Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvernig dó Tolstoj?

Kristján Geir Pétursson

Lév Nikolajevítsj Tolstoj greifi fæddist 28. ágúst árið 1828 í Jasnaja Poljana í Túla-héraði í Rússlandi. Foreldra sína missti hann ungur að árum og móður sína þekkti hann aldrei. Sextán ára var hann sendur í fóstur til frænku sinnar í Kazan og stuttu síðar hóf hann nám í austurlenskum málum og lögfræði við háskólann þar í borg. Hann lauk aldrei prófi.

Árið 1851 gekk Tolstoj til liðs við her Rússakeisara og þjónaði í stórskotaliði hersins í Kákasusfjöllum. Hann barðist í stríðinu á Krímskaga á árunum 1854-5 og gegn umsátri Frakka og Breta um hafnarborgina Sevastopol. Að þeirri reynslu fenginni skrifaði hann Sögur af Sevastopol sem vöktu athygli almennings á hinum unga Tolstoj. Í nóvember árið 1856 kvaddi hann herinn og næstu árin á eftir aflaði hann sér menntunar í kennslufræðum víða um Evrópu og í Pétursborg. Þá menntun hugðist Tolstoj nýta sér til að kenna börnum kotbænda og vinnufólks sem bjuggu á jörð hans við Jasnaja Poljana. Árið 1862 kvæntist hann Sofíu Andrejevnu Behrs (Sonju), átján ára yngismey frá Moskvu. Fyrstu fimmtán ár hjúskaparins var mikill hamingjutími í lífi þeirra hjóna og þau eignuðust alls þrettán börn. Á þessum árum skrifaði Tolstoj sín frægustu verk, þar með talin Stríð og frið (1865-8) og Önnu Karenínu (1874-6).

Stríð og friður hét upphaflega 1805 og birtist verkið, eins og allar rússneskar skáldsögur þess tíma, kafla fyrir kafla, í „þykkum“ rússneskum tímaritum, sem svo voru nefnd. Umgjörð bókarinnar er innrás herja Napóleons í Moskvu og hvernig þeir hörfa þaðan aftur. Þetta er saga heillar þjóðar en um leið mjög persónuleg saga höfundar sem styðst við lífshlaup og persónueinkenni náinna fjölskyldumeðlima.

Anna Karenína, ein frægasta ástarsaga allra tíma, fjallar í aðra röndina um vonlaust ástarsamband Önnu og Vronskís sem að lokum verður henni að falli. Á hinn bóginn er hún saga Ljovíns, sem höfundur ljær lífsskoðanir sínar, og fjallar um tilvistarglímu manns við sjálfan sig og ástina.

Segja má að aðalsmerki þessara bóka, og í raun skáldskapar Tolstojs almennt, sé persónusköpunin í verkum hans. Persónur í skáldsögum Dostojevskíjs taka jafnan einarða afstöðu til lífsins, manna sem málefna, og verður með engu móti haggað, en Tolstoj trúði því hins vegar að sérhver maður hefði í sér vísi að öllum mennskum eiginleikum, í mismiklum mæli þó. Með þetta að leiðarljósi skapaði hann margar af eftirminnilegustu persónum bókmenntanna, þær birtast okkur ljóslifandi í verkum hans.

Með Játningum (1879-82) kvað við annan tón í verkum höfundar og sömuleiðis í lífi hans. Skynsemis- og nytsemdarsjónarmið urðu nú allsráðandi í verkum hans og Tolstoj varð hægt og bítandi að nokkurs konar siðaprédikara. Í fjölda bæklinga og rita sem hann gaf út eftir 1880 útfærði hann kenningar sínar, meðal annars um skírlífi, afnám ríkisvalds og -kirkju og afnám eignarréttar. Tolstoj eignaðist fjölmarga fylgismenn og sömuleiðis andstæðinga. Árið 1901 var honum útskúfað úr kirkjulegu samfélagi þegar rússneska rétttrúnaðarkirkjan bannfærði hann á kirkjuþingi.

Tolstoj lagði af stað í sína hinstu för frá ættarbúgarðinum, Jasnaja Poljana, í Túla-héraði að morgni dags 28. október 1910. Þess ber að geta að Tolstoj kunni hvergi betur við sig en á óðali sínu þar sem hann var borinn og barnfæddur og hafði sjálfur alið sín börn upp. Þar hafði hann stundað ritstörf og sinnt búverkum. Eiginkona Tolstojs, Sonja Andrejevna, var orðin veil á geði þegar hér var komið við sögu og löngu komnir brestir í hjónabandið. Tolstoj ákvað að eina leiðin til að losna undan þeirri óhamingju sem samlífi þeirra hjóna fylgdi væri að yfirgefa ættaróðalið og konu sína fyrir fullt og allt. Þegar Sonja var lögst til hvílu hélt hann ásamt föruneyti, lækni sínum og dóttur, á nærliggjandi lestarstöð.

