Sólin Sólin Rís 09:31 • sest 16:50 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:41 • Sest 19:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:36 • Síðdegis: 22:09 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:11 • Síðdegis: 16:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:31 • sest 16:50 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:41 • Sest 19:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:36 • Síðdegis: 22:09 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:11 • Síðdegis: 16:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju lenti Ódysseifur í öllum þessum ævintýrum á leiðinni heim frá Trójustríðinu?

Geir Þ. Þórarinsson

Í stuttu máli er það vegna afskipta guðanna. Í upphafi Ódysseifskviðu segir:
Sá maður þoldi á hafinu margar hugraunir, þá hann leitaði sjálfum sér lífs og heimkomu förunautum sínum. Og fékk hann þó ekki að heldur frelsað félaga sína, hvað feginn sem hann vildi, því þeir tortímdust sökum illverka sinna, er þeir fávísir átu naut Helíoss Hýperíons, sem þess vegna lét þá missa heimkomudagsins. (Ód. 1.4-9, þýð. Sveinbjarnar Egilssonar í endursk. útg. Svavars Hrafns Svavarssonar)

Þessar línur í upphafi kviðunnar gefa til kynna að hremmingar þeirra Ódysseifs og félaga hafi stafað af því að þeir brutu af sér gagnvart sólguðinum Helíosi Hýperíon þegar þeir átu naut hans. Hér eru þeir sagðir fávísir (nepioi) en þó höfðu þeir verið varaðir við, því að í tólfta þætti kviðunnar segir í endursögn Ódysseifs:
Þá setti ég þing og talaði í áheyrn allra: „Kæru vinir, með því matur og drykkur er til á hinu örskreiða skipi, þá leggjum ekki til þeirra nauta sem hér eru, að vér ekki komumst í neinn vanda; því máttugur er sá guð er á uxa þessa og hina feitu sauði; það er Helíos er allt sér og allt heyrir.“

Svo mælti ég og létu þeir sér þetta segjast. Í fullan mánuð blés í sífellu Nótos landsynningur og úr því komu ekki aðrir vindar en Evros austanvindur og Nótos landsynningur. Meðan þeir höfðu brauð og hið rauðleita vín, lögðu þeir ekki til nautanna, því þá langaði til að lifa. En er allar vistir voru upp gengnar á skipinu, þá neyddust þeir til að fara á veiðar… (Ód. 12.319-330, þýð. SE, endursk. útg. SHS)

Þannig var það hungrið og nauðin sem fékk félaga Ódysseifs til þess að hunsa fyrirmæli hans vísvitandi og slátra uxunum og éta þá þegar vistir þeirra voru búnar. Á meðan svaf Ódysseifur sætum svefni sem guðirnir létu yfir hann koma.


Ódysseifur og sírenurnar, málverk eftir Herbert James Draper (1863 – 1920).

En hremmingar þeirra hófust þó áður en þeir átu naut Helíoss. Hvers vegna lét Seifur vindana blása þannig að þeir kæmust ekki á haf út og vistirnar kláruðust? Og hvers vegna sendu guðirnir Ódysseifi sætan svefn svo að hann gæti ekki aftrað félögum sínum að hunsa fyrirmæli sín? Svarið er að Seifur var þeim þá þegar reiður. Í níunda þætti kviðunnar útskýrir Ódysseifur þrautir sínar fyrir Alkínóosi konungi. Þar segir:
Ég skal segja þér frá hinum mörgu mannraunum er Seifur lét mér að hendi bera á heimför minni frá Trójuborg.

Byrinn bar mig frá Ilíonsborg til Ísmarosborgar í Kíkónalandi; þar rændi ég borgina og drap borgarmennina. Tókum vér í borginni konur og mikinn fjárhlut og lögðum til hlutskiptis, svo allir bæru jafnan hlut úr býtum. Lagði ég þá það ráð til að vér skyldum flýja þaðan hröðum fæti, en menn mínir voru svo óforsjálir að þeir fóru ei að orðum mínum. Höfðu þeir miklar víndrykkjur og slátruðu á sjávarströndinni mörgum sauðum og vagandi, bjúghyrndum nautum. Á meðan fóru Kíkónar og kölluðu á aðra Kíkóna sem voru nábúar þeirra og bjuggu uppi í landinu; þeir voru bæði fjölmennari og harðfengari; var þeim jafntamt að berjast í fólkorustu á hervögnum sem á fæti, ef því var að skipta. Síðan komu þeir með morgunsárinu og voru ei færri en lauf það og blóm er þýtur upp á vortíma. Áttum vér vesælir menn þá fyrir hendi þann harðan skapadóm Seifs að vér skyldum komast í mikla raun. Þá þeir höfðu tekið sér stöðu, vöktu þeir bardaga hjá hinum örskreiðu skipum og skutust menn á eirslegnum spjótum. Meðan morgunn var og hinn himneski dagur fór vaxandi, stóðum vér fast fyrir og vörðumst þó liðsmunur væri. En er sól sveif að aklausnum, þá báru Kíkónar efri hlut og komu Akkeum á flótta. Þar létust sex brynhosaðir menn af hverju skipi, en vér sem eftir vorum runnum undan dauða og sköpum.

