Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þróunarfræði gerir greinarmun á tvennskonar spurningum: Nálægum (proximate) sem oftast eru „hvernig” spurningar (hvernig flyst blóðið um æðarnar) og fjarlægum eða endanlegum spurningum (ultimate) sem oftast eru spurningar „af hverju” eða „til hvers” eins og hér er spurt.
Almennt svar byggist á tilgangshyggju (teleology). Við getum spurt til hvers er einhver manngerður hlutur, til dæmis borðhnífur. Við notum hnífinn til að skera matinn og þetta notagildi hlutarins er ástæðan fyrir því að hluturinn var búinn til og þess vegna ástæðan fyrir því að hann varð til.
Þegar spurt er í líffræði til hvers einhver eiginleiki er, eins og til dæmis heitt blóð, þá beitum við svipaðri röksemdafærslu. Við köllum það vélræna, eðlilega eða náttúrlega tilgangshyggju ef starf eiginleikans eða framlag hans til lífeðlis lífverunnar er ástæðan fyrir því að eiginleikinn varð til. En ólíkt borðhnífnum er enginn hönnuður eða hnífasmiður að verki. Vélvirkið er blint náttúrlegt val samkvæmt þróunarkenningu Darwins.
Náttúrlegt val byggist á þremur staðreyndum um allar lífverur:
Lífverur eru breytilegar að formi, lífeðli og atferli.
Breytileiki erfist sem merkir að afkvæmi líkjast foreldrum sínum meira en þeir líkjast óskyldum einstaklingum.
Breytilegar lífverur eignast mismörg afkvæmi.
Til að útskýra mishraða æxlun er fjórða atriðinu bætt við sem er starfræn útskýring á því hvernig tiltekinn eiginleiki bætir hag lífverunnar. (Sjá hér frekari skýringar á náttúrlegu vali Darwins eftir sama höfund).
Hvaða hagur er þá af jafnheitu blóði? Dýr með svokallað jafnheitt blóð hafa ekki öll sama hita. Hitastig blóðs hjá Monotremata er um það bil 30 gráður á Celsíus, hjá pokadýrum 35 gráður, hjá öðrum spendýrum (Eutheria) 38 gráður og hjá fuglum 40-42 gráður. Jafnheitt blóð hefur þróast tvisvar að minnsta kosti, hjá spendýrum og fuglum. Á þeim grundvelli einum má ætla að það sé hagur að heitu blóði. Einnig er hægt að færa fram lífeðlisfræðileg rök að jafnheitt blóð leyfi meiri virkni og sneggri viðbrögð og geti þannig auðveldað lífverunni að ná í fæðu eða að forðast afrán, að virknin eða viðbrögðin séu starfræna ástæðan fyrir því að eiginleikinn varð til.
Þó er rétt að geta þess að jafnheitt blóð getur einnig verið til trafala því það kostar orku- eða fæðunám að viðhalda hitanum. Fyrir margar lífverur er hluti lífsins biðtími eftir betri tíð, til dæmis má líta á veturinn sem biðtíma eftir sumrinu meðal margra tegunda. Þá getur verið þröngt í búi og erfitt að halda jöfnum hita. Sumar lífverur eins og skógarbjörninn hafa þróað vetrardvala, aðrar þróað far eins og farfuglarnir, og enn aðrar hafa dáið út.
Einar Árnason. „Af hverju eru menn með jafnheitt blóð?“ Vísindavefurinn, 9. mars 2000, sótt 4. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=205.
Einar Árnason. (2000, 9. mars). Af hverju eru menn með jafnheitt blóð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=205
Einar Árnason. „Af hverju eru menn með jafnheitt blóð?“ Vísindavefurinn. 9. mar. 2000. Vefsíða. 4. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=205>.