Nýlegar rannsóknir benda til að 160 manns sé nægilegur fjöldi til að viðhalda genamengi mannsins á viðunandi hátt. Hins vegar mætti jafnvel helminga þá tölu ef einhverskonar félagsleg stýring yrði viðhöfð.
Mannfræðingurinn John Moore í Háskólanum í Flórída rannsakaði þetta sem hluta af sameiginlegu verkefni með geimvísindamönnum. Verkefnið miðar að því að ákvarða hvernig mannkynið gæti tekist á hendur geimferðir sem taka jafnvel hundruð ára.
Í sambærilegum rannsóknum sem áður hafa verið gerðar hafa menn einblínt nokkuð á hluti eins og lághitafræði og sæðisbanka og nálgast vandamálið frá hernaðarlegu sjónarhorni. Moore segir hins vegar að rétta aðferðin sé einfaldlega sú að senda fjöldskyldur út í geiminn.
Í reikningum sínum miðar Moore við 200 ára geimferð og þar með átta til tíu kynslóðir manna. Þannig koma um það bil tíu einstaklingar til greina sem mögulegir maka fyrir hvern og einn.
Í svona löngum geimferðum er pláss af skornum skammti og vænlegt væri að fækka þeim fjölda fólks sem leggur af stað. Moore bendir á tvær leiðir til þess. Sú fyrri er að leggja upp með ung barnslaus pör, rétt eins og gert var þegar siglt var til nýlendnanna í Polynesíu.
Sú síðari gerir ráð fyrir að áhöfnin bíði með barneignir þar til á síðari hluta frjósemisskeiðs kvennanna, ef til vill þar til þær eru orðnar 35-40 ára. Þannig myndast meira bil á milli kynslóða og hægt væri að komast af með 80 ferðalanga í upphafi. Ókosturinn við þessa aðferð er sá að fæðingargallar aukast eftir því sem móðir er eldri þegar hún eignast barn.
Eitt af því sem menn hafa áhyggjur af í svona litlum hópi er skaðleg minnkun á fjölbreytileika vegna innræktunar. Dennis O’Rourke í Háskólanum í Utah hefur rannsakað þetta ásamt genaflökti. Hann segir að minnkunin í fjölbreytileikanum sé lítil og jafnvel minni en þekkist í litlum samfélögum á jörðinni þar sem þetta er ekki vandamál. Að hans sögn yrðu þessir þættir ekki vandamál svo lengi sem geimferðalangarnir kæmu heim eða hefðu samneyti við annað fólk í lok 200 ára ferðarinnar.
O´Rourke hefur meiri áhyggjur af arfgerðareinkennum upphaflegu ferðalanganna. Þeir gætu haft víkjandi arfgerðareinkenni sem yrðu hættuleg kæmu þau fram í afkomendunum. Þetta atriði mun vera það sem fer næst áhyggjum spyrjanda af skyldleikasjúkdómum. En þess vegna gæti verið nauðsynlegt að skima gen geimfaranna með tilliti til þessa.
Að lokum þarf að gefa því gaum að í litlum samfélögum sem þessu kemur oft upp barátta milli einstaklinganna. Það er til dæmis vel þekkt að í litlum rannsóknarhópum á Suðurskautslandinu og jafnvel hjá fjölskyldum í löngum bílferðum geta lítil deilumál undið hratt upp á sig og endað illa.
- Er hægt að senda geimskutlu með nokkrum fjölskyldum til að kanna líf úti í geimnum? eftir Árdísi Elíasdóttur.
- Er hugsanlegt að maðurinn geti lifað á öðrum plánetum með hjálp tækninnar? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Hvað hefur mannað geimfar komist langt út í geiminn? eftir Tryggva Þorgeirsson.
- Hvað er ríkjandi gen og víkjandi gen? eftir Guðmund Eggertsson.
Mynd af geimskipinu Enterprise úr Star Trek: startrek.com Mynd af Dennis O'Rourke: University of Utah, Department of Anthropology