Sólin Sólin Rís 06:37 • sest 20:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:16 • Síðdegis: 22:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:58 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:37 • sest 20:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:16 • Síðdegis: 22:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:58 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er samlífi, gistilífi, samhjálp og sníkjulíf dýra?

Jón Már Halldórsson

Nauðsynlegt er að fjalla fyrst um hugtakið samlífi (symbiosis) sem komið er af gríska orðinu symbioun 'að lifa saman'. Undir það heyra síðan nokkur önnur hugtök sem lýsa nánar eðli samlífisins. Þau hugtök eru gistilífi (commensalism), samhjálp (mutualism) og sníkjulífi (parasitism).

Samlífi þar sem önnur lífveran lifir með, á eða inni í annari lífveru án þess að skaða hana á nokkurn hátt nefnist gistilífi (commensalism). Oftast nælir gistilífveran sér í næringu eða fær einhvers konar skjól af hinni lífverunni, hýslinum. Reglan er yfirleitt sú að gistilífvera er mun smærri en hýsillinn. -- Fjölmörg dæmi eru um gistilífi í náttúrunni og má meðal annars nefna þann aragrúa gerla sem lifa í meltingavegi okkar og á húð en skaða okkur ekki á neinn hátt. Gerlarnir fá meðal annars skjól og næringu frá okkur. -- Annað dæmi er að margar tegundir fugla tína og éta skordýr úr feldi gresjudýra í Afríku, svo sem gíraffa og vatnabuffala. -- Þriðja dæmið sem vert er að nefna er trúðsfiskurinn (Amphiprion percula) sem lifir í hlýjum sjó við miðbaug. Hann heldur sig á milli stórvaxinna þyrna sæfífilsins og er þar í öruggu skjóli fyrir ránfiskum (sjá mynd).

Samhjálp (mutualism) er það þegar tvær lífverur lifa saman og það er báðum til hagsbóta. -- Eitt frægasta dæmið um slíkt samlífi eru fléttur sem er sambýli svepps og blágrænna þörunga. Þetta nána samband svo óskyldra lífvera gerir þeim kleift að lifa við mjög erfið skilyrði þar sem þær þurfa þá aðeins andrúmsloft, birtu og steinefni. Þörungurinn er frumbjarga og myndar flókin kolefnissambönd með ljóstillífun en sveppurinn nær í steinefni úr undirlaginu sem oftast er berg. Við ofangreindar aðstæður gætu þessar lífverur ekki lifað hvor í sínu lagi. -- Annað dæmi um samhjálp er sveppur sem nefnist á fræðimáli Mycorrhizae og lifir í sambýli við ýmsar jurtir og tré svo sem plöntur af brönugrasaætt (Orchidaceae), ýmsar lyngjurtir og margar tegundir barrtrjáa. Sveppurinn býr við rótaranga jurtanna og auðveldar mjög plöntunum að ná upp úr jarðveginum ýmsum næringarefnum, svo sem köfnunarefni (nitri). "Í staðinn" fær sveppurinn kolvetnissambönd frá jurtinni. Hér er því einnig augljós ávinningur beggja tegunda af þessu samlífi og því réttnefni að kalla það samhjálp.

Þriðja gerðin af samlífi er svokallað sníkjulíf (parasitism). Sníkjulíf er það þegar lífvera lifir á annarri á hennar kostnað. Líkt og í gistilífi er sníkjudýrið oftast mun minna en hýsillinn. Dýrafræðingar flokka yfirleitt sníkjudýr í ytri sníkjudýr og innri sníkjudýr. Dæmi um ytri sníkjudýr eru lýs og blóðmaurar sem sjúga vessa og blóð úr hýslum sínum. -- Kunnasta dæmið sem snýr að okkur mönnunum er höfuðlúsin (Pediculus humanus captitis) sem hefur ásamt líkamslúsinni (Pediculus humanus humanus) valdið okkur mannfólkinu ómældum óþægindum í mörg þúsund ár. -- Blóðmaurar af ættkvíslinni Ixodoes geta verið mjög skæðir í skóglendi Norður-Ameríku og Evrasíu og herja fyrst og fremst á spendýr. Þessi kvikindi geta valdið alvarlegum sjúkdómum eins og Lyme-sjúkdóm (e. Lyme-disease) þegar þeir ráðast á fórnarlambið og bíta það til blóðs.

Dæmi um innri sníkjudýr eru margar tegundir af frumdýrum (protozoa) og flatormar sem lifa í þörmum hryggdýra og fá þar skjól og næringu. Stundum getur fjöldi slíkra orma orðið það mikill að hýsillinn líður næringarskort. Lirfur þessara sníkjudýra geta einnig orðið mönnum skeinuhættar. Sérstaklega má nefna orma af tegundinni Taenia echinococcus, en þeir geta ráðist á lifrina og í versta falli valdið alvarlegum lifrarskemmdum.

Lífsferlar margra tegunda af sníkjudýrum hafa verið mikið rannsakaðir og væri það of langt mál að fjalla um þá hér í þessu svari. Ótal aðrar tegundir sníkjudýra herja á ólíka hópa dýra en sníkjulíf er einnig þekkt meðal tegunda í plönturíkinu. Mistilteinninn (Viscum album) vex til dæmis iðulega utan í greinar annarra plantna og tekur frá þeim næringu.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

15.2.2002

Spyrjandi

Salka Hjálmarsdóttir, f. 1988

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað er samlífi, gistilífi, samhjálp og sníkjulíf dýra?“ Vísindavefurinn, 15. febrúar 2002, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2116.

