Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað var Kristur að gera milli föstudagsins langa og páskadags, samanber trúarjátninguna?

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

Þessari spurningu er nú ekki létt að svara, en eins og spyrjandi nefnir, þá segir svo í trúarjátningunni um dauða Jesú:
"Píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur dáinn og grafinn, steig niður til heljar".

Orðalagið steig niður til heljar var sótt í fyrra Pétursbréf (3.19) þar sem segir:
Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi.

Menn skildu þessi orð svo að Jesús hefði stigið niður til dánarheima (til heljar) og frelsað þá sem þar voru fjötraðir. Þannig vildu menn tjá þá trú að með því að deyja hefði Jesús frelsað menn undan valdi dauðans og dauði Jesú væri sigur yfir dauðanum. Að auki vildi kirkjan með orðalagi trúarjátningarinnar ítreka, að Jesús hefði dáið raunverulegum dauða en ekki aðeins skindauða en ýmsir trúflokkar að fornu og nýju hafa haldið slíku fram.

Hel merkir dánarheima, en hel merkir líka helvíti eða stað hinna fordæmdu. Í gamla daga var það orðalag notað í þýðingum á trúarjátningunni og sagt: Steig niður til helvítis. Hvort sem notað er orðið hel eða helvíti áréttar setningin að Jesús standi við hlið syndugra manna eins þótt hann hafi sjálfur verið án syndar samkvæmt því sem segir í Hebreabréfinu 4.15:
Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.
Hann tók saklaus á sig dauða mannkyns af því að laun syndarinnar er dauði, eins og segir í Rómverjabréfinu (6.23) og dó þannig fyrir aðra.

Málverk frá miðri 14. öld.

Setningin steig niður til heljar tjáir þar með, að Kristur sigraði dauðann með dauða sínum. Sú skýring hefur verið notuð með ýmsum blæbrigðum í sögu kristninnar. Á miðöldum var þessi setning tilefni til ýmissa heilabrota og oft voru gefnar litríkar lýsingar á niðurstigningu Krists til helvítis, þar sem hann vann sigur á djöflinum.

Í Íslensku hómilíubókinni segir um þennan stað í trúarjátningunni:
Ég trúi því, að líkami hans var grafinn, en önd hans með guðdómskrafti sté niður til helvítis og braut helvítisbyrgi og batt fjándann.

Í Niðurstigningarsögu er lýst niðurstigningu Krists til helvítis og þar skýrt frá því hversu fjandinn hafi verið færður í fjötra en sálir þeirra er hann hélt föngnum hafi frelsast. Þar er notast við myndlíkingu, sem gjarnan var notuð fram eftir öldum, að Kristur hefði blekkt djöfulinn og veitt svo sem fisk á öngli.

Þannig er þessu til dæmis lýst í Niðurstigningarsögu, sem er frá miðöldum og er þar verið að hæðast að djöflinum líkt og gert er í sögunum af Sæmundi fróða. Sama hugmynd birtist í Lilju 60.-62. versi, þar sem segir:
Hlægir mig, að hér mun teygjast

hans forvitni sér til vansa.

Eigi mun nú ormurinn bjúgi,

agn svelgjandi á króki fagna.

Öll helvítis járnhlið skjálfa,

undrast myrkur, að ljós er styrkra.

Hlaupa fjandar og ætla undan,

ódæmi þeir sögðu að kæmi.

Hræðslan flaug um heljar byggðir.

Helga menn, er fjötrar spenna,

hlaut óvinurinn lausa að láta,

lamdur og meiddur, er valdið beiddi.
Í Niðurstigningarvísum og Krossvísum notar Jón Arason sömu myndlíkingar. Eftir siðbót urðu myndir af þessu tagi sjaldgæfar í píslarbókmenntum meðal mótmælenda sem litu svo á að menn hefðu seilst of langt í túlkunum með því að staðnæmast við þennan stað. Þess vegna hurfu þær að mestu úr píslarkveðskap lútherskra og koma til dæmis ekki fyrir í kveðskap Hallgríms Péturssonar. Hallgrímur túlkar þó dauða Krists oft sem sigur:
Dauðinn tapaði en Drottinn vann,

dýrlegan sigur gaf mér þann,

segir í 3. Passíusálmi. Einnig er alkunn hendingin úr sálminum "Um dauðans óvissa tíma":
Sigrarinn dauðans sanni,

sjálfur á krossi dó.
Í Passíusálmunum uppmálar Hallgrímur líka hina djúpu þjáningu Jesú Krists, sem merkir samstöðu hans með þjáðu mannkyni og sigur því til handa:
Yfirgefinn kvað son Guðs sig,

þá særði hann kvölin megna.

