Sólin Sólin Rís 02:54 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:20 • Sest 01:15 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:25 • Síðdegis: 16:57 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:36 • Síðdegis: 23:12 í Reykjavík

Hvað er frelsi, hve frjáls getur maður verið?

Ólafur Páll Jónsson

Við segjum ýmist að athafnir séu frjálsar eða ófrjálsar, og tölum þá um athafnafrelsi eða að fólk sé frjálst eða ófrjálst, og tölum þá um persónufrelsi. Þetta tvennt þarf ekki að fara saman. Ófrjálsum manni, til dæmis þræli, getur verið frjálst að gera ýmislegt og frjálsum manni, til dæmis venjulegum íslenskum ríkisborgara, er ófrjálst að gera ýmislegt, til dæmis að taka eigur annarra.

Andstæðan við persónufrelsi er ánauð, og andstæðan við hinn frjálsa mann er þrællinn. Hér er spurningin ekki hvort manni sé frjálst eða ófrjálst að framkvæma einstakar athafnir, heldur hver staða okkar gagnvart öðru fólki er. Við erum ófrjáls, í skilningi persónufrelsisins, að svo miklu leyti sem við erum undir vald annarra sett. Þannig hefur atvinnurekandi, í krafti stöðu sinnar, jafnan talsvert vald yfir starfsmönnum sínum, ekki síst á tímum atvinnuleysis.

Athafnafrelsi er jafnan
  1. frelsi manns
  2. undan hindrun
  3. sem annar maður eða hópur manna er valdur að
  4. til að gera eitthvað tiltekið (eða láta hjá líða að gera eitthvað)
Lítum aðeins nánar á þessi fjögur atriði. Frelsi í þessum skilningi miðast fyrst og fremst við manneskjur, þó að ekkert sé því til fyrirstöðu að víkka hugmyndina út þannig að hún nái líka til dýra. Annar liðurinn tekur til þess að við höfum í huga mögulega hindrun þegar við segjum að einhverjum sé frjálst að gera eitthvað í þessum skilningi. Fangi sem hefur afplánað refsingu er frjáls ferða sinna vegna þess að þær hindranir sem hann bjó við þegar hann sat inni eru ekki lengur til staðar. Þriðji liðurinn segir að einungis þær hindranir sem annað fólk veldur geti talist frelsisskerðandi. Snjóflóð sem fellur á veg er þá ekki frelsisskerðandi, þótt það geti orðið það ef vegagerðinni ber skylda til að ryðja veginn en lætur það hjá líða. Seinasti liðurinn segir svo að frelsi í þessum skilningi miðist við athafnir, hugsanlegar eða raunverulegar.

Stundum þegar við erum að fjalla um frelsi viljum við afmarka viðfangsefnið nánar og tölum þá um pólitískt frelsi, efnahagslegt frelsi, atvinnufrelsi, tjáningarfrelsi, frelsi í viðskiptum og frelsi í ástum, svo að eitthvað sé nefnt.

Forliðirnir ‘pólitískt’, ‘efnahagslegt’ og forskeytin ‘atvinnu-’, ‘tjáningar-’ geta ýmist vísað til þess að athafnirnar sem um sé að ræða séu pólitískar, efnahagslegar, varði atvinnu eða tjáningu, eða að hindranirnar sem skipta máli séu af þessum toga. Hið fyrra virðist þó algengara, að pólitískt frelsi varði pólitískar athafnir og að hindranir sem setja pólitískum athöfnum skorður séu skerðing á pólitísku frelsi. Við getum til dæmis ímyndað okkur að tiltekinn maður geti ekki kosið af því að hann hefur ekki efni á að koma sér á kjörstað (eini leigubílstjórinn á svæðinu selur ferðina óheyrilega dýrt). Hér höfum við dæmi um skerðingu á pólitísku frelsi, en hindrunin er efnahagsleg.

En hversu frjáls getur maður þá verið? Það er ekki hægt að hugsa sér meira athafnafrelsi en að vera laus undan öllum hindrunum sem annað fólk veldur. Slíkt frelsi er fágætt en þó má segja að Róbinson Krúsó hafi búið við það meðan hann var einn á eynni. En hann er þó lítið betur settur með sitt algera athafnafrelsi en glæpamaður sem sendur er í útlegð á afskekta eyðiey. Frelsi í þessum skilningi er því ekki dýrmæti út af fyrir sig þótt það sé mikilsvert í samfélagi manna þar sem möguleikar okkar á að gera það sem hugur okkar stendur til krefjast þess að við höfum ríkulegt athafnafrelsi.

