónisma, dadaisma og súrrealisma) á hefðbundnar borgaralegar bókmenntir. Þau tengsl grundvallast á þeirri trú að til að unnt sé að miðla fáránleika tilverunnar verði að hafna hverskyns hefðbundnum og röklegum listrænum tjáningarformum.

Blómatími absúrdisma í bókmenntum er gjarnan markaður við fimmta og sjötta áratug 20. aldar, þegar heimspekingar og listamenn taka að skapa ný hugmyndakerfi og frásagnaraðferðir úr rústum þeirrar heimsmyndar sem talin var hafa liðið undir lok með heimsstyrjöldinni síðari. Heimspekilegar forsendur slíkra hugmynda höfðu þó verið settar fram nokkru fyrr, einkum í ritum tilvistarheimspekinganna eða existensjalistanna og rithöfundanna Jeans-Pauls Sartre og Alberts Camus undir lok fjórða áratugar 20. aldar og í upphafi þess fimmta. Á það jafnt við heimspekileg rit þeirra og fjölda bókmenntaverka þar sem þeir unnu úr hugmyndum sínum.

Absúrdismi í bókmenntum er þó jafnan talinn hafa komið fram með áhrifaríkustum hætti innan leiklistar og á það einkum við verk nokkurra leikritaskálda frá sjötta áratugnum sem kennd hafa verið við absúrdleikhús eða leikhús fáránleikans. Verk umræddra höfunda, en hinir þekktustu úr þeirra hópi eru Eugène Ionesco, Jean Genet, Harold Pinter og Samuel Beckett, einkennast af skýrri viðleitni til að lýsa fáránleika þess nútímalega lífs sem svipt hefur verið öllu trúarlegu og frumspekilegu inntaki. Hér er hverskyns raunsæislegum sviðsmyndum hafnað til að undirstrika tómleika tilverunnar og allt röklegt samhengi innan atburðarásarinnar er leyst upp. Lýsing fáránleikans getur jafnvel leitt til þess að tungumálinu sé sundrað niður í frumeindir uns aðeins standa eftir stök orð eða hljóð slitin úr öllu samhengi, líkt og í verkum Eugéne Ionesco.

Þekktasta verk ´absúrdleikhússins´ er án efa Beðið eftir Godot eða En attendant Godot eftir írska rithöfundinn Samuel Beckett, frá árinu 1955, en það lýsir í senn á ærslakenndan og angistarfullan hátt bið tveggja persóna eftir persónu sem aldrei birtist.

Af verkum íslenskra leikritaskálda þar sem sýnt þykir að gæti áhrifa absúrdisma má nefna verk Odds Björnssonar og Erlings E. Halldórssonar.

Sjá einnig svar Kristjáns Árnasonar um muninn á milli dadaisma, absúrdisma og súrrealisma

Nokkrar heimildir um ´absúrdisma´:

- Albert Camus. Le Mythe de Sisyphe. Éditions Gallimard, 1942.

- Martin Esslin. The Theatre of the Absurd. Penguin Books, 3. útg., 1983.

- M. H. Abrams. ?Literature of the Absurd?. A Glossary of Literary Terms. Harcourt Brace College Publishers. Fort Worth, 6. útg., 1993, S. 1-2.

- Franz Norbert Mennemeier. ?Absurdes Theater?. Dieter Borchmeyer og Viktor ?mega? (ritstj.). Moderne Literatur in Grundbegriffen. Max Niemeyer Verlag. Tübingen, 1994, S. 15-21.

- Gert Mattenklott. ?Die Existenz und das Absurde. Sartre, Camus, Beckett?. Rolf Grimminger og Jurij Mura?ov (ritstj.). Literarische Moderne. Europäische Literatur im 19. und 20. Jahrhundert. Rowohlt Taschenbuch Verlag. Reinbek bei Hamburg, 1995, S. 524-555.



Mynd af dreka: Bob's Place at North Carolina State University

Myndir: Albert Camus, Alfred Jarre og Samuel Becket frá Moonstruck Drama Bookstore

Höfundur

aðjúnkt í almennri bókmenntafræði við HÍ

Útgáfudagur

7.1.2002

Spyrjandi

Guðlaug Hólmsteinsdóttir
Eva Gunnarsdóttir

Efnisorð

Tilvísun

Benedikt Hjartarson. „Hvað er absúrdismi?“ Vísindavefurinn, 7. janúar 2002, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2033.

Benedikt Hjartarson. (2002, 7. janúar). Hvað er absúrdismi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2033

Benedikt Hjartarson. „Hvað er absúrdismi?“ Vísindavefurinn. 7. jan. 2002. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2033>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er absúrdismi?
Heitið absúrdismi er dregið af latneska lýsingarorðinu absurdus og skírskotar til þess sem talið er fjarstæðukennt eða fáránlegt, en algengt er að absúrdismi sé kenndur við fáránleika á íslensku. Hugtakið er komið úr umræðum um nútímabókmenntir og heimspeki og lýsir afstöðu mannsins til heimsins eftir að trúarleg og heimspekileg kenningakerfi fortíðarinnar virðast fallin úr gildi. Er þá jafnan lögð áhersla á að maðurinn sé orðinn ófær um að finna nokkra merkingu í lífi sínu og þeirri framandi veröld sem hann er staddur í. Absúrdismi einkennist þó ekki aðeins af angist frammi fyrir tilgangsleysi eða ´fáránleika´ lífsins, heldur felur hann oft í sér jákvætt viðbragð þar sem talið er að uppræting hinna fastmótuðu merkingarkerfa gefi manninum færi á að takast á við eigin tilvist á sjálfstæðan hátt og ljá umhverfi sínu og lífi inntak.

