Sólin Sólin Rís 02:54 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:32 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:08 • Síðdegis: 17:35 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:17 • Síðdegis: 23:52 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvað er rétt og hvað er rangt í máli?

Ari Páll Kristinsson

Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju. Rangt mál, til dæmis setningin "Páll eldaði fiskurinn", getur hvergi talist æskilegt en ekki er þar með sagt að rétt mál (í þessum skilningi) eigi sjálfkrafa rétt á sér við allar aðstæður, til dæmis ekki þessi "rétta" setning: "Páll annaðist matreiðslu á sjávarskepnu þessari." Óviðeigandi orðaval eða kauðalegar setningar geta þannig til dæmis oft talist rétt mál án þess að vera í raun málnotkun við hæfi og geta þá verið í senn rétt mál og vont!

Málnotendur hafa oft um ýmsar leiðir að velja til að orða hugsun sína. Margs kyns tilbrigði í málfari eru til en þau eru ekki öll jafngild við allar aðstæður. Sumt er talið við hæfi á einum stað og stund en annars ekki. Einn liður í málkunnáttu málnotenda er að hafa vald á því að fella orðaval, orðalag, beygingar, framburð og svo framvegis að því málsniði sem um ræðir hverju sinni.

Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.

Athugasemdir eða aðfinnslur um málfar beinast raunar oft að því að einhver velur leið í málnotkun sem annar telur óviðeigandi. Málnotendur hafa mismunandi mat á aðstæðum að þessu leyti, mismunandi málsmekk og eins er hæfni þeirra misjöfn í að bregða fyrir sig mismunandi málnotkun og að átta sig á mun þeirra málsniða sem notuð eru í málsamfélaginu. Hugtökin rétt mál og rangt mál eiga ekki vel við í þessu sambandi. Fremur ætti við að tala um gott mál eða vandað mál og vont mál eða óvandað mál.

Gott mál eða vandað mál er að jafnaði skýrt að því er varðar orðaval, orðalag og framburð. Reynt er að velja þau orð sem best eiga við hverju sinni, nota lipurt orðalag og tala skýrt og ekki of hratt. Þannig getur málið gegnt vel því hlutverki sínu að færa boð milli mælanda og viðmælanda.

Að vísu leika hæfir málnotendur stundum þann leik að nota vísvitandi óskýrt orðalag og svo framvegis til að ná markmiðum sínum í málnotkun! Takist það má segja að málnotkunin gegni vel hlutverki sínu og teljist í þeim skilningi gott mál eða vandað mál enda hæfi hún þeim aðstæðum sem um ræðir. Með góðu máli er einmitt átt við málnotkun sem er við hæfi í því málsniði sem notað er hverju sinni.

Skýrt mál (orðaval, orðalag, framburður) á yfirleitt við í öllum málsniðum. Samkvæmt íslenskri málstefnu telst það yfirleitt gott eða vandað mál í flestum málsniðum að velja íslensk orð fremur en erlendar slettur og að velja hefðbundnar beygingar fremur en beygingar sem eru eða hafa verið hugsanlegir vísar að breytingum á beygingakerfinu.

Svarið er byggt á því sem segir um þetta efni í bók höfundar, Handbók um málfar í talmiðlum (1998).

Mynd:

Höfundur

Ari Páll Kristinsson

rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

28.2.2002

Spyrjandi

Elías Björgvinsson

Tilvísun

Ari Páll Kristinsson. „Hvað er rétt og hvað er rangt í máli?“ Vísindavefurinn, 28. febrúar 2002. Sótt 20. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2148.

Ari Páll Kristinsson. (2002, 28. febrúar). Hvað er rétt og hvað er rangt í máli? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2148

Ari Páll Kristinsson. „Hvað er rétt og hvað er rangt í máli?“ Vísindavefurinn. 28. feb. 2002. Vefsíða. 20. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2148>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er rétt og hvað er rangt í máli?
Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju. Rangt mál, til dæmis setningin "Páll eldaði fiskurinn", getur hvergi talist æskilegt en ekki er þar með sagt að rétt mál (í þessum skilningi) eigi sjálfkrafa rétt á sér við allar aðstæður, til dæmis ekki þessi "rétta" setning: "Páll annaðist matreiðslu á sjávarskepnu þessari." Óviðeigandi orðaval eða kauðalegar setningar geta þannig til dæmis oft talist rétt mál án þess að vera í raun málnotkun við hæfi og geta þá verið í senn rétt mál og vont!

Málnotendur hafa oft um ýmsar leiðir að velja til að orða hugsun sína. Margs kyns tilbrigði í málfari eru til en þau eru ekki öll jafngild við allar aðstæður. Sumt er talið við hæfi á einum stað og stund en annars ekki. Einn liður í málkunnáttu málnotenda er að hafa vald á því að fella orðaval, orðalag, beygingar, framburð og svo framvegis að því málsniði sem um ræðir hverju sinni.

Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.

Athugasemdir eða aðfinnslur um málfar beinast raunar oft að því að einhver velur leið í málnotkun sem annar telur óviðeigandi. Málnotendur hafa mismunandi mat á aðstæðum að þessu leyti, mismunandi málsmekk og eins er hæfni þeirra misjöfn í að bregða fyrir sig mismunandi málnotkun og að átta sig á mun þeirra málsniða sem notuð eru í málsamfélaginu. Hugtökin rétt mál og rangt mál eiga ekki vel við í þessu sambandi. Fremur ætti við að tala um gott mál eða vandað mál og vont mál eða óvandað mál.

Gott mál eða vandað mál er að jafnaði skýrt að því er varðar orðaval, orðalag og framburð. Reynt er að velja þau orð sem best eiga við hverju sinni, nota lipurt orðalag og tala skýrt og ekki of hratt. Þannig getur málið gegnt vel því hlutverki sínu að færa boð milli mælanda og viðmælanda.

Að vísu leika hæfir málnotendur stundum þann leik að nota vísvitandi óskýrt orðalag og svo framvegis til að ná markmiðum sínum í málnotkun! Takist það má segja að málnotkunin gegni vel hlutverki sínu og teljist í þeim skilningi gott mál eða vandað mál enda hæfi hún þeim aðstæðum sem um ræðir. Með góðu máli er einmitt átt við málnotkun sem er við hæfi í því málsniði sem notað er hverju sinni.

Skýrt mál (orðaval, orðalag, framburður) á yfirleitt við í öllum málsniðum. Samkvæmt íslenskri málstefnu telst það yfirleitt gott eða vandað mál í flestum málsniðum að velja íslensk orð fremur en erlendar slettur og að velja hefðbundnar beygingar fremur en beygingar sem eru eða hafa verið hugsanlegir vísar að breytingum á beygingakerfinu.

Svarið er byggt á því sem segir um þetta efni í bók höfundar, Handbók um málfar í talmiðlum (1998).

Mynd:...