En þótt enginn annar geti takmarkað frelsi Róbinsons Krúsó er spurning hvort hann kunni að búa við frelsisskerðingu sem eigi rætur í hans eigin skapgerð. Stundum segjum við að fólk sé ófrjálst vegna þess að það sé þrælar ástríðna sinna, sé háð fíkniefnum eða haldið óstjórnlegri löngun í súkkulaði. Frelsi í þessum skilningi er þá lagt að jöfnu við sjálfstjórn; sá maður er frjáls sem tekur sjálfur ákvarðanir um hvað hann vill gera en lætur ekki ástríður eða fíkn ráða því.

Því verður raunar ekki svarað í einföldu máli hvort skerðing á persónufrelsi hljóti alltaf að valda skerðingu á athafnafrelsi. Hins vegar virðist að maður geti verið fullkomlega frjáls, í skilningi persónufrelsis, þótt maður búi við takmarkað athafnafrelsi. Margvíslegar greinar stjórnarskrárinnar og annarra laga takmarka stórlega athafnafrelsi okkar en oft á tíðum eru slíkar hindranir taldar nauðsynlegar til að tryggja jafnræði, og þar með persónufrelsi einstaklinganna. Lög sem takmarka rétt atvinnurekenda til að segja starfsfólki upp störfum, og skerða þannig athafnafrelsi þeirra, styrkja stöðu starfsfólks gagnvart atvinnurekendum og geta þannig aukið persónufrelsi starfsfólksins.

Heimildir

Isaiah Berlin, “Tvö hugtök um frelsi”, Heimspeki á tuttugustu öld, Heimskringla 1994.

Atli Harðarson, Vafamál: Ritgerðir um stjórnmálaheimspeki og skyld efni, Hið íslenzka bókmenntafélag 1998.

Kristján Kristjánsson, “Sendibréf um frelsi”, Af tvennu illu, Heimskringla 1997.

John Stuart Mill, Frelsið, Hið íslenzka bókmenntafélag 1978.

Höfundur

Ólafur Páll Jónsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

19.3.2002

Spyrjandi

Logi Ásbjarnarson, f. 1985,
Ingimar Jensson

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Hvað er frelsi, hve frjáls getur maður verið?“ Vísindavefurinn, 19. mars 2002. Sótt 19. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2211.

Ólafur Páll Jónsson. (2002, 19. mars). Hvað er frelsi, hve frjáls getur maður verið? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2211

Ólafur Páll Jónsson. „Hvað er frelsi, hve frjáls getur maður verið?“ Vísindavefurinn. 19. mar. 2002. Vefsíða. 19. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2211>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er frelsi, hve frjáls getur maður verið?
Við segjum ýmist að athafnir séu frjálsar eða ófrjálsar, og tölum þá um athafnafrelsi eða að fólk sé frjálst eða ófrjálst, og tölum þá um persónufrelsi. Þetta tvennt þarf ekki að fara saman. Ófrjálsum manni, til dæmis þræli, getur verið frjálst að gera ýmislegt og frjálsum manni, til dæmis venjulegum íslenskum ríkisborgara, er ófrjálst að gera ýmislegt, til dæmis að taka eigur annarra.

Andstæðan við persónufrelsi er ánauð, og andstæðan við hinn frjálsa mann er þrællinn. Hér er spurningin ekki hvort manni sé frjálst eða ófrjálst að framkvæma einstakar athafnir, heldur hver staða okkar gagnvart öðru fólki er. Við erum ófrjáls, í skilningi persónufrelsisins, að svo miklu leyti sem við erum undir vald annarra sett. Þannig hefur atvinnurekandi, í krafti stöðu sinnar, jafnan talsvert vald yfir starfsmönnum sínum, ekki síst á tímum atvinnuleysis.

Athafnafrelsi er jafnan
  1. frelsi manns
  2. undan hindrun
  3. sem annar maður eða hópur manna er valdur að
  4. til að gera eitthvað tiltekið (eða láta hjá líða að gera eitthvað)
Lítum aðeins nánar á þessi fjögur atriði. Frelsi í þessum skilningi miðast fyrst og fremst við manneskjur, þó að ekkert sé því til fyrirstöðu að víkka hugmyndina út þannig að hún nái líka til dýra. Annar liðurinn tekur til þess að við höfum í huga mögulega hindrun þegar við segjum að einhverjum sé frjálst að gera eitthvað í þessum skilningi. Fangi sem hefur afplánað refsingu er frjáls ferða sinna vegna þess að þær hindranir sem hann bjó við þegar hann sat inni eru ekki lengur til staðar. Þriðji liðurinn segir að einungis þær hindranir sem annað fólk veldur geti talist frelsisskerðandi. Snjóflóð sem fellur á veg er þá ekki frelsisskerðandi, þótt það geti orðið það ef vegagerðinni ber skylda til að ryðja veginn en lætur það hjá líða. Seinasti liðurinn segir svo að frelsi í þessum skilningi miðist við athafnir, hugsanlegar eða raunverulegar.

