Að skilja skoðun getur ýmist verið fólgið í því að vita inntak skoðunarinnar; að vita undir hvaða kringumstæðum skoðunin er sönn eða ósönn. Ef það er skoðun mín að kaffi sé almennt gott fyrir svefninn, þá er sú skoðun sönn einungis ef kaffi er almennt gott fyrir svefninn. Og til að skilja þessa skoðun þarf maður þá að vita hvað þarf að vera satt til þess að kaffi sé almennt gott fyrir svefninn. Að skilja skoðun, í þessari merkingu, er sambærilegt við að skilja staðhæfingu. Við skiljum staðhæfinguna að kaffi sé gott fyrir svefninn ef við vitum hvað hún segir, og við vitum hvað staðhæfing segir ef við vitum undir hvaða kringumstæðum hún er sönn og undir hvaða kringumstæðum hún er ósönn.
En stundum vitum við mætavel hvert inntak skoðunar er en samt segjumst við ekki skilja skoðunina. Þetta á ekki síst við þegar kemur að siðferðilegum efnum. Við getum skilið inntak þeirrar skoðunar að foreldrar eigi að velja maka handa börnum sínum án þess að geta með nokkru móti skilið hvernig nokkur maður geti haft þessa skoðun. Að skilja skoðun í þessari merkingu orðsins er því ekki fólgið í því að skilja inntak skoðunarinnar heldur í því að skilja hvernig nokkur maður geti tileinkað sér skoðunina, gert hana að sinni.
Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni "Hvað er að skilja atburð?"
Mynd: HB