Vér héldum nú þaðan áleiðis, hryggir í huga af missi félaga vorra, og þó fjöri fegnir. En ekki lét ég fyrr leggja hinum borðrónu skipum frá landi en vér höfðum kallað þrisvar á sérhvern hinna vesælu félaga vorra er fallið höfðu fyrir Kíkónum á vígvellinum. Skýsafnarinn Seifur sendi nú norðanvindinn Bóreas á eftir skipunum með geysimiklu hreggi og huldi skýjum jafnt jörð sem haf; sveif þá náttmyrkur af himni ofan. Varð nú svo mikill skriður á skipunum að þau stungust á stafna, en ofviðrið svipti sundur seglunum í þrennt og fernt. Bjuggumst vér þá ei við öðru en bana vorum og hleyptum því seglunum niður í skipin og rerum þeim ákaflega til lands. Þar lágum vér tvær nætur og tvo daga samfleytt, dasaðir af erfiði og hugsjúkir af raunum vorum. En er hin fagurlokkaða morgungyðja hafði greitt fram þriðja daginn, reistum vér siglutrén og drógum upp hin hvítu segl, sátum svo kyrrir, en vindurinn og skipstjórnarmennirnir réðu stefnunni. Og mundi ég hafa komist heilu og höldnu heim í föðurland mitt, ef aldan og fallið og norðanvindurinn hefðu ei bægt mér frá landi, þá ég var að beita fyrir Maleiuhöfða, og hrakið mig afleiðis frá Kýþeru.

Þaðan hraktist ég í fárviðri níu daga yfir hið fiskisæla haf, en á tíunda degi stigum vér á land Lótusætnanna er lifa á blómfæðu. (Ód. 9.37-84, þýð. SE, endursk. útg. SHS).

Hér má segja að raunir þeirra Ódysseifs og félaga hafi hafist. Eftir að hafa komist svo að segja í augsýn við Íþöku hröktust þeir af leið og lentu í landi Lótusætanna. Lótusblómin sem Lótusæturnar lifðu á gerðu að verkum að þeir sem lögðu þau sér til munns gleymdu heimalandi sínu og Grikkirnir höfðu því enga löngun til þess að fara eftir að hafa fengið lótusblóm að éta hjá Lótusætunum. Þegar Ódysseifi hafði tekist með herkjum að fá menn sína til að fara lentu þeir á eyju Kýklópanna, þaðan sem þeir voru heppnir að sleppa. Næst lentu þeir hjá Ajólosi, Læstrýgónum og Kirku, sem breytti félögum Ódysseifs í svín. Þegar tekist hafði að sannfæra Kirku um að sleppa þeim sendi hún Ódysseif til undirheima til þess að ná tali af spámanninum Teiresíasi og ráðfæra sig við hann um hvernig ætti að haga heimförinni. Næst urður sírenurnar á vegi þeirra, svo Skylla og Karybdís en frá þeim komust þeir til Sikileyjar þar sem þeim varð á að éta naut Helíoss.

Þegar þeir komust loks af eyjunni sendi Seifur storm og laust skipið eldingu svo að allir féllu þeir útbyrðis en Ódysseif rak á fjörur Kalypsóar. Hjá Kalypsó dvaldi Ódysseifur í nokkur ár og komst ekki þaðan fyrr en Aþena bað Seif að senda Hermes til hennar og skipa henni að leyfa Ódysseifi að fara. Þá smíðaði Ódysseifur sér fleka en Póseidon sendi storm svo að Ódysseifur kastaðist af flekanum og rak á fjörur Fajaka þar sem hann fékk góðar viðtökur hjá Alkínóosi konungi og Aretu drottningu. Fajakar sigldu svo með hann heim til Íþöku og settu hann á land þar. Þar með var Ódysseifur kominn til heimalands síns á ný eftir um tuttugu ára fjarveru en átti þó enn eftir að koma málum í lag í höll sinni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Ítarefni:
  • Hómer, Ódysseifskviða. Sveinbjörn Egilsson (þýð.) Svavar Hrafn Svavarsson (endursk.) (Reykjavík: Bjartur, 2004).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

9.10.2009

Spyrjandi

Ásbjörn Þorsteinsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Af hverju lenti Ódysseifur í öllum þessum ævintýrum á leiðinni heim frá Trójustríðinu?“ Vísindavefurinn, 9. október 2009, sótt 7. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=20346.