Yfirgefur því aldrei mig

eilífur Guð hans vegna.

Fyrir þá Herrans hryggðarraust

hæstur Drottinn mun efalaust

grátbeiðni minni gegna.

(Passíusálmur 41, 9. vers).

Frekara lesefni

Einar Sigurbjörnsson: Kirkjan játar. Reykjavík (Skálholtsútgáfan) 1991, s.136-138.

Einar Sigurbjörnsson: Credo - kristin trúfræði. Reykjavík (Háskólaútgáfan) 1993, s. 266-271.

Íslensk hómilíubók. Fornar stólræður. Reykjavík (Hið íslenska

bókmenntafélag) 1993, s. 209.

Jón Arason: "Krossvísur", í Finnur Jónsson udg.: Jón Arasons religiøse digte. København 1918, s. 69-77.

Jón Arason: "Niðurstigningarvísur", Í Finnur Jónsson udg.: Jón Arasons religiøse digte. København 1918, s.58-69.

"Úr Niðurstigningar sögu." Sigurður Nordal o.fl. ritstj.: Sýnisbók

íslenzkra bókmennta til miðrar 18. aldar
. Reykjavík (Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar) 1953 s. 51-52.

Þrjár þýðingar lærðar frá miðöldum - Elucidarius, Um kostu og löstu, Um festarfé sálarinnar. Reykjavík (Hið íslenska bókmenntafélag) 1989, einkum s. 70-72.

Mynd:

Höfundur

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

prófessor í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

18.2.2002

Síðast uppfært

14.4.2017

Spyrjandi

Jón Pétursson, Einar Einarsson

Tilvísun

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hvað var Kristur að gera milli föstudagsins langa og páskadags, samanber trúarjátninguna?“ Vísindavefurinn, 18. febrúar 2002, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2119.

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). (2002, 18. febrúar). Hvað var Kristur að gera milli föstudagsins langa og páskadags, samanber trúarjátninguna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2119

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hvað var Kristur að gera milli föstudagsins langa og páskadags, samanber trúarjátninguna?“ Vísindavefurinn. 18. feb. 2002. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2119>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað var Kristur að gera milli föstudagsins langa og páskadags, samanber trúarjátninguna?
Þessari spurningu er nú ekki létt að svara, en eins og spyrjandi nefnir, þá segir svo í trúarjátningunni um dauða Jesú:

"Píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur dáinn og grafinn, steig niður til heljar".

Orðalagið steig niður til heljar var sótt í fyrra Pétursbréf (3.19) þar sem segir:
Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi.

Menn skildu þessi orð svo að Jesús hefði stigið niður til dánarheima (til heljar) og frelsað þá sem þar voru fjötraðir. Þannig vildu menn tjá þá trú að með því að deyja hefði Jesús frelsað menn undan valdi dauðans og dauði Jesú væri sigur yfir dauðanum. Að auki vildi kirkjan með orðalagi trúarjátningarinnar ítreka, að Jesús hefði dáið raunverulegum dauða en ekki aðeins skindauða en ýmsir trúflokkar að fornu og nýju hafa haldið slíku fram.

Hel merkir dánarheima, en hel merkir líka helvíti eða stað hinna fordæmdu. Í gamla daga var það orðalag notað í þýðingum á trúarjátningunni og sagt: Steig niður til helvítis. Hvort sem notað er orðið hel eða helvíti áréttar setningin að Jesús standi við hlið syndugra manna eins þótt hann hafi sjálfur verið án syndar samkvæmt því sem segir í Hebreabréfinu 4.15:
Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.
Hann tók saklaus á sig dauða mannkyns af því að laun syndarinnar er dauði, eins og segir í Rómverjabréfinu (6.23) og dó þannig fyrir aðra.

Málverk frá miðri 14. öld.