Upptök absúrdisma í bókmenntum eru oft rakin til leikritsins Bubba kóngs eða Ubu roi eftir franska rithöfundinn Alfred Jarry, frá árinu 1896. Verk í anda absúrdisma sækja jafnframt margvíslegar hugmyndir og aðferðir í gagnrýni evrópskra framúrstefnuhreyfinga frá fyrstu áratugum 20. aldar (svo sem expressjónisma, dadaisma og súrrealisma) á hefðbundnar borgaralegar bókmenntir. Þau tengsl grundvallast á þeirri trú að til að unnt sé að miðla fáránleika tilverunnar verði að hafna hverskyns hefðbundnum og röklegum listrænum tjáningarformum.

Blómatími absúrdisma í bókmenntum er gjarnan markaður við fimmta og sjötta áratug 20. aldar, þegar heimspekingar og listamenn taka að skapa ný hugmyndakerfi og frásagnaraðferðir úr rústum þeirrar heimsmyndar sem talin var hafa liðið undir lok með heimsstyrjöldinni síðari. Heimspekilegar forsendur slíkra hugmynda höfðu þó verið settar fram nokkru fyrr, einkum í ritum tilvistarheimspekinganna eða existensjalistanna og rithöfundanna Jeans-Pauls Sartre og Alberts Camus undir lok fjórða áratugar 20. aldar og í upphafi þess fimmta. Á það jafnt við heimspekileg rit þeirra og fjölda bókmenntaverka þar sem þeir unnu úr hugmyndum sínum.

Absúrdismi í bókmenntum er þó jafnan talinn hafa komið fram með áhrifaríkustum hætti innan leiklistar og á það einkum við verk nokkurra leikritaskálda frá sjötta áratugnum sem kennd hafa verið við absúrdleikhús eða leikhús fáránleikans. Verk umræddra höfunda, en hinir þekktustu úr þeirra hópi eru Eugène Ionesco, Jean Genet, Harold Pinter og Samuel Beckett, einkennast af skýrri viðleitni til að lýsa fáránleika þess nútímalega lífs sem svipt hefur verið öllu trúarlegu og frumspekilegu inntaki. Hér er hverskyns raunsæislegum sviðsmyndum hafnað til að undirstrika tómleika tilverunnar og allt röklegt samhengi innan atburðarásarinnar er leyst upp. Lýsing fáránleikans getur jafnvel leitt til þess að tungumálinu sé sundrað niður í frumeindir uns aðeins standa eftir stök orð eða hljóð slitin úr öllu samhengi, líkt og í verkum Eugéne Ionesco.

Þekktasta verk ´absúrdleikhússins´ er án efa Beðið eftir Godot eða En attendant Godot eftir írska rithöfundinn Samuel Beckett, frá árinu 1955, en það lýsir í senn á ærslakenndan og angistarfullan hátt bið tveggja persóna eftir persónu sem aldrei birtist.

Af verkum íslenskra leikritaskálda þar sem sýnt þykir að gæti áhrifa absúrdisma má nefna verk Odds Björnssonar og Erlings E. Halldórssonar.

Sjá einnig svar Kristjáns Árnasonar um muninn á milli dadaisma, absúrdisma og súrrealisma

Nokkrar heimildir um ´absúrdisma´:

- Albert Camus. Le Mythe de Sisyphe. Éditions Gallimard, 1942.

- Martin Esslin. The Theatre of the Absurd. Penguin Books, 3. útg., 1983.

- M. H. Abrams. ?Literature of the Absurd?. A Glossary of Literary Terms. Harcourt Brace College Publishers. Fort Worth, 6. útg., 1993, S. 1-2.

- Franz Norbert Mennemeier. ?Absurdes Theater?. Dieter Borchmeyer og Viktor ?mega? (ritstj.). Moderne Literatur in Grundbegriffen. Max Niemeyer Verlag. Tübingen, 1994, S. 15-21.

- Gert Mattenklott. ?Die Existenz und das Absurde. Sartre, Camus, Beckett?. Rolf Grimminger og Jurij Mura?ov (ritstj.). Literarische Moderne. Europäische Literatur im 19. und 20. Jahrhundert. Rowohlt Taschenbuch Verlag. Reinbek bei Hamburg, 1995, S. 524-555.



Mynd af dreka: Bob's Place at North Carolina State University

Myndir: Albert Camus, Alfred Jarre og Samuel Becket frá Moonstruck Drama Bookstore...