Ferðinni var fyrst heitið í klaustur í Kozyolsk þar sem þau dvöldust yfir nótt. Áfram ferðuðust þau með lest en nú var ferðinni ekki heitið á neinn fyrirfram ákveðinn áningarstað. Heilsu Tolstojs hafði hrakað mjög undanfarna daga og vikur, hann kvartaði undan verkjum í brjósti og þegar lestin staðnæmdist á Astapovo-lestarstöðinni, varð ljóst að ekki yrði lengra haldið að sinni. Stöðvarstjórinn lánaði Tolstoj húsið sitt og hann kom sér þar fyrir. Hann var sýktur af alvarlegri lungnabólgu.

Þegar ljóst þótti að hann lægi banaleguna í húsi stöðvarstjórans í Astopovo tóku ættingjar hans, aðdáendur og fylgismenn, auk blaða- og kvikmyndagerðarmanna og fulltrúa stjórnvalda og kirkju að flykkjast þangað. Athygli umheimsins beindist nú að litlu lestarstöðinni og urmull var þar af fólki sem kom hvaðanæva að. Að beiðni Tolstojs og ættingja hans var Sonju, eiginkonu skáldsins, meinaður aðgangur að húsinu þar sem hann dvaldist og varðveist hefur kvikmynd á filmu þar sem hún sést reika fram og aftur á brautarpallinum, augljóslega í mikilli geðshræringu yfir því hvernig komið var fyrir sambandi þeirra hjóna. Hún fékk að lokum að hitta eiginmann sinn, sem þá var með óráði, og var við hlið hans er hann lést að morgni dags 7. nóvember. Lík Tolstojs var flutt með viðhöfn á ættarbúgarðinn þar sem hann var jarðsettur.

Myndir:

Höfundur

menntaður í rússneskum fræðum og bókmenntum

Útgáfudagur

26.2.2002

Spyrjandi

Brynja Halldórsdóttir

Tilvísun

Kristján Geir Pétursson. „Hvernig dó Tolstoj?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2002. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2142.

Kristján Geir Pétursson. (2002, 26. febrúar). Hvernig dó Tolstoj? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2142

Kristján Geir Pétursson. „Hvernig dó Tolstoj?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2002. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2142>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig dó Tolstoj?
Lév Nikolajevítsj Tolstoj greifi fæddist 28. ágúst árið 1828 í Jasnaja Poljana í Túla-héraði í Rússlandi. Foreldra sína missti hann ungur að árum og móður sína þekkti hann aldrei. Sextán ára var hann sendur í fóstur til frænku sinnar í Kazan og stuttu síðar hóf hann nám í austurlenskum málum og lögfræði við háskólann þar í borg. Hann lauk aldrei prófi.

Árið 1851 gekk Tolstoj til liðs við her Rússakeisara og þjónaði í stórskotaliði hersins í Kákasusfjöllum. Hann barðist í stríðinu á Krímskaga á árunum 1854-5 og gegn umsátri Frakka og Breta um hafnarborgina Sevastopol. Að þeirri reynslu fenginni skrifaði hann Sögur af Sevastopol sem vöktu athygli almennings á hinum unga Tolstoj. Í nóvember árið 1856 kvaddi hann herinn og næstu árin á eftir aflaði hann sér menntunar í kennslufræðum víða um Evrópu og í Pétursborg. Þá menntun hugðist Tolstoj nýta sér til að kenna börnum kotbænda og vinnufólks sem bjuggu á jörð hans við Jasnaja Poljana. Árið 1862 kvæntist hann Sofíu Andrejevnu Behrs (Sonju), átján ára yngismey frá Moskvu. Fyrstu fimmtán ár hjúskaparins var mikill hamingjutími í lífi þeirra hjóna og þau eignuðust alls þrettán börn. Á þessum árum skrifaði Tolstoj sín frægustu verk, þar með talin Stríð og frið (1865-8) og Önnu Karenínu (1874-6).

Stríð og friður hét upphaflega 1805 og birtist verkið, eins og allar rússneskar skáldsögur þess tíma, kafla fyrir kafla, í „þykkum“ rússneskum tímaritum, sem svo voru nefnd. Umgjörð bókarinnar er innrás herja Napóleons í Moskvu og hvernig þeir hörfa þaðan aftur. Þetta er saga heillar þjóðar en um leið mjög persónuleg saga höfundar sem styðst við lífshlaup og persónueinkenni náinna fjölskyldumeðlima.