Geir Þ. Þórarinsson. (2009, 9. október). Af hverju lenti Ódysseifur í öllum þessum ævintýrum á leiðinni heim frá Trójustríðinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=20346

Geir Þ. Þórarinsson. „Af hverju lenti Ódysseifur í öllum þessum ævintýrum á leiðinni heim frá Trójustríðinu?“ Vísindavefurinn. 9. okt. 2009. Vefsíða. 7. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=20346>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju lenti Ódysseifur í öllum þessum ævintýrum á leiðinni heim frá Trójustríðinu?
Í stuttu máli er það vegna afskipta guðanna. Í upphafi Ódysseifskviðu segir:

Sá maður þoldi á hafinu margar hugraunir, þá hann leitaði sjálfum sér lífs og heimkomu förunautum sínum. Og fékk hann þó ekki að heldur frelsað félaga sína, hvað feginn sem hann vildi, því þeir tortímdust sökum illverka sinna, er þeir fávísir átu naut Helíoss Hýperíons, sem þess vegna lét þá missa heimkomudagsins. (Ód. 1.4-9, þýð. Sveinbjarnar Egilssonar í endursk. útg. Svavars Hrafns Svavarssonar)

Þessar línur í upphafi kviðunnar gefa til kynna að hremmingar þeirra Ódysseifs og félaga hafi stafað af því að þeir brutu af sér gagnvart sólguðinum Helíosi Hýperíon þegar þeir átu naut hans. Hér eru þeir sagðir fávísir (nepioi) en þó höfðu þeir verið varaðir við, því að í tólfta þætti kviðunnar segir í endursögn Ódysseifs:
Þá setti ég þing og talaði í áheyrn allra: „Kæru vinir, með því matur og drykkur er til á hinu örskreiða skipi, þá leggjum ekki til þeirra nauta sem hér eru, að vér ekki komumst í neinn vanda; því máttugur er sá guð er á uxa þessa og hina feitu sauði; það er Helíos er allt sér og allt heyrir.“

Svo mælti ég og létu þeir sér þetta segjast. Í fullan mánuð blés í sífellu Nótos landsynningur og úr því komu ekki aðrir vindar en Evros austanvindur og Nótos landsynningur. Meðan þeir höfðu brauð og hið rauðleita vín, lögðu þeir ekki til nautanna, því þá langaði til að lifa. En er allar vistir voru upp gengnar á skipinu, þá neyddust þeir til að fara á veiðar… (Ód. 12.319-330, þýð. SE, endursk. útg. SHS)

Þannig var það hungrið og nauðin sem fékk félaga Ódysseifs til þess að hunsa fyrirmæli hans vísvitandi og slátra uxunum og éta þá þegar vistir þeirra voru búnar. Á meðan svaf Ódysseifur sætum svefni sem guðirnir létu yfir hann koma.


Ódysseifur og sírenurnar, málverk eftir Herbert James Draper (1863 – 1920).

En hremmingar þeirra hófust þó áður en þeir átu naut Helíoss. Hvers vegna lét Seifur vindana blása þannig að þeir kæmust ekki á haf út og vistirnar kláruðust? Og hvers vegna sendu guðirnir Ódysseifi sætan svefn svo að hann gæti ekki aftrað félögum sínum að hunsa fyrirmæli sín? Svarið er að Seifur var þeim þá þegar reiður. Í níunda þætti kviðunnar útskýrir Ódysseifur þrautir sínar fyrir Alkínóosi konungi. Þar segir:
Ég skal segja þér frá hinum mörgu mannraunum er Seifur lét mér að hendi bera á heimför minni frá Trójuborg.

Byrinn bar mig frá Ilíonsborg til Ísmarosborgar í Kíkónalandi; þar rændi ég borgina og drap borgarmennina. Tókum vér í borginni konur og mikinn fjárhlut og lögðum til hlutskiptis, svo allir bæru jafnan hlut úr býtum. Lagði ég þá það ráð til að vér skyldum flýja þaðan hröðum fæti, en menn mínir voru svo óforsjálir að þeir fóru ei að orðum mínum. Höfðu þeir miklar víndrykkjur og slátruðu á sjávarströndinni mörgum sauðum og vagandi, bjúghyrndum nautum. Á meðan fóru Kíkónar og kölluðu á aðra Kíkóna sem voru nábúar þeirra og bjuggu uppi í landinu; þeir voru bæði fjölmennari og harðfengari; var þeim jafntamt að berjast í fólkorustu á hervögnum sem á fæti, ef því var að skipta. Síðan komu þeir með morgunsárinu og voru ei færri en lauf það og blóm er þýtur upp á vortíma. Áttum vér vesælir menn þá fyrir hendi þann harðan skapadóm Seifs að vér skyldum komast í mikla raun. Þá þeir höfðu tekið sér stöðu, vöktu þeir bardaga hjá hinum örskreiðu skipum og skutust menn á eirslegnum spjótum. Meðan morgunn var og hinn himneski dagur fór vaxandi, stóðum vér fast fyrir og vörðumst þó liðsmunur væri. En er sól sveif að aklausnum, þá báru Kíkónar efri hlut og komu Akkeum á flótta. Þar létust sex brynhosaðir menn af hverju skipi, en vér sem eftir vorum runnum undan dauða og sköpum.

