Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þetta fer meðal annars eftir því hvað átt er við með fækkun. Í spurningunni er einnig rætt um víkjandi erfðaeiginleika sem leiðir hugann að erfðum og æxlun.
Ýmsir eiginleikar manna eins og litaraft, hárgerð, lögun tanna, hæð og fleiri eru breytilegir eftir landsvæðum. Á grundvelli slíkra eiginleika hafa ýmsir höfundar skilgreint allt frá þremur og upp í fleiri en 60 svokallaða "kynþætti" manna. Fjöldi kynþátta ræðst af því hvaða eiginleikar eru notaðir til að skilgreina þá. Innan hvers kynþáttar eru síðan fjöldi stofna. Í Afríku til dæmis eru pygmíar í Kongó stofn minnstu manna í heimi en Masai menn eru stofn hæstu manna í heimi. Mestallur erfðabreytileiki liggur samt á milli einstaklinga.
Ef fólk af öðrum kynþáttum en hinum svokallaða hvíta kynþætti flyst til Vesturlanda þá fækkar þeim hvítu hlutfallslega. Hinsvegar er jákvæður vöxtur í stofnum manna á Vesturlöndum og á Norðurlöndum eins og Íslandi. Fólki af hvíta kynþættinum fjölgar því að höfðatölu þótt því fækki ef til vill hlutfallslega vegna innflutnings manna frá öðrum heimsálfum. Á sama hátt fækkar hlutfallslega fólki af öðrum kynþáttum í öðrum heimsálfum ef norrænir menn flytjast þangað. Sem dæmi má taka flutning Íslendinga til Kanada á öldinni sem leið. Þá fækkaði Indjánum í Manitóba hlutfallslega þótt fjöldi þeirra hafi ef til vill aukist.
Ekki er að vænta mikilla erfðabreytinga á næstu árum og áratugum vegna fólksflutninganna. En til þess að geta sagt til um langtímabreytingar þyrftum við að vita meira eða gefa okkur ákveðnar forsendur. Er til dæmis að vænta jákvæðrar valmökunar þannig að norrænir parist saman, neikvæðrar valmökunar þannig að norrænir og aðfluttir parist oftar en af tilviljun eða er pörun tilviljanakennd eins og Castle-Hardy-Weinberg-lögmálið segir til um? Er náttúrlegt val fyrir eða gegn ljósu hári þannig að tíðni stökkbreyttra gena eykst eða minnkar?
Eru aðrir eiginleikar, sem sagðir eru einkenna norrænt fólk, tengdir ljósu hári? Þeir gætu verið tengdir með beinum erfðatengslum á litningi eða með starfrænum tengslum vegna starfsemi genaafurða. Ef aðrir eiginleikar eru ekki tengdir ljósu hári gæti tíðni slíkra eiginleika aukist (eða minnkað) jafnvel þótt tíðni ljóshærðra minnkaði (eða ykist). Það er því margs að gæta í sambandi við erfðabreytingar.
Lengd kynslóðar er um þrír áratugir. Tímabilið sem spurningin tekur til er því um það bil ein kynslóð eða minna. Það eru engar öruggar vísbendingar um náttúrlegt val gegn einkennum norrænna manna, til dæmis gegn ljósu hári. Ef náttúrlegt val á sér stað hlýtur það að vera veikt (sjá frekari skýringar á náttúrlegu vali Darwins).
Breytingar á tíðni stökkbreyttra gena ("allela" eða samsætna) vegna náttúrlegs vals ráðast af styrk valsins en einnig af því hvort svipfarið er ríkjandi eða víkjandi. Val gegn víkjandi svipgerð er ekki mjög áhrifaríkt í genamenginu því að allelið er hulið í arfblendnu (heterozygous) ástandi. Það má því slá því föstu að breytingar á tíðni allela sem hafa með ljóst hár að gera verði óverulegar ef þá nokkrar vegna náttúrlegs vals. Breytingar á tíðni slíkra allela ráðast því einkum af innflutningi.
Sjá einnig svar Haraldar Ólafssonar við spurningunni: Eru líkur á því að maðurinn (homo sapiens) blandist svo mikið á næstu árum að á endanum verði bara til einn ljósgulbrúnn kynþáttur?
Einar Árnason. „Fækkar víkjandi erfðaeiginleikum sem einkenna norrænt fólk, t.d. ljóshærðum, með auknum fólksflutningum á næstu áratugum?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2000, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=218.
Einar Árnason. (2000, 11. mars). Fækkar víkjandi erfðaeiginleikum sem einkenna norrænt fólk, t.d. ljóshærðum, með auknum fólksflutningum á næstu áratugum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=218
Einar Árnason. „Fækkar víkjandi erfðaeiginleikum sem einkenna norrænt fólk, t.d. ljóshærðum, með auknum fólksflutningum á næstu áratugum?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2000. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=218>.