Stundum þegar við erum að fjalla um frelsi viljum við afmarka viðfangsefnið nánar og tölum þá um pólitískt frelsi, efnahagslegt frelsi, atvinnufrelsi, tjáningarfrelsi, frelsi í viðskiptum og frelsi í ástum, svo að eitthvað sé nefnt.

Forliðirnir ‘pólitískt’, ‘efnahagslegt’ og forskeytin ‘atvinnu-’, ‘tjáningar-’ geta ýmist vísað til þess að athafnirnar sem um sé að ræða séu pólitískar, efnahagslegar, varði atvinnu eða tjáningu, eða að hindranirnar sem skipta máli séu af þessum toga. Hið fyrra virðist þó algengara, að pólitískt frelsi varði pólitískar athafnir og að hindranir sem setja pólitískum athöfnum skorður séu skerðing á pólitísku frelsi. Við getum til dæmis ímyndað okkur að tiltekinn maður geti ekki kosið af því að hann hefur ekki efni á að koma sér á kjörstað (eini leigubílstjórinn á svæðinu selur ferðina óheyrilega dýrt). Hér höfum við dæmi um skerðingu á pólitísku frelsi, en hindrunin er efnahagsleg.

En hversu frjáls getur maður þá verið? Það er ekki hægt að hugsa sér meira athafnafrelsi en að vera laus undan öllum hindrunum sem annað fólk veldur. Slíkt frelsi er fágætt en þó má segja að Róbinson Krúsó hafi búið við það meðan hann var einn á eynni. En hann er þó lítið betur settur með sitt algera athafnafrelsi en glæpamaður sem sendur er í útlegð á afskekta eyðiey. Frelsi í þessum skilningi er því ekki dýrmæti út af fyrir sig þótt það sé mikilsvert í samfélagi manna þar sem möguleikar okkar á að gera það sem hugur okkar stendur til krefjast þess að við höfum ríkulegt athafnafrelsi.

En þótt enginn annar geti takmarkað frelsi Róbinsons Krúsó er spurning hvort hann kunni að búa við frelsisskerðingu sem eigi rætur í hans eigin skapgerð. Stundum segjum við að fólk sé ófrjálst vegna þess að það sé þrælar ástríðna sinna, sé háð fíkniefnum eða haldið óstjórnlegri löngun í súkkulaði. Frelsi í þessum skilningi er þá lagt að jöfnu við sjálfstjórn; sá maður er frjáls sem tekur sjálfur ákvarðanir um hvað hann vill gera en lætur ekki ástríður eða fíkn ráða því.

Því verður raunar ekki svarað í einföldu máli hvort skerðing á persónufrelsi hljóti alltaf að valda skerðingu á athafnafrelsi. Hins vegar virðist að maður geti verið fullkomlega frjáls, í skilningi persónufrelsis, þótt maður búi við takmarkað athafnafrelsi. Margvíslegar greinar stjórnarskrárinnar og annarra laga takmarka stórlega athafnafrelsi okkar en oft á tíðum eru slíkar hindranir taldar nauðsynlegar til að tryggja jafnræði, og þar með persónufrelsi einstaklinganna. Lög sem takmarka rétt atvinnurekenda til að segja starfsfólki upp störfum, og skerða þannig athafnafrelsi þeirra, styrkja stöðu starfsfólks gagnvart atvinnurekendum og geta þannig aukið persónufrelsi starfsfólksins.

Heimildir

Isaiah Berlin, “Tvö hugtök um frelsi”, Heimspeki á tuttugustu öld, Heimskringla 1994.

Atli Harðarson, Vafamál: Ritgerðir um stjórnmálaheimspeki og skyld efni, Hið íslenzka bókmenntafélag 1998.

Kristján Kristjánsson, “Sendibréf um frelsi”, Af tvennu illu, Heimskringla 1997.

John Stuart Mill, Frelsið, Hið íslenzka bókmenntafélag 1978....