Vér héldum nú þaðan áleiðis, hryggir í huga af missi félaga vorra, og þó fjöri fegnir. En ekki lét ég fyrr leggja hinum borðrónu skipum frá landi en vér höfðum kallað þrisvar á sérhvern hinna vesælu félaga vorra er fallið höfðu fyrir Kíkónum á vígvellinum. Skýsafnarinn Seifur sendi nú norðanvindinn Bóreas á eftir skipunum með geysimiklu hreggi og huldi skýjum jafnt jörð sem haf; sveif þá náttmyrkur af himni ofan. Varð nú svo mikill skriður á skipunum að þau stungust á stafna, en ofviðrið svipti sundur seglunum í þrennt og fernt. Bjuggumst vér þá ei við öðru en bana vorum og hleyptum því seglunum niður í skipin og rerum þeim ákaflega til lands. Þar lágum vér tvær nætur og tvo daga samfleytt, dasaðir af erfiði og hugsjúkir af raunum vorum. En er hin fagurlokkaða morgungyðja hafði greitt fram þriðja daginn, reistum vér siglutrén og drógum upp hin hvítu segl, sátum svo kyrrir, en vindurinn og skipstjórnarmennirnir réðu stefnunni. Og mundi ég hafa komist heilu og höldnu heim í föðurland mitt, ef aldan og fallið og norðanvindurinn hefðu ei bægt mér frá landi, þá ég var að beita fyrir Maleiuhöfða, og hrakið mig afleiðis frá Kýþeru.

Þaðan hraktist ég í fárviðri níu daga yfir hið fiskisæla haf, en á tíunda degi stigum vér á land Lótusætnanna er lifa á blómfæðu. (Ód. 9.37-84, þýð. SE, endursk. útg. SHS).

Hér má segja að raunir þeirra Ódysseifs og félaga hafi hafist. Eftir að hafa komist svo að segja í augsýn við Íþöku hröktust þeir af leið og lentu í landi Lótusætanna. Lótusblómin sem Lótusæturnar lifðu á gerðu að verkum að þeir sem lögðu þau sér til munns gleymdu heimalandi sínu og Grikkirnir höfðu því enga löngun til þess að fara eftir að hafa fengið lótusblóm að éta hjá Lótusætunum. Þegar Ódysseifi hafði tekist með herkjum að fá menn sína til að fara lentu þeir á eyju Kýklópanna, þaðan sem þeir voru heppnir að sleppa. Næst lentu þeir hjá Ajólosi, Læstrýgónum og Kirku, sem breytti félögum Ódysseifs í svín. Þegar tekist hafði að sannfæra Kirku um að sleppa þeim sendi hún Ódysseif til undirheima til þess að ná tali af spámanninum Teiresíasi og ráðfæra sig við hann um hvernig ætti að haga heimförinni. Næst urður sírenurnar á vegi þeirra, svo Skylla og Karybdís en frá þeim komust þeir til Sikileyjar þar sem þeim varð á að éta naut Helíoss.

Þegar þeir komust loks af eyjunni sendi Seifur storm og laust skipið eldingu svo að allir féllu þeir útbyrðis en Ódysseif rak á fjörur Kalypsóar. Hjá Kalypsó dvaldi Ódysseifur í nokkur ár og komst ekki þaðan fyrr en Aþena bað Seif að senda Hermes til hennar og skipa henni að leyfa Ódysseifi að fara. Þá smíðaði Ódysseifur sér fleka en Póseidon sendi storm svo að Ódysseifur kastaðist af flekanum og rak á fjörur Fajaka þar sem hann fékk góðar viðtökur hjá Alkínóosi konungi og Aretu drottningu. Fajakar sigldu svo með hann heim til Íþöku og settu hann á land þar. Þar með var Ódysseifur kominn til heimalands síns á ný eftir um tuttugu ára fjarveru en átti þó enn eftir að koma málum í lag í höll sinni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Ítarefni:
  • Hómer, Ódysseifskviða. Sveinbjörn Egilsson (þýð.) Svavar Hrafn Svavarsson (endursk.) (Reykjavík: Bjartur, 2004).

Mynd:...