Jón Már Halldórsson. (2002, 15. febrúar). Hvað er samlífi, gistilífi, samhjálp og sníkjulíf dýra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2116

Jón Már Halldórsson. „Hvað er samlífi, gistilífi, samhjálp og sníkjulíf dýra?“ Vísindavefurinn. 15. feb. 2002. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2116>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er samlífi, gistilífi, samhjálp og sníkjulíf dýra?
Nauðsynlegt er að fjalla fyrst um hugtakið samlífi (symbiosis) sem komið er af gríska orðinu symbioun 'að lifa saman'. Undir það heyra síðan nokkur önnur hugtök sem lýsa nánar eðli samlífisins. Þau hugtök eru gistilífi (commensalism), samhjálp (mutualism) og sníkjulífi (parasitism).

Samlífi þar sem önnur lífveran lifir með, á eða inni í annari lífveru án þess að skaða hana á nokkurn hátt nefnist gistilífi (commensalism). Oftast nælir gistilífveran sér í næringu eða fær einhvers konar skjól af hinni lífverunni, hýslinum. Reglan er yfirleitt sú að gistilífvera er mun smærri en hýsillinn. -- Fjölmörg dæmi eru um gistilífi í náttúrunni og má meðal annars nefna þann aragrúa gerla sem lifa í meltingavegi okkar og á húð en skaða okkur ekki á neinn hátt. Gerlarnir fá meðal annars skjól og næringu frá okkur. -- Annað dæmi er að margar tegundir fugla tína og éta skordýr úr feldi gresjudýra í Afríku, svo sem gíraffa og vatnabuffala. -- Þriðja dæmið sem vert er að nefna er trúðsfiskurinn (Amphiprion percula) sem lifir í hlýjum sjó við miðbaug. Hann heldur sig á milli stórvaxinna þyrna sæfífilsins og er þar í öruggu skjóli fyrir ránfiskum (sjá mynd).

Samhjálp (mutualism) er það þegar tvær lífverur lifa saman og það er báðum til hagsbóta. -- Eitt frægasta dæmið um slíkt samlífi eru fléttur sem er sambýli svepps og blágrænna þörunga. Þetta nána samband svo óskyldra lífvera gerir þeim kleift að lifa við mjög erfið skilyrði þar sem þær þurfa þá aðeins andrúmsloft, birtu og steinefni. Þörungurinn er frumbjarga og myndar flókin kolefnissambönd með ljóstillífun en sveppurinn nær í steinefni úr undirlaginu sem oftast er berg. Við ofangreindar aðstæður gætu þessar lífverur ekki lifað hvor í sínu lagi. -- Annað dæmi um samhjálp er sveppur sem nefnist á fræðimáli Mycorrhizae og lifir í sambýli við ýmsar jurtir og tré svo sem plöntur af brönugrasaætt (Orchidaceae), ýmsar lyngjurtir og margar tegundir barrtrjáa. Sveppurinn býr við rótaranga jurtanna og auðveldar mjög plöntunum að ná upp úr jarðveginum ýmsum næringarefnum, svo sem köfnunarefni (nitri). "Í staðinn" fær sveppurinn kolvetnissambönd frá jurtinni. Hér er því einnig augljós ávinningur beggja tegunda af þessu samlífi og því réttnefni að kalla það samhjálp.

Þriðja gerðin af samlífi er svokallað sníkjulíf (parasitism). Sníkjulíf er það þegar lífvera lifir á annarri á hennar kostnað. Líkt og í gistilífi er sníkjudýrið oftast mun minna en hýsillinn. Dýrafræðingar flokka yfirleitt sníkjudýr í ytri sníkjudýr og innri sníkjudýr. Dæmi um ytri sníkjudýr eru lýs og blóðmaurar sem sjúga vessa og blóð úr hýslum sínum. -- Kunnasta dæmið sem snýr að okkur mönnunum er höfuðlúsin (Pediculus humanus captitis) sem hefur ásamt líkamslúsinni (Pediculus humanus humanus) valdið okkur mannfólkinu ómældum óþægindum í mörg þúsund ár. -- Blóðmaurar af ættkvíslinni Ixodoes geta verið mjög skæðir í skóglendi Norður-Ameríku og Evrasíu og herja fyrst og fremst á spendýr. Þessi kvikindi geta valdið alvarlegum sjúkdómum eins og Lyme-sjúkdóm (e. Lyme-disease) þegar þeir ráðast á fórnarlambið og bíta það til blóðs.

Dæmi um innri sníkjudýr eru margar tegundir af frumdýrum (protozoa) og flatormar sem lifa í þörmum hryggdýra og fá þar skjól og næringu. Stundum getur fjöldi slíkra orma orðið það mikill að hýsillinn líður næringarskort. Lirfur þessara sníkjudýra geta einnig orðið mönnum skeinuhættar. Sérstaklega má nefna orma af tegundinni Taenia echinococcus, en þeir geta ráðist á lifrina og í versta falli valdið alvarlegum lifrarskemmdum.

Lífsferlar margra tegunda af sníkjudýrum hafa verið mikið rannsakaðir og væri það of langt mál að fjalla um þá hér í þessu svari. Ótal aðrar tegundir sníkjudýra herja á ólíka hópa dýra en sníkjulíf er einnig þekkt meðal tegunda í plönturíkinu. Mistilteinninn (Viscum album) vex til dæmis iðulega utan í greinar annarra plantna og tekur frá þeim næringu.

Heimildir og myndir:

...