Anna Karenína, ein frægasta ástarsaga allra tíma, fjallar í aðra röndina um vonlaust ástarsamband Önnu og Vronskís sem að lokum verður henni að falli. Á hinn bóginn er hún saga Ljovíns, sem höfundur ljær lífsskoðanir sínar, og fjallar um tilvistarglímu manns við sjálfan sig og ástina.

Segja má að aðalsmerki þessara bóka, og í raun skáldskapar Tolstojs almennt, sé persónusköpunin í verkum hans. Persónur í skáldsögum Dostojevskíjs taka jafnan einarða afstöðu til lífsins, manna sem málefna, og verður með engu móti haggað, en Tolstoj trúði því hins vegar að sérhver maður hefði í sér vísi að öllum mennskum eiginleikum, í mismiklum mæli þó. Með þetta að leiðarljósi skapaði hann margar af eftirminnilegustu persónum bókmenntanna, þær birtast okkur ljóslifandi í verkum hans.

Með Játningum (1879-82) kvað við annan tón í verkum höfundar og sömuleiðis í lífi hans. Skynsemis- og nytsemdarsjónarmið urðu nú allsráðandi í verkum hans og Tolstoj varð hægt og bítandi að nokkurs konar siðaprédikara. Í fjölda bæklinga og rita sem hann gaf út eftir 1880 útfærði hann kenningar sínar, meðal annars um skírlífi, afnám ríkisvalds og -kirkju og afnám eignarréttar. Tolstoj eignaðist fjölmarga fylgismenn og sömuleiðis andstæðinga. Árið 1901 var honum útskúfað úr kirkjulegu samfélagi þegar rússneska rétttrúnaðarkirkjan bannfærði hann á kirkjuþingi.

Tolstoj lagði af stað í sína hinstu för frá ættarbúgarðinum, Jasnaja Poljana, í Túla-héraði að morgni dags 28. október 1910. Þess ber að geta að Tolstoj kunni hvergi betur við sig en á óðali sínu þar sem hann var borinn og barnfæddur og hafði sjálfur alið sín börn upp. Þar hafði hann stundað ritstörf og sinnt búverkum. Eiginkona Tolstojs, Sonja Andrejevna, var orðin veil á geði þegar hér var komið við sögu og löngu komnir brestir í hjónabandið. Tolstoj ákvað að eina leiðin til að losna undan þeirri óhamingju sem samlífi þeirra hjóna fylgdi væri að yfirgefa ættaróðalið og konu sína fyrir fullt og allt. Þegar Sonja var lögst til hvílu hélt hann ásamt föruneyti, lækni sínum og dóttur, á nærliggjandi lestarstöð.

Ferðinni var fyrst heitið í klaustur í Kozyolsk þar sem þau dvöldust yfir nótt. Áfram ferðuðust þau með lest en nú var ferðinni ekki heitið á neinn fyrirfram ákveðinn áningarstað. Heilsu Tolstojs hafði hrakað mjög undanfarna daga og vikur, hann kvartaði undan verkjum í brjósti og þegar lestin staðnæmdist á Astapovo-lestarstöðinni, varð ljóst að ekki yrði lengra haldið að sinni. Stöðvarstjórinn lánaði Tolstoj húsið sitt og hann kom sér þar fyrir. Hann var sýktur af alvarlegri lungnabólgu.

Þegar ljóst þótti að hann lægi banaleguna í húsi stöðvarstjórans í Astopovo tóku ættingjar hans, aðdáendur og fylgismenn, auk blaða- og kvikmyndagerðarmanna og fulltrúa stjórnvalda og kirkju að flykkjast þangað. Athygli umheimsins beindist nú að litlu lestarstöðinni og urmull var þar af fólki sem kom hvaðanæva að. Að beiðni Tolstojs og ættingja hans var Sonju, eiginkonu skáldsins, meinaður aðgangur að húsinu þar sem hann dvaldist og varðveist hefur kvikmynd á filmu þar sem hún sést reika fram og aftur á brautarpallinum, augljóslega í mikilli geðshræringu yfir því hvernig komið var fyrir sambandi þeirra hjóna. Hún fékk að lokum að hitta eiginmann sinn, sem þá var með óráði, og var við hlið hans er hann lést að morgni dags 7. nóvember. Lík Tolstojs var flutt með viðhöfn á ættarbúgarðinn þar sem hann var jarðsettur.

Myndir:...