Setningin steig niður til heljar tjáir þar með, að Kristur sigraði dauðann með dauða sínum. Sú skýring hefur verið notuð með ýmsum blæbrigðum í sögu kristninnar. Á miðöldum var þessi setning tilefni til ýmissa heilabrota og oft voru gefnar litríkar lýsingar á niðurstigningu Krists til helvítis, þar sem hann vann sigur á djöflinum.

Í Íslensku hómilíubókinni segir um þennan stað í trúarjátningunni:
Ég trúi því, að líkami hans var grafinn, en önd hans með guðdómskrafti sté niður til helvítis og braut helvítisbyrgi og batt fjándann.

Í Niðurstigningarsögu er lýst niðurstigningu Krists til helvítis og þar skýrt frá því hversu fjandinn hafi verið færður í fjötra en sálir þeirra er hann hélt föngnum hafi frelsast. Þar er notast við myndlíkingu, sem gjarnan var notuð fram eftir öldum, að Kristur hefði blekkt djöfulinn og veitt svo sem fisk á öngli.

Þannig er þessu til dæmis lýst í Niðurstigningarsögu, sem er frá miðöldum og er þar verið að hæðast að djöflinum líkt og gert er í sögunum af Sæmundi fróða. Sama hugmynd birtist í Lilju 60.-62. versi, þar sem segir:
Hlægir mig, að hér mun teygjast

hans forvitni sér til vansa.

Eigi mun nú ormurinn bjúgi,

agn svelgjandi á króki fagna.

Öll helvítis járnhlið skjálfa,

undrast myrkur, að ljós er styrkra.

Hlaupa fjandar og ætla undan,

ódæmi þeir sögðu að kæmi.

Hræðslan flaug um heljar byggðir.

Helga menn, er fjötrar spenna,

hlaut óvinurinn lausa að láta,

lamdur og meiddur, er valdið beiddi.
Í Niðurstigningarvísum og Krossvísum notar Jón Arason sömu myndlíkingar. Eftir siðbót urðu myndir af þessu tagi sjaldgæfar í píslarbókmenntum meðal mótmælenda sem litu svo á að menn hefðu seilst of langt í túlkunum með því að staðnæmast við þennan stað. Þess vegna hurfu þær að mestu úr píslarkveðskap lútherskra og koma til dæmis ekki fyrir í kveðskap Hallgríms Péturssonar. Hallgrímur túlkar þó dauða Krists oft sem sigur:
Dauðinn tapaði en Drottinn vann,

dýrlegan sigur gaf mér þann,

segir í 3. Passíusálmi. Einnig er alkunn hendingin úr sálminum "Um dauðans óvissa tíma":
Sigrarinn dauðans sanni,

sjálfur á krossi dó.
Í Passíusálmunum uppmálar Hallgrímur líka hina djúpu þjáningu Jesú Krists, sem merkir samstöðu hans með þjáðu mannkyni og sigur því til handa:
Yfirgefinn kvað son Guðs sig,

þá særði hann kvölin megna.

Yfirgefur því aldrei mig

eilífur Guð hans vegna.

Fyrir þá Herrans hryggðarraust

hæstur Drottinn mun efalaust

grátbeiðni minni gegna.

(Passíusálmur 41, 9. vers).

Frekara lesefni

Einar Sigurbjörnsson: Kirkjan játar. Reykjavík (Skálholtsútgáfan) 1991, s.136-138.

Einar Sigurbjörnsson: Credo - kristin trúfræði. Reykjavík (Háskólaútgáfan) 1993, s. 266-271.

Íslensk hómilíubók. Fornar stólræður. Reykjavík (Hið íslenska

bókmenntafélag) 1993, s. 209.

Jón Arason: "Krossvísur", í Finnur Jónsson udg.: Jón Arasons religiøse digte. København 1918, s. 69-77.

Jón Arason: "Niðurstigningarvísur", Í Finnur Jónsson udg.: Jón Arasons religiøse digte. København 1918, s.58-69.

"Úr Niðurstigningar sögu." Sigurður Nordal o.fl. ritstj.: Sýnisbók

íslenzkra bókmennta til miðrar 18. aldar
. Reykjavík (Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar) 1953 s. 51-52.

Þrjár þýðingar lærðar frá miðöldum - Elucidarius, Um kostu og löstu, Um festarfé sálarinnar. Reykjavík (Hið íslenska bókmenntafélag) 1989, einkum s. 70-72.

Mynd:

...