Bonsai-tré líkjast venjulegum trjám sem vaxa villt í náttúrunni nema þau eru miklu minni. Bonsai-tré eru tekin úr náttúrunni meðan þau eru enn mjög smávaxin og þeim komið fyrir í litlum bakka sem í er næringarlítil mold. Trén verða þá skökk og skæld og stofninn lítur út fyrir að vera mjög gamall þó að tréð sé í raun ungt. Tilgangurinn er að rækta tré sem líkjast harðgerum trjám sem vaxa villt í náttúrinni í klettum og á fjöllum.
Ræktun Bonsai-trjáa er mjög vinsæl í Japan en upprunalega kemur hugmyndin frá Kína. Byrjað var að rækta Bonsai-tré þar í landi fyrir um 1000 árum en í Kína voru trén kölluð pun-sai. Kínverjar ræktuðu tré sín á þann hátt að þeir tóku dvergatré með hnútótta stofna og gisnar laufkrónur sem þeir fundu úti í náttúrunni og komu þeim fyrir í bakka. Þótti það sæta mikilli furðu hversu lík trén voru dýrum eins og drekum og fuglum. Siðurinn barst síðan til Japans með zen-búddamunkum og í upphafi voru það helst þeir sem stunduðu þessa tegund af trjárækt í klaustrum sínum.
Á 13. öld var ræktun Bonsai-trjáa orðin vel þekkt í Japan en það var ekki fyrr en á 17. og 18. öld sem almenningur byrjaði að rækta trén. Ólíkar aðferðir til ræktunar og skreytingar á trjánum komu til sögunnar. Til dæmis var byrjað að skreyta bakkana með steinum og örsmáum húsum sem litlar brúður áttu heima í. Á heimsýningunni í París um aldamótin 1900 vöktu Bonsai-trén mikla athygli og aðdáun gesta og í dag er þau ræktuð um allan heim.
Ýmsar tegundir trjáa og runna eru notaðar til þess að rækta Bonsai-tré, til dæmis fura, bambusreyr, og plómutré. Vexti þessara trjáa er stjórnað með því að sníða af greinar og rætur. Greinar trjánna eru bundnar niður með vírum og þau sett í grunna bakka úr tré eða leir. Form bakkanna er mismunandi; sumir eru kringlóttir, sporöskjulaga, ferhyrndir eða átthyrndir.
Útlit bakkanna er mjög mikilvægt og oft eru þeir málaðir í glaðlegum litum. Bonsai-trén eru geymd utandyra allt árið í Japan ef veturinn er mildur en stundum eru trén tekin inn í stofu svo að heimilisfólkið fái notið þeirra.
Fallegustu trén eru talin vera þau sem sýna efri ræturnar og virðast vera fjörgömul. Blöð, blóm og barr eiga að vera smá, stofninn ber og greinarnar gisnar. Bonsai-tré geta orðið allt að 100 ára og eru oft erfðargripir í Japan. Það getur tekið tréð 3-10 ár að vaxa og fá rétta útlitið. Bonsai-tré eru yfirleitt kringum 60 sentímetra há en til eru tré allt niður í 5 sentímetra og upp í einn metra.
Heimildir
BonsaiwebBritannica Online
Bonsaisite
Myndir frá Bonsai galerie