Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Moskítóflugur, Culicidae, eru tvívængjur, Diptera, sem lifa um allan heim. Fullorðin kvendýr sjúga blóð úr spendýrum, fuglum og í sumum tilfellum skriðdýrum til að afla næringar og próteina. Án blóðmáltíðar geta þær ekki þroskað egg.
Þær lifa ekki hér á landi, en eru algengar í nágrannalöndunum. Á Grænlandi eru tvær tegundir, Aedes nigripes, sem finnst með allri strandlengjunni og Aedes impiger, sem finnst á Norðvestur-Grænlandi. Í Noregi eru 28 tegundir, þar á meðal Aedes nigripes. Á Bretlandseyjum eru einnig 28 tegundir, en ekki að öllu leyti þær sömu og í Noregi. Í nágrannalöndum austan við Ísland finnst 41 tegund.
Lirfur moskítóflugna lifa í vatni. Þar sía þær þörunga og bakteríur úr vatninu sér til matar. Lirfurnar liggja upp við vatnsyfirborðið og stinga upp pípu til að ná í súrefni úr loftinu. Þær halda sig oft í sefi eða annars staðar meðfram bökkum þar sem skuggi fellur á vatnið.
Púpurnar liggja einnig undir vatnsyfirborðinu og anda með pípum. Fullorðnu moskítóflugurnar eru á kreiki á sumrin. Lirfur þroskast einnig á sumrin, lífsferill þeirra er stuttur og þær geta haft nokkrar lífsferla á ári. Í köldum löndum eru moskítóflugur í dvala á veturna á púpustiginu, en púpustigið er stutt á sumrin.
Allar ytri aðstæður sem lýst var hér á undan eru til staðar hér á landi. Sú tegund sem væri líklegust til þess að lifa hér á landi er Aedes nigripes. Hana fann ég einu sinni um borð í Flugleiðavél á Keflavíkurflugvelli. Vélin var að koma frá Narsassuaq á Grænlandi og var á leið til Frankfurt í Þýskalandi. Vitað er að moskítóflugur geta lifað í hjólaskálum flugvéla í margar klukkustundir og borist þannig á milli landa, þó að hiti háloftanna fari niður í -50°C.
Ástæðurnar fyrir því að moskítóflugur hafa ekki tekið sér bólfestu á Íslandi, og þá sérstaklega tegundin Aedes nigripes, gætu verið eftirfarandi:
Flugurnar hafa ekki borist úr flugförum í náttúruna.
Flugurnar hafa ekki getað fundið stað til þess að verpa í ef þær hafa borist hingað.
Lífsferill Aedes nigripes passar ekki við íslenskar aðstæður.
Ólíklegt verður að teljast að moskítóflugan hafi ekki tekið sér bólfestu á Íslandi vegna þess að hún hafi ekki borist hingað eða að hún hafi borist hingað en ekki fundið sér stað til þess að verpa á. Moskítóflugan Aedes nigripes hefur fundist í flugvél hér á landi sem fyrr segir. Þá er reglulegt flug bæði frá Reykjavík og Akureyri til Grænlands. Nægar tjarnir og votlendi eru við flugvellina á báðum þessum stöðum.
Sennilega er skýringuna að finna í íslenskum aðstæðum. Á Grænlandi og Norður Skandinavíu er púpan í dvala undir ís á tjörnum yfir veturinn en um leið og ísa leysir klekst púpan og flýgur upp sem fluga. Þetta gerist á vorin, því að vetur á heimskautasvæðum er samfelldur. Á Íslandi eru hins vegar umhleypingar. Um miðjan vetur getur hlýnað skyndilega, ísa leyst en síðan kólnað fljótt aftur.
Við þessi skilyrði myndi púpan klekjast út væri hún til staðar. Flugan þyrfti þá að leita að bráð til að sjúga úr blóð, síðan þyrfti hún nokkra daga til þess að þroska eggin, hitta maka og verpa eggjunum í tjarnir eða votlendi. Umskiptin í veðri á Íslandi á veturna eru svo hröð að moskítóflugan fær ekki svigrúm til þess að ljúka lífsferli sínum. Við þessar aðstæður væri púpan því enn óþroskuð þegar aftur frysti og ís myndaðist á tjörnum.
Á Íslandi eru aftur á móti nokkur önnur skordýr sem sjúga blóð úr spendýrum, eins og til dæmis lýs, flær, veggjalýs og bitmý. Lýs og flær eru sníkjudýr sem eru með fasta búsetu á hýslinum eða í bústað hans og veggjalúsin lifir í húsum. Bitmý lifir hins vegar villt í ám og lækjum og fullorðna flugan sækir á spendýr.
Moskítóflugur og bitmý skynja hærri styrk koltvísýrings í lofti í nágrenni hýslanna sem þær sjúga blóð úr. Þær eru því oft veiddar með því að setja þurrís sem agn í gildrur, en þurrís er frosinn koltvísýringur sem bráðnar hægt og gufar þá um leið upp.
Gísli Már Gíslason. „Af hverju lifa ekki moskítóflugur á Íslandi, fyrst þær geta lifað báðum megin á Grænlandi?“ Vísindavefurinn, 7. mars 2002, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2166.
Gísli Már Gíslason. (2002, 7. mars). Af hverju lifa ekki moskítóflugur á Íslandi, fyrst þær geta lifað báðum megin á Grænlandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2166
Gísli Már Gíslason. „Af hverju lifa ekki moskítóflugur á Íslandi, fyrst þær geta lifað báðum megin á Grænlandi?“ Vísindavefurinn. 7. mar. 2002. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2166>.