Sólin Sólin Rís 03:55 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:59 • Sest 03:37 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:27 • Síðdegis: 16:57 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 23:06 í Reykjavík

Hvernig varð fyrsta mannvera í heiminum til?

Einar Árnason

Þróunarfræðin gerir ekki ráð fyrir að til hafi verið nein ein "fyrsta mannvera." Það þarf að minnsta kosti tvo einstaklinga, karl og konu, til að nýr einstaklingur verði til og líf verður einungis til af öðru lífi (sjá umfjöllun um lífgetnað). Hinsvegar má segja að þegar tegund verður útdauð þá sé til síðasta lífveran af þeirri tegund. Þannig hafi verið til síðasta risaeðlan og síðasti geirfuglinn og þannig verði til síðasta mannveran þegar maðurinn deyr út. Aldrei var til fyrsta mannveran en samt verður til sú síðasta. Hvernig má það vera?

Fyrir allar tvíkynja lífverur eins og manninn gildir að aldrei var til nein ein fyrsta lífveran. Kynæxlun tengir einstaklinga saman í net og það net köllum við stofn (population). Tilurð tegundarinnar, til dæmis það hvernig tegundin maður varð til, er því fyrirbæri sem varðar stofna en ekki einstaka mannveru.

Svonefnt sérsvæðalíkan (allopatric model) er oft notað til að skýra myndun tegunda. Gert er ráð fyrir að stofn úr einhverri tegund einangrist frá öðrum stofnum tegundarinnar. Það verður einhver hindrun á flutningi einstaklinga til þessa stofns. Það gæti til dæmis verið að hrauntunga eða ístunga skríði yfir land þannig að stofninn einangrast frá öðrum stofnum. Stofninn lagast nú að aðstæðum á staðnum vegna náttúrlegs vals og verður frábrugðinn öðrum stofnum tegundarinnar (sjá hér frekari skýringar á náttúrlegu vali Darwins).

Flestar stökkbreytingar eru einstakar og því frábrugðnar í þessum stofni frá þeim sem gerast í öðrum stofnum tegundarinnar. Þá ræður hending einnig þróun stofnsins. Stofninn mun því verða frábrugðinn hinum stofnunum. Slíkar þróunarbreytingar geta gerst hægt eða hratt og fer það eftir umhverfisaðstæðum sem og erfðamengi stofnsins. Þegar stofninn hefur þróast það mikið frá öðrum stofnum tegundarinnar að einstaklingar hans geta ekki átt frjó afkvæmi með einstaklingum annarra stofna telst ný tegund komin fram. En það gerist ekki í einu vetfangi heldur hlýtur það að taka einhvern tíma.

Þeir einstaklingar sem tilheyrðu slíkum stofni mannsins voru fyrstu mannverurnar. En tegundamyndun er ferli sem tekur einhvern tíma eins og áður sagði. Það er því skilgreiningaratriði hvenær á þessum ferli fyrstu mannverurnar verða til, hvaða eiginleika þær þurftu að hafa til að teljast "mannverur". Menn geta endalaust deilt um slíkar skilgreiningar en mér finnast skilgreiningarnar ekki áhugaverðar í sjálfu sér. Það er ferlið sem er áhugavert.

Einnig er rétt að benda á að eitt sinn vorum við ekki ein. Í þróunarsögu mannins voru nokkrar tegundir mannvera sem bjuggu samtímis á sama svæði. Lesa má um það hér.

Höfundur

prófessor í líffræði við HÍ

Útgáfudagur

11.3.2000

Spyrjandi

Sigmar Daði Viðarsson

Tilvísun

Einar Árnason. „Hvernig varð fyrsta mannvera í heiminum til?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2000. Sótt 20. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=219.

Einar Árnason. (2000, 11. mars). Hvernig varð fyrsta mannvera í heiminum til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=219

Einar Árnason. „Hvernig varð fyrsta mannvera í heiminum til?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2000. Vefsíða. 20. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=219>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig varð fyrsta mannvera í heiminum til?
Þróunarfræðin gerir ekki ráð fyrir að til hafi verið nein ein "fyrsta mannvera." Það þarf að minnsta kosti tvo einstaklinga, karl og konu, til að nýr einstaklingur verði til og líf verður einungis til af öðru lífi (sjá umfjöllun um lífgetnað). Hinsvegar má segja að þegar tegund verður útdauð þá sé til síðasta lífveran af þeirri tegund. Þannig hafi verið til síðasta risaeðlan og síðasti geirfuglinn og þannig verði til síðasta mannveran þegar maðurinn deyr út. Aldrei var til fyrsta mannveran en samt verður til sú síðasta. Hvernig má það vera?

Fyrir allar tvíkynja lífverur eins og manninn gildir að aldrei var til nein ein fyrsta lífveran. Kynæxlun tengir einstaklinga saman í net og það net köllum við stofn (population). Tilurð tegundarinnar, til dæmis það hvernig tegundin maður varð til, er því fyrirbæri sem varðar stofna en ekki einstaka mannveru.

Svonefnt sérsvæðalíkan (allopatric model) er oft notað til að skýra myndun tegunda. Gert er ráð fyrir að stofn úr einhverri tegund einangrist frá öðrum stofnum tegundarinnar. Það verður einhver hindrun á flutningi einstaklinga til þessa stofns. Það gæti til dæmis verið að hrauntunga eða ístunga skríði yfir land þannig að stofninn einangrast frá öðrum stofnum. Stofninn lagast nú að aðstæðum á staðnum vegna náttúrlegs vals og verður frábrugðinn öðrum stofnum tegundarinnar (sjá hér frekari skýringar á náttúrlegu vali Darwins).

Flestar stökkbreytingar eru einstakar og því frábrugðnar í þessum stofni frá þeim sem gerast í öðrum stofnum tegundarinnar. Þá ræður hending einnig þróun stofnsins. Stofninn mun því verða frábrugðinn hinum stofnunum. Slíkar þróunarbreytingar geta gerst hægt eða hratt og fer það eftir umhverfisaðstæðum sem og erfðamengi stofnsins. Þegar stofninn hefur þróast það mikið frá öðrum stofnum tegundarinnar að einstaklingar hans geta ekki átt frjó afkvæmi með einstaklingum annarra stofna telst ný tegund komin fram. En það gerist ekki í einu vetfangi heldur hlýtur það að taka einhvern tíma.

Þeir einstaklingar sem tilheyrðu slíkum stofni mannsins voru fyrstu mannverurnar. En tegundamyndun er ferli sem tekur einhvern tíma eins og áður sagði. Það er því skilgreiningaratriði hvenær á þessum ferli fyrstu mannverurnar verða til, hvaða eiginleika þær þurftu að hafa til að teljast "mannverur". Menn geta endalaust deilt um slíkar skilgreiningar en mér finnast skilgreiningarnar ekki áhugaverðar í sjálfu sér. Það er ferlið sem er áhugavert.

Einnig er rétt að benda á að eitt sinn vorum við ekki ein. Í þróunarsögu mannins voru nokkrar tegundir mannvera sem bjuggu samtímis á sama svæði. Lesa má um það hér....